Kjördagurinn var svolítið grámuskulegur, það var ekki borgarstjóraveður sem kallað var í gamla daga. Þá var það talið hjálpa sjálfstæðismönnum í Reykjavík ef sólin skein heiði, það væri örugglega Geir Hallgrímssyni borgarstjóra að þakka. Davíð erfði veðurblíðuna frá Geir og fékk 60% atkvæða í sínum síðustu borgarstjórnarkosningum. Kannanir bentu til þess að hann fengi eitthvað minna núna og veðrið hjálpaði greinilega ekki. En það rigndi að minnsta kosti ekki.
Við Vigdís lásum blöðin sem komu, að svo miklu leyti sem maður var ekki búinn að lesa þau á netinu. Ég hafði orð á því að Fréttablaðiðhefði sett ljóta mynd af Davíð á forsíðuna, ætlaði að fara að lesa eitthvað í það, en sá svo að þau gerðu engan mannamun og allir voru þungbúnir.
Það var samt létt yfir mér, ég klæddi mig í jakkaföt og stakk upp á að við færum að kjósa. Vigdís var til í það og minnti mig á að nú væri ekki kosið í Laugardalshöll lengur, við hefðum fengið áminningu um það.
Ég vissi allt um það, við áttum að fara í Laugarlækjaskólann og mér fannst upplagt að við gengjum. Það fannst Vigdísi slæm hugmynd. Ég ætlaði að halda smáfyrirlestur um hollustu hreyfingar og að það væri hægt að ganga þó að það væri ekki sólskin, en þegar við vorum komin út á tröppur fann ég að það var smá úði og steinþagði. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að mæta í rennblautum jakkafötum.
Vigdís keyrði auðvitað og á leiðinni ókum við framhjá uppábúnum kjósanda á heimleið. Leiðin er hvorki löng né tiltakanlega flókin, en líklegast um tvöfalt lengri á bíl en gangandi. Af því að við erum búin að búa í hverfinu í tuttugu ár að minnsta kosti taldi ég óþarft að vera með leiðbeiningar, sem ég er allajafna óspar á. Svo var líka skilti við Laugalækinn sem sagði: Kjörstaður. Samt gerði Vigdís sig ekki líklega til þess að hægja á sér þegar við nálguðumst gatnamótin. En það er ekki óvenjulegt, en ég hélt mér aðeins fastar og bjó mig undir felgubeygju.
Hún hélt hins vegar áfram veginn og ég hugsaði með mér að hún ætlaði náttúrlega í Höllina eins og venjulega á kjördag, en spurði samt til öryggis: Hvert ertu að fara? því hún hefði getað verið að fara í vinnuna, sem hefði verið talsvert úrleiðis.
„Í Laugalækjaskóla“, svaraði hún eins og ekkert væri eðlilegra og sveigði í átt að Laugarnesskóla. Upp hófust ákafar og afar hraðar samræður um muninn á þessum tveimur skólum og Vigdísi fannst það mjög bjánalegt að menn væru með nokkurn veginn sama nafn á þessum skólum.
Ég var ekkert að segja henni að þeir væru ekki alveg glænýir. Sá eldri liðlega sextugur og hinn örugglega um fimmtugt, en Vigdís er viðbragðsfljót og sneri bílnum við á punktinum. Ég reyndi að hrópa að það væri bíll á leiðinni á móti, en hún sagði að hann yrði bara að hægja á sér fyrst menn væru að rugla svona með nöfnin á skólunum. Hún hefði engar áhyggjur af honum.
„Hann hefði líka lent á mér og ég ekki búinn að kjósa“, hugsaði ég, en steinþagði og lifði af.
„Þessi skilti eru mjög lítil“, sagði hún þegar við komum aftur að Laugalæknum og ég samsinnti því og sagði að borgarstjórnarmeirihlutinn tímdi ekki að gera almennileg skilti. Dagur hefði greinilega ætlað að afvegaleiða okkur.
Í Laugalækjaskóla var stór tafla sem sýndi hvar allir ættu að kjósa. Ég var reyndar búinn að lesa mig til um það að við værum í kjördeild 5, og skiltið staðfesti það. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að lenda aftur í rangri kjördeild.
Við dyrnar beið vinalegur ungur maður og sagði: „Velkomin í fimmtu kjördeildina.“
Þar sátu þrír fulltrúar við borð og spurðu Vigdísi hvar hún byggi sem hún svaraði greiðlega og framvísaði skilríkjum þar um. Konan skildi ekkert í því hvers vegna hún fyndi hana ekki í Sigtúni 27 þangað til við bentum kurteislega á að það gæti verið vegna þess að hún byggi í Selvogsgrunni 27.
Þar fannst hún og fékk kjörseðil.
„Þú setur X framan við þann sem þú ætlar að kjósa“, sagði konan.
Nú var kjörskráin opin á réttum stað og það gekk tiltölulega greiðlega að finna mig. Ég fékk líka kjörseðil, en engar leiðbeiningar og fann að því.
„Ég hélt þú hefðir heyrt hvað ég sagði áðan við konuna“, sagði kjörstjórinn og vildi greinilega ekki taka sénsinn á því að segja „konuna þína“. Allur varinn góður, en þó að við höfum verið prúðbúin fannst mér ótrúlegt að konan héldi að við hefðum hist í partýi um nóttina.
Vigdís er jafnfljót að kjósa og keyra og var komin út úr sínum klefa.
„Ég setti V fyrir framan minn frambjóðanda“, sagði hún.
Ég gerði það auðvitað líka og þannig má þekkja okkar kjörseðla.