Úr dagbók lögreglunnar?

Lög­regl­an hand­tók síðdeg­is á miðvikudag mann sem var að stela úr versl­un í hverfi 105. Þjóf­ur­inn var óviðræðuhæf­ur vegna ölv­un­ar og gist­i fanga­klefa þar til hægt var að ræða við hann.

Í yfirlýsingu á Facebook daginn eftir kvaðst skálkurinn ævareiður yfir handtökunni sem hann sagði byggða á ólöglegri myndbandsupptöku. „Hafi verið gerð upptaka af mér í versluninni hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Ég stóð einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að beitt hafi verið njósnabúnaði. Það athæfi er alls staðar litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það.“

Þegar fréttamaður hafði samband við ódáminn út af myndbandi, sem sýnir hann hlaupa út með körfu fulla af vörum án þess að borga, sagðist maðurinn hafa heyrt umhverfishljóð að utan, líklega ískur í reiðhjóli, og viljað hraða sér á vettvang til hjálpar.

Þrjóturinn benti á að hann stundaði nágrannavörslu í sínu hverfi og hefði fengið viðurkenningu tryggingafélags fyrir.

Við yfirheyrslur var þorparinn þó bljúgur: „Ég vil biðja þá sem ég kann að hafa reynt að stela frá ein­læg­legr­ar af­sök­un­ar. Það var ekki ætl­un mín að meiða neinn og ljóst má vera að sú hegðun sem þarna var á köfl­um viðhöfð er óafsak­an­leg­. Ég ein­set mér að læra af þessu og mun­ leit­ast við að sýna kurt­eisi og virðingu fyr­ir eigum annarra.“

Hann bætti við: „Ef við tökum fótboltasamlíkingu: Sá sem er búinn að skora sjálfsmark hefur mestan hvata af öllum leikmönnum til að bæta sig og gera betur. Þetta er gríðarlega sterkur hvati sem ég hef núna til að bæta mig, fara yfir farinn veg og bæta mig. Ég hef einsett mér að láta þetta verða til þess að ég verði til fyrirmyndar í allri framkomu.“

Ræninginn taldi fráleitt að hann sætti ákæru og sárnaði mjög að vera þjófkenndur. Margir aðrir hefðu stolið, til dæmis með því að fela peninga í skattaskjólum og hann væri tilbúinn að mæta eiðsvarinn fyrir dómara til þess að bera vitni um það. Hann sagðist oft hafa orðið vitni að svipuðum gripdeildum.

Aðspurður um hvort hann hefði einhver gögn fullyrðingu sinni til sönnunar svaraði sakborningurinn: „Ég skal bara svara þessari spurningu almennt. Ef þessi dómari núna vill kalla eftir gögnum um þjófnað þá væntanlega er hann að biðja um öll þau gögn sem menn eiga af slíku og ég hugsa að þau muni þá einhver skila sér.“

Þegar ribbaldinn var spurður hvort hann ætti slík gögn vafðist honum tunga um tönn en sagði svo: „Það er ekki heimilt að taka gögn í leyfisleysi.“

Sakamaðurinn segist aðspurður „að sjálfsögðu“ sjá eftir stuldinum í hverfi 105, en „ég sé eftir svo mörgum öðrum afbrotum líka“.

Loks óskaði ránsmaðurinn eftir að bóka eftirfarandi: „Öl er annar maður er stundum sagt og það á sannarlega við í þessu samhengi.“


Birt í Morgunblaðinu 8.12.2018

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.