Búvörusamningurinn milli ríkisins og bænda er líklegast grófasta aðför að neytendum á undaförnum árum. Með honum er staðnað kerfi verndað um langa framtíð. Stjórnarmeirihlutinn stendur að samningunum og hann er undirritaður af forystumönnum flokkanna, núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra.
Í stuttu máli felur samningurinn það í sér að landbúnaðurinn verður áfram undanþeginn samkeppnislögum og neytendur verða að sætta sig við einokun Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga í áratug. Sérstaklega er hnykkt á undanþágum frá samkeppnislögum, sem er áhugavert í ljósi úrskurðar um vinnuaðferðir MS sem kveðinn var upp í vikunni, þar sem Mjólkursamsalan var sektuð um 440 milljónir króna.
Viðreisn hefur, andstætt stjórnarflokkunum, lýst eindreginni andstöðu við þennan samning og telur það mikið hagsmunamál neytenda að hann verði ekki staðfestur á Alþingi.
Stjórnmálamenn tala
Samningurinn sjálfur er sem fyrr segir gerður af forystumönnum stjórnarflokkanna í ríkisstjórninni, fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra. Þingmenn stjórnarflokkanna virðast ekki skynja mikla óánægju með samningana. Í könnun sem gerð var skömmu eftir að samningarnir voru kynntir kom þó í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem afstöðu tók til samninganna var andsnúinn þeim.
Í nýlegu blaðaviðtali sagðist Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnumálanefndar Alþingis, reikna með að nefndin afgreiði málið frá sér fljótlega. Hann telur mikilvægt að um þau skref sem tekin verði næstu ár ríki „víðtækari sátt“ en hann hefur orðið var við.
Formaðurinn segir að sú gagnrýni sem kom fram á samningana hafi verið óskilgreind og áttar sig ekki á hvað það var sem að verið var að gagnrýna. Hann tekur fram að samstaða sé í nefndinni um meginmarkmið búvörusamningsins.
Landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, tekur í sama streng: „Ég hef ekki trú á því að þeir sem gerðu þessa samninga á sínum tíma hafi verið að semja um eitthvað sem ekki gagnast neytendum og bændum.“ Ekki komi til greina að draga samningana til baka og semja upp á nýtt við Bændasamtökin. Hagsmunir gagnrýnenda liggi ekkert endilega með hagsmunum neytenda eða bænda.
Athyglisvert er að skoða rök stjórnarliðanna: Þeir „skynja ekki mikla óánægju“ og „hafa ekki trú á“ að samningurinn gagnist ekki neytendum og bændum. Sannarlega skotheld rök. „Samstaðan“ sem formaður atvinnumálanefndar segir að sé um meginmarkmið bendir ekki til þess að raddir neytenda hafi heyrst innan nefndarinnar.
Markmið stjórnvalda!
Efst á lista við gerð samninganna var eftirfarandi markmið: „Gerður verði langtímasóknarsamningur til að minnsta kosti tíu ára um starfsskilyrði bænda sem byggist á fjárstuðningi og tollvernd og ætlað er að efla samkeppnishæfni, auka fjölbreytni, stuðla að nýliðun og vera í sátt við umhverfið.“
Það vekur furðu að markmið ráðherra, sem fulltrúa ríkisins í viðræðum við bændur, hafi kvað á um:
• Að samningana skuli gera til langs tíma, sem bindur hendur skattgreiðenda,
• Að byggja samninginn á fjárstuðningi, sem veldur skattgreiðendum kostnaði, og
• Tollvernd, sem skerðir lífskjör almennings.
Ef þetta hefðu verið samningsmarkmið bænda hefði það verið skiljanlegt, en óskiljanlegt og óverjandi að þetta hafi verið markmið ríkisvaldsins.
Markmið af þessu tagi eru einmitt reglan hjá landbúnaðarráðherrum undanfarna áratugi, því að þeir hafa alltaf talið sig fyrst og fremst fulltrúa greinarinnar fremur en neytenda eða skattgreiðenda. Þær breytingar sem þó hafa verið gerðar á reglum um innflutning eru flestar vegna alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að.
Kaupfélags Skagfirðinga segir hins vegar í umsögn til Alþingis: „Kaupfélag Skagfirðinga hefur því með þátttöku í samstarfsverkefni mjólkuriðnaðarins, sem byggt hefur verið á samstarfssamningum um verkskiptingu, fórnað fjölbreytileika í starfseminni og markaðsþátttöku.“
Með öðrum orðum: Samráð og miðstýring er og hefur verið stefnan í landbúnaðarmálum. Þetta er viðurkennt eins og það sé sjálfsagt mál.
Skaðar neytendur og bændur
Samkeppniseftirlitið hefur líka látið í sér heyra: Það er „eindregið mat Samkeppniseftirlitsins að frumvarpið muni að óbreyttu skaða bæði hagsmuni neytenda og bænda. Hvetur Samkeppniseftirlitið til þess að frumvarpið verði endurskoðað.“
Í framhaldinu segir: „Raunar virðist ljóst að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, kemur í veg fyrir eða takmarkar beitingu banns á misnotkun á markaðsráðandi stöðu gagnvart afurðastöðvum í mjólkuriðnaði. Verður þá stigið enn stærra skref í að undanþiggja mjólkuriðnaðinn samkeppnislögum.“
Kaupfélag Skagfirðinga gerir aftur á móti „kröfu um það að það liggi ljóst fyrir með staðfestum hætti hver réttarstaða er varðandi starfsgrundvöll mjólkursamlags félagsins að teknu tilliti til fyrirhugaðra breytinga með lagafrumvarpi. Jafnframt að það sé ekki ásættanlegt að það sé túlkunaratriði stjórnsýslu eða framkvæmdavalds eftir á hver réttarstaðan er.“
Kaupfélagið vill vera alveg öruggt um að ekki verði hróflað við núverandi ástandi.
Aftur til fortíðar
Færa á magntolla á mjólkur- og undanrennudufti og ostum aftur til sama raunverðs og gilti í júní 1995, þegar GATT-samningurinn tók gildi hér á landi, en um er að ræða um 150% hækkun á magntollum. Enn og aftur eru það neytendur sem eiga að borga einokunina enn hærra verði en nú!
Innlendir súkkulaðiframleiðendur þurfa að greiða allt að 170% hærra verð fyrir mjólkurduft heldur en samkeppnisaðilar innan ESB og Kjörís hf. notar einnig mjólkurduft í sína framleiðslu. Fyrirtækin verða að bregðast við með aukinni hagræðingu og framleiðni.
Allt ber að sama brunni. Staða neytenda og innlendra fyrirtækja verður lakari en milliliðir í landbúnaði eiga að græða.
Bændasamtökin fengu því framgengt að ekki hefur verið staðfestur samning milli Íslands og ESB um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur sem áritaður var 17. september 2015. Samkvæmt þeim samningi mun m.a. leyfilegur tollfrjáls innflutningur á ostum frá ESB-löndum aukast úr 100 tonnum á ári í 610 tonn á 4 árum eftir staðfestingu samningsins.
Innflutningur á landbúnaðarvörum hefur verið háður kvótum sem seldir hafa verið á uppboði á háu verði sem hefur tryggt að samkeppni frá erlendri vöru er lítil. SA telja að samhliða auknum beinum styrkjum til landbúnaðar verði stjórnvöld að marka skýra stefnu um hvernig draga megi úr tollvernd og tryggja að framlag landbúnaðar til landsframleiðslu aukist frá því sem nú er á samningstímanum.
Bændaforustan er á annarri skoðun og segir brýnt að samþykkja samningana óbreytta. Formaður þeirra sagði í blaðaviðtali: „Samningarnir eiga að taka gildi um næstu áramót. Það að þetta skuli ekki þegar vera frágengið veldur mikilli óvissu fyrir bændur því menn þurfa í löngum framleiðsluferlum að fara að taka ákvarðanir fyrir næsta ár.“ Ekki er að efa að margar atvinnugreinar myndu gjarnan vilja eyða óvissu um reksturinn næstu tíu árin.
Viðreisn vill vernda hag neytenda
Í stefnu Viðreisnar segir: „Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni þannig að sömu lög gildi um hann og annan atvinnurekstur. Innflutningshöft og tollar á landbúnaðarvörur verði afnumin í áföngum. Bændur verði leystir úr fátæktargildru og ýtt undir aukna fjölbreytni í landbúnaði. Hætt verði framleiðslutengdum styrkjum og frekar beitt beinum styrkjum.“
Viðreisn telur að búvörusamningurinn sé skref aftur á bak fyrir neytendur án þess að bæta hag bænda. Hann skapar ekki svigrúm fyrir nýsköpun og breytingar í landbúnaði. Hann er í raun samsæri stjórnarflokkanna með bændaforystunni til þess að tryggja hag milliliðanna í landbúnaðarvinnslu og er beint gegn valfrelsi neytenda og hagstæðum innkaupum þeirra.
Hátt matvælaverð kemur verst við þá sem minnstar tekjur hafa, þar með talið aldraða, öryrkja og námsmenn. Þessir hópar hafa ekki átt marga málsvara á Alþingi en Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga eiga þar víða hauka í horni