Svindl og brellur í kvótakerfinu

Þegar stjórnmálamenn búa til kerfi til þess að leysa vanda er voðinn oftast vís. Eins og öll sértæk úrræði sem stjórnvöld standa fyrir leiðir byggðakvóti af sér óhagræði og spillingu.

„Mikið af svokölluðu „svindli“ í þessu kerfi er þegar menn eru að reyna að finna leiðir framhjá því sem er óframkvæmanlegt. Annaðhvort með því að fá undanþágur eða vera með einhverjar brellur. Það virðist sem kerfið sé byggt upp í kringum það að reyna að koma hlutum í ástand sem var 1970 eða 1980“.

Áður en einhver grípur símann eða pennann til þess að skamma mig fyrir stóryrði verð ég að geta þess, að hér vitna ég í formann starfshóps sem skilaði fyrir skömmu skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta. Í skýrslunni er kveðið fast að orði og höfundar segja í raun undir rós að ekkert vit sé í kerfinu. Talað er um „stirt regluverk“ sem ætti að leggja af. Enginn samningur sé um að byggðarlögin nái mælanlegum markmiðum.

Vegna þess að stjórnmálamenn vilja þarna úthluta gæðum en ekki peningum er stjórnsýslan losaraleg og ýtt er undir spillingu við úthlutunina. Víða heyrast sögur um að byggðakvótinn sé notaður til þess að hygla „réttum“ útgerðum.

Byggðakvótinn er stór hluti af heildaraflamarkinu eða 5,3%. Aðeins fjórar útgerðir á landinu fá meiri kvóta í sinn hlut. Verðmætin sem ríkið úthlutar til byggðanna eru mikil eða milli 5,5 til 7,6 milljarðar króna samkvæmt skýrslunni. Kvótanum er dreift án nokkurra skilyrða – til þess að færa ástandið fimmtíu ár aftur í tímann!

Miðað við þetta er árlegt verðmæti alls kvóta á landinu 100 til 150 milljarðar króna. Það eru 21 til 28 þúsund ódýrar Teslur á hverju ári. Eða 7 til 9 þúsund Landcruiser Luxery, svo talað sé mál sem útgerðarmenn skilja.

Eins og fram kom í grein minni í Morgunblaðinu í liðinni viku geta útgerðir leigt úthlutaðan kvóta frá sér og fengið fyrirhafnarlausan pening. Kerfið býður upp á þetta og ekki við einstakar útgerðir að sakast. Hver vill ekki fá milljarða hlunnindi frá ríkinu?

Lausnin er auðvitað sú að hætta að úthluta byggðakvóta og setja hann á markað. Byggðastuðningur á að vera í formi peninga og með skýr markmið. Bæjarfélögin geta þá keypt kvóta, telji þau það uppfylla markmiðin best.

Með þessu væri stigið fyrsta skref í að taka upp markaðstengt aflagjald fyrir allar veiðiheimildir. Engar gjafir til vildarvina. Ekkert „svindl“ eða „brellur“. Allt sýnilegt. En þótt kjósendur vilji flestir réttlátt kerfi gerir núverandi ríkisstjórn ekkert.

Vel á minnst. Samherji ákvað að auka hlut sinn í Eimskipafélaginu og mun á næstu vikum gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Var það eitt af markmiðum kvótakerfisins að Samherji eignaðist óskabarnið einn?


Birtist í Morgunblaðinu 13.3.2020

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.