Nú stelur varla nokkur maður snæri, enda er ekki talið fallegt að stela, en verst þó þegar maður er staðinn að verki. Þann 15. júlí skrifaði ég grein sem birtist á Kjarnanum þar sem ég skýrði meginatriði í sjávarútvegsstefnu Viðreisnar.
Í gær skrifaði Jón Gunnarsson alþingismaður og formaður atvinnumálanefndar Alþingis færslu (afhjúpun má segja) við greinina og birti á FB-síðu sinni:
„Stundum er talað um að menn skreyti sig með stolnum fjöðrum. Þessi hugmynd er keimlík þeirri hugmynd sem ég setti fram í Mbl. fyrir stuttu og bauð upp á frekari umræðu um útfærslu á. Ég hafði kynnt þessa hugmynd m.a. fyrir Daða Má (sem nú er kominn í stjórn Viðreisnar) sl. haust og honum eins og flestum öðrum sem ég fór yfir málið með leist mjög vel á frekari útfærslu á henni. Það hefði verið meiri reisn yfir því hjá Viðreisn að nefna þessa staðreynd og taka undir það sem þegar hefur verið kynnt af þingmanni Sjálfstæðisflokksins.“
Hér er þingmanninum, sem er einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, greinilega mikið niðri fyrir. Margrét Björnsdóttir er fljót að taka undir í athugasemd:
„Já svona er þetta í henni pólitík þekki það mjög vel. Þetta er ljótt og meiðandi. Tek ofan fyrir þér að segja frá því.“
Samkvæmt færslunni er það ekki bara Benedikt sem hefur leikið þennan ljóta leik að skreyta sig með fjöðrum Jóns. Ef ske kynni að Benedikt hefði nefnt þetta einhvers staðar í vor tekur Jón það fram að hann hafi kynnt þessa hugmynd fyrir Daða Má Kristóferssyni, hagfræðingi og stjórnarmanni í Viðreisn, sem leist vel á málið.
Öllum sanngjörnum mönnum hlýtur að vera ljóst að Daði Már hefur gaukað hugmyndinni að Benedikt á stjórnarfundi í Viðreisn. Þeir sem þekkja Benedikt vita, að hann hefur hvorki þekkingu né greind til þess að láta sér detta þetta í hug sjálfur, né fylgist hann nægilega vel með til þess að hafa náð að stela hugmynd Jóns milliliðalaust.
Nei, maður tæki hattinn af fyrir Jóni að fletta ofan af þessum ljóta og meiðandi leik, ef maður gengi með höfuðfat. Sem formaður atvinnumálanefndar þarf hann auðvitað bæði að vera hugmyndasmiður og fylgjast vel með umræðunni um þau mál sem undir nefndina falla.
Sem dæmi má nefna að Jón telur að víðtæk sátt sé um búvörusamningana sem eru nú til umfjöllunar í nefnd hans, en vill gera hana enn „víðtækari“. Jafnframt upplýsti hann að „sú gagnrýni sem kom fram á samningana hafi verið óskilgreind og áttar sig ekki á hvað það var sem að verið var að gagnrýna.“ Hann tók jafnframt fram í samtali sem birtist á Vísi að samstaða sé í nefndinni um meginmarkmið búvörusamningsins.
Þessari hugmynd Jóns dettur mér ekki í hug að stela. Viðreisn er algjörlega andsnúin þessum samningum sem forystumenn ríkisstjórnarinnar stóðu báðir að með undirritun. Segja má að stefna Viðreisnar og Jóns geti ekki verið ólíkari. Svo ég vitni í grein sem ég skrifaði nýlega:
„Viðreisn telur að búvörusamningurinn sé skref aftur á bak fyrir neytendur án þess að bæta hag bænda. Hann skapar ekki svigrúm fyrir nýsköpun og breytingar í landbúnaði. Hann er í raun samsæri stjórnarflokkanna með bændaforystunni til þess að tryggja hag milliliðanna í landbúnaðarvinnslu og er beint gegn valfrelsi neytenda og hagstæðum innkaupum þeirra.“
Jón hefur aftur á móti ekki upplýst um annan stuld Viðreisnar á baráttumáli Sjálfstæðisflokksins frá í síðustu alþingiskosningum. „Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“ Skýr og einföld stefna, hluti af kosningastefnu flokksins, sem Jón man auðvitað eftir.
Þetta var svo mikið kappsmál Sjálfstæðisflokksins að allir verðandi ráðherrar hans gátu um það í kosningabaráttunni. Formaður flokksins sagði meðal annars:
„En við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál [umsóknina um Evrópusambandsaðild] og við munum standa við það.“
Í grunnstefnu Viðreisnar segir: „Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu til þess að ná megi aðildarsamningi sem borinn verði undir þjóðina.“
Þar sem Jón hefur ekki rekið augun í þennan stuld Viðreisnar á stefnumálum flokks hans ákvað ég að verða fyrri til og játa. Það er enginn vafi á því að þetta er sama stefna og Sjálfstæðisflokkurinn boðaði fyrir síðustu alþingiskosningar.
Svo vikið sé aftur að hugmyndastuldi okkar Daða Más sem Jón upplýsti þjóðina um í gær sé ég að frændi Jóns, Þorbergur Steinn Leifsson, bendir honum á að stefnan sem ég skrifaði um í Kjarnanum fyrr í júlí var einmitt sú sama og ég hafði áður fjallað um á fjölsóttum á fundi hjá Viðreisn 8. janúar 2015, væntanlega rúmlega hálfu ári áður en Jón upplýsti Daða Má um sína snjöllu hugmynd. Um málið var líka fjallað í greinum í Vísbendingu í sama mánuði, þ.e. janúar 2015.
En þó að ég hafi stolið hugmynd Jóns fyrirfram án þess að láta hans getið var ég þó svo lítillátur að geta þess að nokkrir fræðimenn höfðu fjallað um málið á undan mér eins og kemur fram í lok greinarinnar í Kjarnanum:
„Meira um útfærslu og aðrar leiðir má lesa hér:
Axel Hall, Daði Már Kristófersson, Gunnlaugur Júlíusson, Stefán B. Gunnlaugsson, Sveinn Agnarsson og Ögmundur Knútsson (2011): Greinargerð um hagræn áhrif af frumvarpi til nýrra laga um stjórn fiskveiða.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (2010): Skilvirkni markaða fyrir aflaheimildir.
Þorkell Helgason og Jón Steinsson (2010): Ráðstöfun aflahlutdeilda með samþættinguendurúthlutunar og tilboðsmarkaðar.“
—
En af því að ég hef verið svo lánssamur að fá að njóta tveggja hugmynda Jóns, annars vegar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna og hins vegar kvótasölunnar, sem ég var svo ósvífinn að stela, áður en hann setti hana fram, vil ég bjóða honum að stela sem allra flestum af hugmyndum Viðreisnar:
Almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki skulu njóta jafnræðis. Jafnrétti stuðlar að aukinni velmegun og tryggir einstaklingnum frelsi til að nýta hæfileika sína og krafta til fulls. Þar með talið skal atkvæðisréttur vera jafn alls staðar á landinu.
Náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar. Þær ber að nýta skynsamlega og greiða markaðsverð fyrir. Þetta á við um sjávarútveg, landbúnað, orkuvinnslu, ferðaþjónustu og fjármálafyrirtæki.
Félagslegt réttlæti sem byggt er á samhug og ábyrgð tryggir jafnan rétt til menntunar og velferðarþjónustu. Ungt fólk hrekist hvorki úr námi né landi og geti komið sér upp húsnæði á sanngjörnu verði. Dregið verði úr skerðingum á almannatryggingalífeyri til aldraðra og öryrkja. Afnumin verði aldurstakmörk á því hve lengi menn megi vinna.
Vestræn samvinna eykur hagsæld þjóðarinnar og er forsenda sterkrar samkeppnishæfni Íslands.Ísland styðji aðgerðir NATO gagnvart yfirgangi Rússa í Úkraínu. Þjóðin greiði atkvæði um framhald viðræðna við Evrópusambandið.
Hagsmunir neytenda eiga að vera í fyrirrúmi. Ekki hagsmunir milliliða eða eignenda einstakra fyrirtækja. Íslendingar verða að taka upp samkeppnishæfa mynt þannig að vextir hér verði sambærilegir við það sem er í nágrannalöndunum. Auka þarf innflutning á landbúnaðarvörum og afnema tolla á þeim svo hratt sem verða má.
Þróttmikið menningarlíf er sérhverri þjóð nauðsyn og ber að styðja og efla.
Viðreisn er nefnilega alveg sama þó að aðrir steli stefnu hennar. Ekki nóg með það. Því fleiri sem stela stefnunni, þeim mun líklegra verður að okkur takist að koma henni í framkvæmd. Ég efast reyndar ekki um að Jóni hefur dottið þetta allt í hug, þó að Daða Má hafi láðst að segja mér frá því.
Það er verst að það er ekkert gagn að því að flokkur Jóns Gunnarssonar lofi einhverju um þessi mál. Þjóðin veit að hann efnir ekki einu sinni þau loforð sem hann tekur fram að staðið verði við.