Ég hugsa. Þess vegna er ég!

Þegar heimspekingurinn Descartes setti fram ofangreinda sönnun sína um tilvist mannsins er hætt við að margir hafi hrist höfuðið. Til hvers þurfti að velta því fyrir sér hvort menn væru til? Það var öllum augljóst sem horfðu í kringum sig. Þeir sjálfir voru til og fjöldi manns í kringum þá. En strax á 17. öld hafði efahyggjan skotið upp kollinum og löngu áður.

Steinn Steinarr orti um ferðalag mannsins í gegnum dimman kynjaskóg af blekkingum. Það er ekki alltaf allt sem sýnist. Flest höfum við lent í því að muna eftir einhverjum stað eða húsi og sjá það svo löngu seinna að það var alls ekki eins og okkur minnti. Margir hafa orð á því að hús séu miklu smærri þegar þeir koma í þau áratugum seinna en þau voru í barnsminni. Heilu hótelin hafa fært sig yfir götuna þegar ég hef komið í þau öðru sinni. Kvikmyndir enda öðruvísi en okkur minnti. Þess vegna var það kannski ekki fráleitt að einhverjir efuðust og héldu að veruleikinn allur væri blekking. Steinn Steinarr sagði í sama ljóði: „[Þ]ú fellur fyrir draumi þínum … og loksins ertu sjálfur draumur hans.“

Þessi hugsun hefur oft komið upp og er alþekkt úr vísindaskáldsögum þar sem menn eru ekki til nema í draumi hvors annars. Speki Descartes er glæsileg á latínu: Cogito, ergo sum! En menn hafa efast um ýmislegt. Heimspekingurinn Zeno þóttist geta sýnt fram á að hreyfingin væri ekki til, meðal annars með þversögninni um Akkiles og skjaldbökuna. Skjaldbakan fer helmingi hægar en Akkiles, en í hvert skipti sem hann er kominn á þann stað þar sem skjaldbakan var hefur hún færst aðeins áfram og hlauparinn knái nær henni þess vegna aldrei. Sagt er að annar heimspekingur, Díógenes, sem bjó í tunnu, hafi ekki gefið mikið fyrir þessi rök. Hann sagðist auðveldlega geta sannað að hreyfingin væri til, stóð upp og gekk í hring.

Oft finnst okkur að meðbræður okkar og -systur mættu hugsa meira, ekki síst áður en þau láta ýmiss konar „speki“ frá sér fara. Sumir töluðu í hringi í gær, tala þvers í dag og kruss á morgun. Aldrei efast þeir samt um að þeir hefi rétt fyrir sér, þó að ekkert samræmi sé í því sem þeir segja. Að efast er uppgjöf í hugum þeirra. En efinn var einmitt lykillinn að uppgötvun Descartes. Efinn um að hann væri til var sönnunin sem hann þurfti. Upprunalega sagði hann nefnilega: Ég efast, þar af leiðandi hugsa ég, þess vegna er ég. Á móti gæti einhverjum dottið í hug að þeir sem aldrei efast hugsi ekki mjög mikið. Eru þeir þá til?

Sögð er lítil skrítla af Descartes. Vinur hans kíkti í heimsókn til hans og spurði: Eigum við ekki að skreppa á kaffihús? Heimspekingurinn þagði andartak og svaraði svo: Ég hugsa ekki.

Þá hvarf hann.

Benedikt Jóhannesson

Birtist áður í 3. tbl. Skýja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.