Reynir frændi gekk ákveðið upp tröppurnar og ég hugsaði með mér að það væri ekki amalegt að vera svona á sig kominn, orðinn 96 ára gamall. Ég var aðeins lengur á leiðinni til hans en ég hafði sagt honum í símann, en það kom ekki að sök. Svenni frændi var kominn á undan og þeir biðu saman við dyrnar á elliheimilinu. Klukkan var tíu á sunnudagskvöldi.
Við gengum inn í litlu íbúðina sem Reynir hefur búið í undanfarin ár. Þar var allt með sama sniði og venjulega. Á veggnum var gjöf frá afkomendum, mynd sem sagði: Besti afi í heimi.
Þeir gerast örugglega ekki betri, en af því að tíminn líður var búið að líma tvo litla handskrifaða miða framan við þannig að nú stendur: Lang-besti lang-afi í heimi.
Núna í vor varð Reynir langa-langafi.
Á borðinu lá konfektkassi og við Svenni fengum okkur mola. Svo spjölluðum við um gamla tíma og nýja. Kosningarnar bar auðvitað á góma. Reynir sagði sögur frá kosningum í gamla daga.
„Einu sinni kaus mamma hjálparlaust eftir að hún varð blind“, sagði hann.
Steinunn amma bjó hjá Siggu og Reyni síðustu tuttugu æviárin og þau voru henni afar góð. Amma var svosem ekki til vandræða heldur. Hún var orðin sjón- og heyrnarlítil síðustu árin, en samt bærilega hress og bjó heima hjá þeim.
„Ég bjó til skapalón fyrir hana“, sagði Reynir. „Það var prentað afrit af kjörseðli í réttri stærð og ég klippti út ferning þar sem hún átti á setja krossinn. Það gekk svo vel að ég þekkti seðilinn hennar þegar ég fór yfir úrslitin. Enginn merkti jafnflott við réttan staf.“
Steinunn dóttir mín heitir í höfuðið á ömmu og litla dóttir hennar heitir Steinunn María. Í brúðkaupinu hjá Steinunni og Magga hélt Reynir skemmtilegustu ræðuna af mörgum góðum og rifjaði upp þegar hann sem ævilangur bindindismaður hafði hafði afþakkað rækjukokteilinn í sparisjóðaveislu.
„Ég eldroðnaði þegar málið var skýrt fyrir mér“, sagði Reynir. „En ég varð ekkert öðruvísi en hinir sem voru orðnir rauðir eftir fordrykkinn.“
Á sunnudagkvöld ræddum við um Norðfjarðargöngin og sumarbústaðinn hans í Melhvammi.
Svenni spurði afa sinn hvort hann ætlaði ekki að leigja mér bústaðinn, fyrst ég væri kominn í framboð í kjördæminu. Reynir sagðist reyndar hafa ætlað að láta rífa hann því hann væri orðinn lélegur, en það gæti kannski beðið fyrst svona stæði á.
Við rifjuðum upp áttræðisafmælið hans Reynis. Við Vigdís færðum honum marsípangrís frá Nice og Egils appelsín. Af því að hann var í Hveragerði sér til heilsubótar þegar við komum færandi hendi geymdi hann kræsingarnar.
Kannski gerði hann eins og á átta ára afmælinu þegar hann fór upp í fjall með marsípangrís og Seyðisfjarðar appelsínu límonaði sem hann hafði keypt fyrir afmælispeninginn og snæddi einn og sér. Ég varð að afsaka mig með að Seyðisfjarðarlímonaðið hefði verið uppselt.
Reynir kunni vel að halda upp á afmæli. Þegar hann varð sjötugur hjóluðu þeir Svenni til Reykjavíkur að austan. Við Siggi bróðir hjóluðum á móti þeim og vorum samferða þeim síðasta spölinn frá Hólmsá. Þeir áðu í síðasta sinn við Rauðavatn og fengu sér appelsín.
Þegar þeir komu svo heim í Laugarásinn til foreldra minna nældi ég í þá medalíu með mynd af hjólreiðamanni og á stóð Reyðarfjörður-Reykjavík. Ári síðar lauk Reynir hjólahringnum um landið, hringferð sem byrjaði árið 1936 með ferð frá Akureyri til Reykjavíkur. Það tók hann 55 ár, en kláraðist. Ég hef bara hjólað þennan spöl upp fyrir Rauðavatn.
Við Vigdís komum til Reynis í júlí og þá sagðist hann sakna myndar sem hún hafði tekið af þeim systkinum, Unni, pabba og Reyni í Hellisfirði árið 1997 þegar haldið var ættarmót afkomenda afa og ömmu. Þegar hann flutti af Þiljuvöllum hafði myndin týnst „en hún er einhvers staðar á vísum stað“.
Vigdís lofaði að senda myndina um hæl sem hún og gerði. Fann myndina, lét taka af henni afrit og setti í ramma. Nú var hún komin upp á vegg.
Ég hafði orð á því að þarna væri myndin alltaf á sínum stað. Þetta var vísun í sögu sem Reynir sagði mér af konu sem var flutt frá Norðfirði en kom aftur á æskuslóðirnar. Fyrir utan kirkjuna hitti hún prestinn og talaði um hvað alltaf væri gaman að sjá kirkjuna „og klukkan alltaf á sínum stað eins og í gamla daga.“ Ég veit ekki hvort presturinn hafði brjóst í sér til þess að segja henni frá því að klukkan hefði verið sett upp örfáum árum fyrr. Hvers vegna að skemma góða minningu með staðreyndum?
Fleira spjölluðum við. Það var aldrei hörgull á umræðuefnum við Reyni frænda.
Svo þurftum við að tygja okkur. Klukkan var orðin rúmlega ellefu og komið nálægt háttatíma hjá mér. Klukkutími í að Steina frænka hringdi og minnti pabba sinn á að taka meðalið.
Aftur kom talið að kosningum, í þetta sinn þeim sem eru á næsta leiti. Það vafðist fyrir Reyni að breyta um flokk á gamals aldri. „En kannski maður villist aðeins á dálkum með hvar maður setur krossinn.“
„Við útbúum bara skapalón fyrir þig“, sagði Svenni.
Svo kvöddumst við frændurnir með þeim orðum að við sæjumst fljótlega aftur.
Á sunnudagskvöldið var kvaddi ég langbesta og skemmtilegasta föðurbróður í heimi í síðasta sinn.
One comment