Íslandsmið eins og sportveiðitúr? (BJ)

Það er minnisstætt þegar formenn stjórnarflokkanna fóru í stuttan veiðitúr í boði leigutaka Norðurár. Samkvæmt fréttum setti annar í ágætan lax en hinn mætti vöðlulaus. Heimsóknin vakti athygli á stangveiði sem er skemmtileg afþreying, en hún er sjaldan ókeypis. Veiðimálastofnun telur að á hverju ári sé veltan um 20 milljarðar króna í greininni. Veiðileyfin sjálf kosta sitt. Það var niðurstaða Sigurbergs Steinssonar í BA ritgerð árið 2009 að heildartekjur af laxveiðileyfasölu á landinu hefðu verið rúmlega 2 milljarðar króna árið 2009. Það jafngildir um 2,5 milljörðum króna á núverandi verðlagi.

Þó að margir veiðimenn kvarti undan verðinu er í sjálfu sér ekki deilt um verðmyndunina. Hún ræðst einfaldlega af framboði og eftirspurn. Ef þeir sem eiga árnar verða of gráðugir geta þeir einfaldlega ekki selt leyfin. Og ef menn vilja eyða sínum eigin peningum í þessa skemmtilegu íþrótt er það þeirra einkamál.

Alvara lífsins

Við Íslandsstrendur eru gjöful fiskimið. Almenn samstaða hefur skapast um að þau séu sameign þjóðarinnar. Flestir eru líka sammála um að ekki er farsælt að opinberir aðilar standi í útgerð. Allt gott fólk sér að það er sanngjarnt að greitt sé rétt verð fyrir réttinn til þess að veiða úr sameiginlegum fiskimiðum þjóðarinnar rétt eins og fyrir veiðitúr í Norðurá.

Þegar kemur að ákvörðun á verðinu vilja stjórnmálaflokkarnir hins vegar ekki nýta hið ágæta tæki markaðinn þar sem framboð og eftirspurn ráða. Þvert á móti er það sérstök Veiðigjaldsnefnd að hætti gamaldags kerfiskarla sem hefur „ákvarðað veiðigjald“ fyrir næsta fiskveiðiár. Og hversu hátt skyldi árgjald sem nefndinni þóknast að ákveða samkvæmt leiðbeiningum stjórnvalda? Áður en menn lesa svarið er rétt að rifja upp að fyrir sportveiðileyfi borga menn 2,5 milljarða króna á ári.

Á næsta ári kostar það aðeins 4,8 milljarða að fá aðgang að heildarafla á Íslandsmiðum. Það er að segja tæplega tvöfalt meira en sportveiðin.

Markaðsleið Viðreisnar

Viðreisn gerir sér glögga grein fyrir því að heppilegt er að úthluta heildaraflamarki. Þannig hefur tekist að byggja upp helstu fiskistofna við Ísland. Aftur á móti er engin sátt um núverandi kerfi þar sem pólitíkusar og býrókratar ákveða hve lítið hægt sé að sleppa með til þess að halda veiðiréttarhöfum glöðum.

Markaðsleið Viðreisnar felst í því að í stað veiðileyfagjalds sé ákveðinn hluti kvótans boðinn upp á hverju ári. Hlutfallið gæti verið milli 5 og 10% á ári. Hver útgerð fái endurgjaldslaust 90-95% af kvóta fyrra árs, en sé svo heimilt að bjóða í heimildirnar. Nýir aðilar gætu líka tekið þátt í uppboðinu.

Markmiðin eru:

1. Sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindinni.

2. Gjaldið sé markaðstengt.

3. Umgjörðin sé stöðug til frambúðar.

4. Nýliðun sé möguleg.

5. Hvatt til hagræðingar og hámarks arðsemi til lengri tíma litið.

Þessi markmið eru þannig að „sanngjarnir menn“ fallast á að þau séu æskileg. Áfram myndu gilda reglur um hámark á veiðirétti einstakra aðila. Útlendingar fengju ekki meiri rétt en þeir hafa nú þó að gjaldtakan væri með þessum hætti.

Reynsla Færeyinga bendir til þess að með uppboðum fái þjóðin mun sanngjarnari hlut af arðsemi auðlindarinnar en áður. Þessi leið er einföld og um hana getur náðst sátt til frambúðar.

Landsbyggðin fær afgjaldið

Aftur og aftur eru landsmenn minntir á það að sjávarútvegur er ekki heppilegur sem undirstöðuatvinnugrein í einstökum byggðarlögum. Það eru ekki bara sjómenn og fiskvinnslufólk sem eiga atvinnuöryggi sitt undir greininni heldur líka rakarinn og kaupmaðurinn, sem sjá viðskiptavinina hverfa með kvótanum. Öllum íbúum er það mikilsvert að grunnstoðir séu styrktar.

Í núverandi kerfi er veiðigjaldið tekið í ríkissjóð. Þannig má segja að það flytji verðmæti úr sjávarplássunum í þéttbýlið. Réttlátara væri að afgjald hvers árs færi í sjóð sem tilheyrði landshlutunum. Skiptingin yrði í sömu hlutföllum og veiðirétturinn. Sjóðirnir yrðu svo nýttir til þess að byggja upp innviði á landsbyggðinni og treystu þannig byggðarlögin, en fjármagnið streymdi ekki frá þeim eins og nú er. Þannig myndu landshlutarnir beint njóta gjalds sem væri miklu sanngjarnara en áður, en væri ekki af svipaðri stærðargráðu og túr í góða laxveiðiá.


Þessi grein birtist upphaflega í Morgunblaðinu

Mynd Halldórs birtist í Fréttablaðinu 26.11.2019

One comment

  1. Sæll Benedikt. Það slær skökku við þegar þú ritar grein um sjávarútveginn þar sem þú tekur fyrir veiðigjaldog tekjur almennings á auðlindinni. Þetta var allt í þínum höndum í þeirri ríkisstjórn sem þú varst fjármálaráðherra í. Það sem þú hefðir þurft að gera var að innheimta skatt af þeim hlunnindum sem aflamarkskvótinn til útgerðamanna er í raun. Þú braust lög númer 90. 2003 með því að ákvarða ekki verðmæti þessara hlunninda árlega að undangengni tillögu ríkisskattstjóra sem lögum samkvæmt númer 90. 2003 á að gefa út verðmætaáætlun þessara hlunninda. Ríkisskattstjórar hafa brotið þessi lög með því að framkvæma ekki þessa verðmætaáætlun. Það er því sem næst að fjármálaráðherra ásamt ríkisskattstjórum hafi stuðlað að tekjumissi fyrir ríkissjóð í hundruða milljarða króna. Það er eitt sem er alvarlegra að þetta er framkvæmt með vitneskju Alþingis og Ríkisendurskoðanda sem er jú fyrrverandi ríkisskattstjóri og er hans skylda að fylgjast með þessu og krefjast lagfæringar á þessum mistökum. Mér þykir líklegt að þetta verði á endanum kallað mútur þeir fjármunir sem sjávarútvegsfyrirtækin eru að greiða til stjórnmálaflokkanna sem „styrk“ í kosningasjóð þeirra. Allur þingheimur þekkir þetta mál og aðhefst ekkert í málinu annað en að láta þetta viðgangast.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.