Reynir Zoega (2016)

Enginn kunni að lifa lífinu eins vel og Reynir Zoega, föðurbróðir minn. Hann var skarpgreindur og minnugur; hann var ekki ríkur að fé, en átti stóran frændgarð og afkomendur sem hændust að honum; hann var aldrei með gassagang eða upphrópanir, en enginn flutti fyndnari ræður. Upp á Reyni má heimfæra gömul ummæli: „Þá kemur mér hann í hug, er ég heyri góðs manns getið.“

Reynir var vinnusamur og vann í Síldarvinnslunni til 79 ára aldurs, en hann kunni líka að njóta lífsins, ferðaðist mikið innanlands, gekk á fjöll, ók á sínum fjallabíl og hjólaði. Hann hjólaði hringveginn á 55 árum. Túrinn hófst árið 1936 á Akureyri og lauk þar árið 1991, en rétt er að geta þess að ferðin var ekki samfelld.

Reynir átti auðvelt með að sjá skemmtilegar hliðar á tilverunni og sagði vel frá. Eitt sinn kenndi hann mér eftirfarandi aðferð til þess að koma fram málum með lagni. Ef einhver leggur fram tillögu sem maður er ósammála er gott að segja: „Þetta var góð tillaga, en ég er ekki frá því að betra væri að skerpa hana með því að orða hana aðeins öðruvísi.“ Svo lagði Reynir fram sína breytingartillögu, sem sneri þeirri fyrri algerlega við. Upprunalegi tillöguflytjandinn var svo upp með sér af hrósinu að hann brosti útfyrir eyru og hinir samþykktu nýju tillöguna umyrðalaust. Kannski skýrir þetta hve vel hann undi sér í áratugi í minnihluta bæjarstjórnar í rauða bænum.

Fyrir nokkrum árum veiktist Reynir af kvilla sem m.a. dró úr bragðskyni og truflaði sjón. Honum leist ekkert á blikuna en lét sig samt hafa það að bryðja pillur af miklum móð að læknisráði. Ég spurði hvort pillurnar virkuðu og flest hafði lagast. „En ég sé ekki nema hálfa sjón núna“, sagði hann. Það þótti mér lakara að heyra, en þá bætti hann við: „Jú, þegar ég var veikur sá ég tvöfalt.“

Reyni gerði lítið úr því að árin færðust yfir. Ég held að honum hafi aldrei fundist að hann orðinn nógu gamall til þess að ganga í Félag eldri borgara. Í níræðisafmælinu sínu upplýsti hann svo leyndarmálið bakvið það að ná háum aldri. „Maður þarf bara að fæðast snemma og sýna svo þolinmæði.“

Reynir var gæfumaður í einkalífi. Hann og Sigríður Jóhannsdóttir giftu sig á bóndadaginn árið 1942. Alltaf héldu þau upp á brúðkaupsafmælið á bóndadaginn, hvað sem almanakinu leið. Þau voru samrýnd og jafnræði með þeim. Mikill missir var að Siggu þegar hún féll frá árið 1988, langt um aldur fram.

Kært var með Reyni og systkinum hans, Unni og Jóhannesi. Þau fóru margar ferðir með mömmu og Siggu í sumarbústaði og veiði, meðan þær lifðu. Pabbi dó árið 2004 og Unnur tveimur árum seinna. Reynir tregaði þau bæði.

Reynir hélt andlegum kröftum og bærilegri heilsu til síðustu stundar. Hann lifði hamingjusömu lífi og dó á þann veg sem við viljum helst fara. Allir sem til hans þekktu syrgja hann nú og þakka góðar stundir, en við yljum okkur við góðar minningar um einstakan mann sem ég mat öðrum meira. Maður var alltaf ríkari eftir sunnudagssamtölin við Reyni frænda. Börnum hans og fjölskyldum þeirra sendi ég samúðarkveðjur.

Benedikt Jóhannesson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.