Staðið á sextugu

Nú eru vinir mínir á sextugsaldri að týna tölunni. Einn af öðrum fara þeir yfir strikið og hversu hljótt sem þeir fara með það eru þeir komnir á sjöunda tuginn. Það er auðvitað skárra en kerlingin sem sagðist hafa verið að komast á sjötugasta tuginn, en satt að segja finnst mér á svipnum á þeim að þeim líði svipað og henni.

Ég þarf auðvitað ekki að taka fram að ég er ekki í þessum hópi, ennþá eldhresst og stálminnugt unglamb, en vissulega finn ég til með þessum félögum mínum. Til þess að stytta þeim stundirnar fór ég með tveimur þeirra á blúshátíð um daginn. Blúshátíðir eru greinilega rétti staðurinn fyrir menn á þessum aldri

Um daginn var verið að sýna í bíói einhverja mynd sem heitir 50 gráir skuggar, sem ég reyndar missti af. En þarna á blúshátíðinni hefði mátt gera framhaldið: 500 gráir skuggar. Þarna var varla nokkur maður undir sjötugsaldri nema örfáir tónlistarmenn sem hefur eflaust verið hleypt inn af misgáningi.

Blús er greinilega ekki ungs manns gaman. Þess vegna er mér erfitt að játa að ég hafði bara nokkuð gaman af þessari tónlist, þó að ég entist ekki öll þrjú kvöldin og þyrfti að fara heim og hvíla mig áður en prógramminu lauk hin kvöldin.

Þar sem flestir lesendur þessa dálks eru í yngri kantinum þarf ég að skýra blúsinn aðeins betur. Tónlistin er afar einföld, fáar nótur og hljómarnir ekki margir heldur. Einfaldastir eru þó textarnir. Á blúshátíðinni voru þeir sumir á ensku, en ég hef þýtt staðlaðan texta yfir á ylhýra málið.

Rímið er einfalt. Það þarf bara að ríma við blús. Orðin sem gera það eru ekki mörg: bús, djús, dús, fús, hjús, hús, krús, lús, mús, plús, snús, þús. Ef menn vilja fara út í margatkvæðisorð gefur rímorðabókin braggablús, hóruhús og höfuðlús, en ég mæli ekki með þeim.

Da, da, da, da,da [Skýring: Da, da, dí og dú er spilaði hluti blússins].

Svo kemur aftur:

Da, da, da, da,da

Þá er forspilinu lokið og textinn getur byrjað. Fyrsta línan er svona:

Ég syng bara blús.

Da, da, da, da.

Ekki flókið og jafnvel aldraðir geta lært þessa línu. Sú næsta fylgir afar ströngu innrími, þannig að hvert orð í fyrstu línunni á að ríma við samsvarandi orð í þeirri næstu. Blúsarar hafa leyst þessa rímþraut með því að nota fyrstu línuna óbreytta:

Ég syng bara blús.

Da, da, da, da.

Þetta má endurtaka nokkrum sinnum. Ef blúsarinn vill reyna mikið á áheyrendur kemur kannski smástef inni í:

Ég syng bara blús.
er drekk ég úr krús,
og sötra mitt bús
ég syng bara blús.

En það eru flestir blúsarar löngu uppþurrkaðir þannig að svona flóknir textar eru ekki mikið notaðir. Skærustu stjörnurnar enda samt svona:

Þeir kalla mig Bjögga Gísla [Dóra Braga og svo frv.]
en ég heiti herra Blús.

Da, da, da, da, da,da, da, da, dú, dí, da, da.

Annars voru þeir asskoti góðir sumir. Það sló aðeins útí fyrir Bjögga Gísla, þegar hann sagðist vera settur svona snemma á dagskrána vegna þess að elliheimilið lokaði klukkan tíu. Hefði hann litið í kring um sig hefði hann áttað sig á að hann var staddur á Grund.

Smáatriði í lokin. Það eina sem vantar upp á að lesendur verði fullnuma í blúsnum er að þeir kaupi sér svartan hatt og gangi með hann dags daglega. Menn munu telja að herra Blús sé mættur.

Myndin hér að ofan er einmitt af Herra og frú Blús. Mynd Geir Ólafsson.

Páskafríið með sínum veislum gengur í garð. Alls staðar spyrja menn hver annan í hálfum hljóðum:

„Heldurðu að hann sé með öllum mjalla?“

Svarið er fyrirsjáanlegt.

Svo segir einhver: „Kannski er hann bara svona miklu snjallari en allir aðrir og við áttum okkur ekki á því.“

Andartaks þögn og menn stara á þann sem lét þetta út úr sér.

Svo hlæja allir.

Einn af þeim sem fjallaði um vanda þeirra sem eru komnir yfir strikið um daginn er Einar Kárason rithöfundur. Hann hefur auðvitað leyst marga þrautina þar sem orða þurfti hlutina pent. Hann segir að alls ekki eigi að segja að fólk sem er sextugt sé á sjötugsaldri. Fyrsta árið standi menn á sextugu.

Þetta er auðvitað léttir fyrir marga, en hvað ef menn verða árinu eldri?

Smáútúrdúr. Einhvers staðar las ég að konur sem girntust eldri menn væru kallaðar gráfíkjur. Frænkur mínar hafa margar haft þennan hátt á.

Konur sem taka sér yngri elskhuga og jafnvel eiginmenn mætti þá kalla barnaræningja. Ekki vil ég beint segja að Vigdís mín sé í þeirra hópi, en verð þó að segja tíu ára gamla sögu.

Við vorum stödd í afmæli hjá Valdimari Tómassyni, vini mínum sem dó núna fyrir fáum dögum. Valdi Tóm var vænsti maður og í veislunni var margt manna meðal annars ein skólasystir Vigdísar frá því í barnaskóla. Fram kom að nokkrar vinkonur Valda hefðu riggað upp veislunni með skömmum fyrirvara (enda afmælið eflaust borið brátt að).

Ég ákvað að segja nokkur orð um þennan vin minn og sagði meðal annars að átti gott að eiga svona góðar vinkonur sem gætu galdrað fram fram dýrindis veislu eins og hendi væri veifað. Þessum konum þyrfti ég að kynnast því að innan skamms yrði ég fertugur og vildi halda upp á það með stæl.

Þetta síðasta átti að vera fyndið og salurinn hló eins og til var ætlast.

Hitti ég svo bekkjarsysturina fyrrnefndu sem spurði mig hvort ég væri ekki maður Vigdísar. Ég kvað já við. Hún horfði á mig og sagði án þess að brosa:

„Og þú ert tíu árum yngri.“

Ósköp þykir mér vænt um þessa konu sem ég hef hvorki séð fyrr né síðar.

Hvað gera menn svo þegar þeir verða sextíu og eins, tveggja og svo framvegis? Þá standa þeir ekki lengur á sextugu. Eru þeir þá ekki komnir á sjötugsaldurinn þrátt fyrir speki Sturlunguhöfundarins knáa?

Nei, ég kann ráð við þessu sem margir verða mér þakklátir fyrir.

Þá hafa menn einn, tvo, þrjá … um sextugt.

Málið er leyst.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.