Myndin af afa (BJ)

„Hvernig líst þér á afann?“

Ég var að ganga frá blaði til prentunar og ekki beint í stuði til þess að ræða fjölskyldumál. Mundi ekki alveg hvort sá sem spurði mig væri nýorðinn afi. Svo mundi ég það og jú, hann er afi, en það hafði ekki gerst kvöldið áður.

Þannig að ég varð að viðurkenna fávisku mína og spurði einfaldlega:

„Hvaða afa?“

Hinn hélt greinilega að ég væri að grínast eitthvað og horfði kankvíslega á mig. Ég gat ekki einu sinni leikið að ég vissi um hvað málið snerist, þannig að allt sem hann fékk á móti var starandi og opinmynnt andlit.

„Ertu ekki búinn að fara inn á skrifstofuna þína?“ spurði hann þá, þegar hann horfði í hyldýpi vanþekkingar minnar á afanum.

Mér datt í hug að segja að ég hefði sest beint við tölvuna frammi því ég þyrfti að vinna, en þá hefði hann haldið að ég ynni aldrei inni á minni skrifstofu. Það ætlaði ég ekki að viðurkenna svona árla morguns að minnsta kosti.

Svo hefði ég getað sagt jú, því auðvitað hef ég oft farið inn á skrifstofuna.

Eða sagt að honum kæmi það ekki við og skvett úr kaffibollanum mínum yfir hann. En af því að ég hætti að drekka kaffi fyrir tíu árum kom þetta heldur ekki til greina.

Þannig að svarið varð einfaldlega:

„Nei.“ Svo lét ég eins og ég væri niðursokkinn í vinnuna og tæki ekki eftir því þó hann héldi áfram að tala, ég væri í raun búinn að gleyma þessari mynd, sem væri örugglega ekki mjög merkileg heldur.

En auðvitað hugsaði ég ekki um neitt annað. Hann hlaut að hafa náð mynd af mér með dótturdætrunum. Auðvitað er ég ekki egósentrískur (eins og menn geta sannfærst um með því að telja hve sjaldan orðin ég, mig og önnur afbrigði af mér koma fyrir hér að framan. Af því að ég veit að menn nenna ekki að telja get ég vel sagt það. Tuttugu og fimm sinnum sem getur alls ekki talist oft, því að ég er búinn að skrifa 340 orð. Rétt um 8% orðanna vísa beint til mín, sem þýðir að 92% þeirra gera það ekki).

Nei, sjálfhverfa er ekki til í minni orðabók (ég var að fletta því upp, en orðabókin gefur bara orðin sjálfsíkveikja, sjálfskeiðungur og sjálfskvalalosti og ekkert af því er mér í huga heldur). En samt vildi ég ekki gera honum það til geðs að kíkja inn á skrifstofuna. Hann var að vísu farinn, en hver veit nema hann lægi á gægjum bakvið horn. Þess vegna lauk ég verkinu og fór meira að segja fram í eldhús og var búinn að fylla kaffi á bollann, þegar ég mundi að enn er ég á kaffisnúrunni og flýtti mér að hella innihaldinu í vaskinn. Þóttist svo vera í óðaönn að þvo bollann þegar einhver kom inn.

Ég gekk mjög rólega inn á skrifstofuna þannig að engum gat dottið í hug að ég væri agnarögn spenntur.

Myndin lá á borðinu. Tæplega hálfur metri á kant.

Það vill þannig til að ég þóttist vita talsvert um þessa mynd. Þetta er afi sem er á myndinni. Fyrir um 15 árum sá ég þessa mynd á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þá var hún að minnsta kosti tveggja metra há. Ég ætlaði að fá hana lánaða þegar ég varð fimmtugur, en þá var hún týnd. Afi, Benedikt Sveinsson, ávarpar fulltrúa á landsfundinum. Það var Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari sem tók myndina og með lítils háttar njósnavinnu komst ég að því að hún var tekin árið 1945.

Afi er nauðalíkur Einari Sveinssyni á myndinni. Það er gott því að Einar er góður og fallegur maður. Hann er líka jafngamall afa á myndinni.

Í grein í Mogganum þann 19. júní 1945 var sagt frá því að mikill samhugur og eining hefðu ríkt á fundinum. Svo segir:

„Gengið á Lögberg.

Ýmsir fulltrúanna utan af landi óskuðu þess að þeir fengju að kynnast merkustu sögustöðum hins forna Alþingis á Þingvöllum. Einn gagnfróðasti Íslendinga um þessi mál, Benedikt Sveinsson, fyrrum alþingisforseti, var meðal fundarmanna og var hann fenginn til leiðsögu. Að loknum hádegisverði gekk allfjölmennur hópur fundarmanna á Lögberg og flutti Benedikt Sveinsson þar snjalt erindi um Alþingi hið forna og greindi frá merkustu stöðunum, sem við það eru tengdir. Benedikt talaði af klettinum, en áheyrendur voru í gjánni. Taldi Benedikt tvímælalaust, að þar hefði Lögberg verið. Var erindi Benedikts stórfróðlegt og afburða snjalt,. Var því næst gengið um og skoðaðir ýmsir sögustaðir, undir leiðsögn Benedikts. Að lokinni ferð þessari ljetu ýmsir fundarmanna í ljós, að þetta yrði þeim ógleymanleg stund.“

Með greininni er mynd af konum á landsfundi og þar sé ég að Guðrún Pétursdóttir, amma mín, er í efstu röð. Vigfús tók líka þá mynd.

Ég þekkti aldrei afa því hann dó skömmu áður en ég fæddist. „Þú fæddist á besta tíma“, sagði mamma og átti við að það hefði komið sér vel að geta skírt í höfuðið á afa einmitt þá. Og ekki get ég kvartað því að svo sannarlega naut ég nafns hjá ömmu, auk þess sem frændur mínir og nafnar, Blöndal og Sveinsson, voru mér alltaf góðir og miklir vinir meðan allir lifðu.

Í smásögu sem ég skrifaði einu sinni, Landnáma hin meiri, talaði ég um afa. Sagan byrjaði svona:

„Það var eitthvað spennandi við bókakassana í kjallaranum heima. Í kössunum voru bækurnar hans afa. Gamlar og slitnar bækur, sumar héngu varla saman á bláþræði. Fáar í fallegu bandi, helst einhverjir norskir rómanar sem aldrei höfðu verið opnaðir. Afi las aldrei skáldsögur og fáar bækur á útlensku. Þykkt ryklag sat á bókunum þannig að varla var hægt að anda ef maður opnaði þær. Hendurnar urðu þurrar og fingurgómarnir sprungu þegar maður fletti þessum skræðum of lengi.

Fáa menn þekki ég jafnvel og afa minn sem ég heiti í höfuðið á. Samt dó hann árið áður en ég fæddist. Ég sá hann auðvitað oft á myndum og hjá ömmu voru tvær styttur af honum og eitt málverk. Mér er sagt að hann hafi talað fornt mál og vandað, hetjur Íslendingasagna voru honum jafnkunnugar og þeir sem þrömmuðu um stræti Reykjavíkur. Hann efaðist ekki eitt andartak um að sögurnar væru í meginatriðum sannar nema þar sem skolast hefði til í handritum. Eddukvæði, Sturlungu og Íslendingasögur gat hann þulið utanbókar.

Afa fannst lítið til þess koma þegar Sigurður Nordal kom fram með kenningar sínar um að Íslendingasögur væru skáldsögur. Ekki tók hann því heldur vel þegar útlendir prófessorar vildu svipta Sæmund fróða sinni Eddu og sumir gengu svo langt að frádæma Íslendingum allar Eddukviður nema eitthvað lítið og lélegt rusl.“

Morgunblaðsins efndi árið 1913 til keppni um lýsingu á því hvernig góður eiginmaður ætti að vera.  Best hefur geymst svarið: „Fagur eins og Benedikt Sveinsson, sterkur eins og Sigurjón Pétursson [glímukappi á Álafossi], mælskur eins og Ólafur fríkirkjuprestur, gáfaður eins og Einar Benediktsson, hagmæltur eins og Hannes Hafstein, söngmaður eins og Pétur Halldórsson, selskapsmaður eins og Ólafur Björnsson [ritstjóri Ísafoldar og afi Ólafs B. Thors].“

Á myndinni er afi 67 ára gamall. Hann er greinilega enn glæsilegur maður, rúmlega þrjátíu árum eftir lýsingu góðu.

Mér þykir vænt um þessa mynd. Stundin varðveittist um alla eilífð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.