Rangur misskilningur (BJ)

Frá Hádegismóum barst litlum hluta landsmanna í morgun nýr skammtur af Útgerðartíðindum (sem áður voru kölluð Mogginn af þeim sem þótti vænt um þau, en munu nú vera kölluð Ugginn).

Á árum áður var blaðið kynnt undir slagorðinu; Blað allra landsmanna. Nú mun vera auglýsingaherferð í gangi sem notar slagorðið: Blað 13,7% landsmanna.

Þar tekur ritstjóri blaðsins að sér að kenna undirrituðum eignarrétt. Ritstjórinn er að vísu lærður lögfræðingur, en mér sýnist á skrifunum að best fyrir dagsetning prófsins sé alllöngu liðin. Ekki hefur nokkur maður bent mér á kennsluna í allan dag nema Ingvi Hrafn sem ég var í viðtali hjá, en skoðanir hans og ritstjórans fara saman í þessu efni.

Þó að greinin sé ætluð mér birti ég hana hér á eftir með eigin athugasemdum. Upprunaleg grein er feitletruð eins og eðlilegt er:

„Misskilningur

Formaður Viðreisnar misskilur markaðsleið í fiskveiðum

Misskilningur er eitt það helsta sem stendur umræðum um sjávarútvegsmál fyrir þrifum hér á landi. Dæmi um þetta mátti lesa hér í blaðinu á laugardag, þar sem formaður Viðreisnar skrifaði grein um sportveiðar á laxi í ám landsins og dró af þeim veiðum ályktun um stjórnkerfi fiskveiða á Íslandsmiðum.“

Ritstjórinn hefur greinilega ekki haft tíma til þess að lesa greinina enda var hún ekki birt með jafnstóru letri og Reykjavíkurbréf. Þeir sem ekki sáu grein mína í Ugganum eru allmargir og því birti ég tengil á hana hér.

„Formaðurinn benti á að laxveiðar í ám væru sjaldnast ókeypis afþreying og sagði að verðmyndun veiðileyfanna réðist af framboði og eftirspurn.“

Þetta er rétt eftir haft hjá ritstjóranum, enda er þetta um afþreyinguna í 3. línu.

„Þá kvartaði hann undan því að stjórnmálaflokkarnir vildu ekki „nýta hið ágæta tæki markaðinn þar sem framboð og eftirspurn ráða“ til að úthluta veiðiheimildum á Íslandsmiðum. Hann mælti með „markaðsleið Viðreisnar“, sem felst að hans sögn í því að bjóða upp hluta aflaheimilda hvers árs í stað þess að eigendur heimildanna fái að nýta þær eins og verið hefur.“

Hér bregst lögfræðin ritstjóranum. Í lögum um stjórn fiskveiða segir í grein I.1: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Þess ber þó að geta að lögin voru sett eftir að hann lauk lögfræðiprófi sínu og áður en hann settist á Alþingi. Ritstjórar hafa auðvitað ekki tíma til þess að lesa alls kyns kjaftæði, enda  uppteknir við að lesa greinar um þorskastríðið að undanförnu.

Þjóðin á stofnana en eigendur ritstjórans eiga veiðiheimildirnar. Enginn veit hvers vegna tekið er veiðigjald af þeim. Reyndar var í gamla daga tekið áskriftargjald af Mogganum meðan hann var og hét, en nú skilst mér að menn sem segi honum upp fái blaðið áfram án endurgjalds. Svipað finnst honum að eigi að gilda um veiðiheimildirnar.

„Þarna hefur því miður hent formanninn að snúa staðreyndum á hvolf. Hann fer réttilega fögrum orðum um leiðina sem notuð er við stjórn fiskveiða í ám landsins. Sú leið felst í því að þeir sem eiga veiðiréttinn mega nýta hann að vild. Sumir nýta hann sjálfir til veiða, aðrir leigja hann út, að minnsta kosti að hluta til. Þetta er raunveruleg markaðsleið.

Það sem formaðurinn kallar „markaðsleið Viðreisnar“ er ekki markaðsleið. Það er leið ríkisvæðingar í sjávarútveginum, þar sem ríkið tekur heimildir til veiða af handhöfum þeirra og býður svo upp. Telur Viðreisn æskilegt að fara þá leið gagnvart veiðiréttarhöfum í ám landsins? Á að svipta þá veiðiheimildunum og leyfa þeim svo að bjóða í þær?“

Ritstjóranum er greinilega ekki kunnugt um að veiðiheimildum er úthlutað á hverju ári. Nú er tekið fyrir gjald sem er ákveðið af sérstakri nefnd í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda. Ekki er vitað til þess að „eigendurnir“ hafi neitað að greiða gjaldið fyrir „veiðiheimildirnar sínar“.

Hefði ritstjórinn komist í gegnum lagabálkinn hefði hann kannski getað nýtt árin sín á þingi til þess að breyta þessari vitlausu grein. En af því að maður þarf ekki að fara eftir lögum sem maður hefur ekki lesið þá er þetta auðvitað ekkert mál.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.