Þegar fjármagnshöftum var létt af lífeyrissjóðum fyrir tæplega tveimur árum var mikil umræða um það, að þó ekki væri nema áhættunnar vegna væri nauðsynlegt að þeir sneru sér að fjárfestingum erlendis. Sumir spurðu þá hvort það væru nokkrir álitlegir fjárfestingakostir í útlöndum. Dónald Trump hafði nýlega tekið við í forsetaembættinu í Bandaríkjunum og menn sáu fram á ömurlega framtíð eftir að vitleysingur hefði tekið við forystu í hinum frjálsa heimi.
Ekki reyndist það svo að hvergi í heiminum væri hægt að fjárfesta nema á okkar 350 þúsund manna eylandi. Nú er aftur á móti þungt í fjárfestum víða um heim. Á Bloomberg vefnum var bent á að átta helstu fjárfestingakostir í Bandaríkjunum væru allir í lægð. Hlutabréf í bæði litlum og stórum fyrirtækjum, alþjóðamarkaðir bæði í vestrænum ríkjum og nýstórveldum (t.d. BRIK-löndunum, Brasilíu, Rússlandi, Indlandi og Kína), ríkisskuldabréf, skuldabréf í fjárfestingaflokki (með einkunn B eða meira), húsnæðismarkaður eða hrávörur. Annað hvort hefðu vísitölur lækkað eða hækkað lítið. Meira að segja árið 2008 hefði mátt finna einhvers staðar tækifæri.
Enn er ekki komin kreppa, en tollastríð Trumps, Brexit, vaxandi þjóðernishyggja og aðrar atlögur að viðskipta- og ferðafrelsi gera það að verkum að hægt hefur á hagkerfi heimsins. Viðvörunarljósin eru byrjuð að blikka.