Hvers vegna minnkaði fylgi Guðna (BJ)

Það er erfitt að segja sögu forsetakosninganna 2016. Eflaust verða skrifaðar bækur um baráttuna og vitnað til hennar lengi. Sveiflurnar voru á ýmsa lund. Ég var staddur í hófi stuðningsmanna Guðna Th. í gærkvöldi og maður fann að það sló þögn á salinn þegar fyrstu tölur komu og Halla hafði saxað mikið á forskot hans. Áður höfðu umræðurnar aðallega snúist um það hvar Davíð lenti í röðinni. Menn spurðu sig skyndilega hvort sigurinn gæti verið í hættu. En kannanir höfðu sýnt að Guðni ætti minna fylgi út á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Samt gat Halla líka hafa unnið mikið á þar líka. Alls ekki ólíklegt.

Spurningin vaknaði: Hvers vegna minnkaði fylgi Guðna?

Það er of flókið að skýra allar vendingarnar frá áramótum, en það má rifja upp söguna frá miðjum apríl.

Þrettán eða fjórtán misóþekktir einstaklingar höfðu lýst yfir framboði í lok mars. Aðrir voru í þungum þönkum því að margir komu að máli við þá. Enginn virtist líklegur til yfirburðasigurs.

Wintris-málið breytti landslaginu. Guðni Th. lagðist undir feldinn fræga og hugsaði sig um eftir að hafa fengið fjölmargar áskoranir í kjölfar umfjöllunar hans um málið í sjónvarpi. Ólafur Ragnar notaði sama mál til þess að lýsa því yfir að hann væri hættur við að hætta. Eflaust var Ólafur að bíða eftir slíku tækifæri. Svo snertu Panama-skjölin hann líka og óvissan jókst á ný.

Í könnun Frjálsrar verslunar 26. apríl til 1. maí var spurt hvorn menn vildu heldur Ólaf eða Guðna ef valið stæði milli þeirra tveggja. Guðni fékk um tveimur prósentustigum meira, en munurinn var ekki tölfræðilega marktækur. Ólafur var efstur ef fleiri voru nefndir til sögunnar en augljóst var þó að Ólafur væri ekki ósigrandi.

Guðni lýsti yfir framboði 5. maí og fékk strax byr undir báða vængi í könnunum.

Snemma í vor þóttust menn sem vel þekkja til sjá merki þess að Davíð Oddsson hygðist bjóða sig fram. Hann hefur að sögn lengi dreymt um að verða fyrstur til þess að ná þrennunni, að verða borgarstjóri, forsætisráðherra og loks forseti. Hann ætlaði sér fram árið 1996 en fékk lítinn hljómgrunn í könnunum. Hann mun hafa velt framboði fyrir sér árið 2012, en hætti við. Nú lét hann slag standa og hefur líklega ekki ráðfært sig við marga.

Davíð hefur örugglega talið að hann sem gamall jaxl úr baráttunni færi létt með að vinna „dvergana“. Hann lýsti yfir framboði 8. maí. Sagðist í reyndar strax í kjölfarið ekki hafa mikinn metnað til þess að verða forseti. Það var ekki klók byrjun.

Skoðanakannanir eftir að Guðni var kominn fram sýndu strax að Ólafur myndi tapa, enda þjóðin orðin afar þreytt á honum. Líklega hefði hann tapað strax árið 2012 ef fengist hefði sterkari mótframbjóðandi. Ólafur skynjaði þetta og dró sig strax til baka. Það var fyrsti sigur Guðna.

Davíð komst fljótlega í annað sæti í könnunum og sagðist þurfa að vinna sér inn eitt prósent á dag, sem hann taldi greinilega raunhæft markmið. Hann áttaði sig ekkert á stöðu sinni meðal þjóðarinnar. Líklega hefur enginn maður unnið sjálfum sér og sínum hróðri jafnmikið ógagn og Davíð Oddsson með orðfæri sínu og skrifum. Enginn af vinum hans virðist sjá þetta eða þora að segja það við hann. Morgunblaðið hefur skroppið saman undir hans stjórn. Nú munu innan við 15 þúsund áskrifendur vera eftir að þessu blaði sem einu sinni kallaði sig með réttu: Blað allra landsmanna. Enginn skilur hvers vegna eigendur blaðsins gera enga athugasemd, en kannski eru þeir líka hræddir við hann.

Þegar í ljós kom að Guðni var með yfirburðafylgi datt Davíð í hug að segja að þeir tveir væru „aðalframbjóðendur“ eða kannski kallaði hann Guðna „hinn aðalframbjóðandann“. Auðvitað fólst í þessu talsverður hroki, en kannski ekki alveg út í loftið sem áróðursbragð.

Ólafi Ragnari reyndist vel að ráðast á Þóru Arnórsdóttur. Davíð ákvað að fara sömu leið gagnvart Guðna enda þar á heimavelli.

Öllum er ljóst að Davíð hefur ekki legið í greinum Guðna til þess að finna snögga bletti. Það hefur verið einhver stuðningsmaður hans sem tók nokkur komment úr samhengi og færði foringja sínum. Það fer ekki alltaf saman greind og dómgreind.

Þeir Davíð og félagar hafa greinilega ekki áttað sig á því að fólk er ekkert að velta fyrir sér þorskastríðinu og Icesave lengur. Þeir lifa í öðrum veruleika sem er liðinn hjá venjulegu fólki. Þó að einhver tali um „fávísan almúgann“ þá er það orðasamband, en ekki dómur. Enda kom í ljós að Davíð sjálfur hafði talað með þessum hætti í þingræðu og þótti ekki tiltökumál.

Árásir Davíðs hjálpuðu honum ekki neitt, en trufluðu Guðna greinilega. Hann ákvað að svara ekki í sömu mynt, enda er það hvorki hans eðli né hefði það verið honum til framdráttar. Guðni varð aftur á móti óþægilega varfærinn í fasi.

Forsetaembættið er auðvitað mörgum ráðgáta og í sjálfu sér voru vangaveltur frambjóðendanna um það ekki djúpar. Davíð vildi verða einhvers konar húsvörður eða sýningarstjóri á Bessatöðum en kærði sig ekki um siðareglur. Aðrir ætluðu að taka upp ýmis mál sem eru ekki á valdi forsetans. Lítið var talað um það eina vald sem hann hefur, það er neitunarvald samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar.

Leiðir mínar og forsetaframbjóðendanna hafa stundum skorist.

Ástþór var í Langholtsskóla, gekk um með myndavél á maganum og var alltaf sérstakur.

Hildi man ég eftir því að afi hennar og amma bjuggu í næsta húsi við mig. Hún var afar elskulegt barn og við vorum góðir vinir þegar hún var pínulítil.

Elísabet kemur stundum fyrir jólin til þess að selja mér bækurnar sínar. Ég kann vel við hana. Ég kynntist henni þegar mikill vinur minn var á geðdeild og mér finnst gott hvað hún talar opinskátt um sín veikindi.

Guðrúnu mætti ég um daginn þegar ég var að fara í viðtal og hún að koma út. Hún er greinilega afar feimin og mér fannst stjórnendur RÚV vondir við hana kvöldið fyrir kjördag. Það var óþarfi.

Ég hafði gaman að bók Andra Snæs Love Star.

Halla Tómasdóttir hefur hér og þar lent á minni leið og farið vel á með okkur.

Snúum okkur þá aftur að spurningunni:

Hvers vegna minnkaði fylgi Guðna?

Ég hef þekkt Guðna lengi en ekki mikið. Elíza konan hans vann hjá Iceland Review og ég kann afar vel við hana og þau hjón bæði. Guðni vann á sínum tíma hjá Vigdísi konu minni og hún talar vel um hann, sem er þó varla í frásögur færandi, því að hún er umtalsfróm. Jóhannes, pabbi Guðna, kenndi mér leikfimi og var tengileiður kennara vegna félagslífs nemenda í MR. Hann var gull af manni. Þess vegna var það ekki erfitt fyrir mig að velja mér frambjóðanda. Í fyrri forsetakosningum hefur það ekki hjálpað neinum til sigurs í baráttunni.

Ég hitti Guðna tvisvar eða þrisvar eftir að hann bauð sig fram. Í tvígang barst talið að könnunum og jafnoft sagði ég honum að fylgið yrði aldrei svona mikið. Hann svaraði eins: „Vonandi að það haldist yfir 50%“ og ég sagði: „Nei það verður minna.“ Ég sagði það ekki við hann, en hélt að það endaði í 44%.

Ástæðan var fyrst og fremst sú að sagan sýnir að með meiri kynningu sækja óþekktari frambjóðendur oft í sig veðrið. Kjósendur sjá líka að það er óhætt að kjósa aðra sem þeim líst vel á. Þeir þurfa ekki að kjósa þann sem er öruggur. Sú skýring er hins vegar fráleit að fylgi við Höllu hafi vaxið vegna þess að hún hafi þótt líklegust til þess að fella Guðna. Það var engin slík hreyfing í gangi.

Mér fannst kosningabaráttan að mörgu leyti vel rekin hjá Guðna en honum urðu á þrenn mistök, misstór:

  1. Hann fór að tala um hlutverk Ólafs Ragnars eftir að hann hættir. Það var eflaust tilraun til þess að ná „fylgi Ólafs“, en mér fannst þetta ekki góð latína. Ólafur er fullfær um að finna sér sitt eigið hlutskipti og mér fannst þetta hljóma svolítið hrokafullt hjá Guðna, eins og hann ætti að skipa mönnum í sess eftir kosningar. Þetta hafði lítið að segja þó að það pirraði mig.
  2. Eftir að Davíð hóf sínar árásir í þáttum og í Morgunblaðinu fór Guðni að passa sig allt of mikið og missti sinn skemmtilega karakter. Ég sá það sama gerast hjá Guðrúnu Pétursdóttur fyrir tuttugu árum. Hún svarf smám saman af sér sjarmann og fólk missti áhugann, því það er einmitt hann sem fólk fellur fyrir.
  3. Svar Guðna við Brexit-spurningunni var afleitt. Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu er grafalvarlegt mál. Báðir stærstu stjórnmálaflokkarnir eru í upplausn, Skotland og jafnvel Norður-Írland hugsa um sjálfstæði, markaðir um heim allan skjálfa, lýðskrumarar hafa náð yfirhöndinni og Guðni talar um hve jákvæð niðurstaðan sé. Svarið var þeim mun verra að það var greinilega undirbúið og hann hefur fengið slæma ráðgjöf. Hann átti engan séns í að snúa stuðningsmönnum Davíðs og það var slæm dómgreind að reyna það.

Hann bætti ekki um betur á kjördag þegar hann talaði um að Bretar gætu haldið í fjórfrelsið. Það var einmitt það sem meirihluti kjósenda í Bretlandi hafnaði. Þetta svar og frammistaða Höllu kostuðu Guðna um fimm prósent fylgi. Þegar menn vilja þóknast öllum hrífa þeir engan.

Guðni var samt sterkasti frambjóðandinn og hann nær vopnum sínum á ný. Mér fannst Andri Snær ná sér á strik í lokin, en Halla fékk byrinn í seglin sem sýnir að baráttan er ekki búin fyrr en kosningum er lokið. Munurinn milli hennar og Guðna var um 20 þúsund atkvæði í lokin sem er auðvitað mikið en sóknin glæsileg.

Við settum tveir fram spá um kvöldmatarleytið á kjördag, ég og mikill stuðningsmaður Davíðs. Ég var nokkuð nærri lagi. Vanmat sókn Höllu og ofmat þá Andra Snæ og Davíð en hafði röðina milli þeirra rétta. Úrslitin eru auðvitað áfall fyrir Davíð, hann var ekki einu sinni „aðalframbjóðandi“ í lokin samkvæmt eigin skilgreiningu.

Kjósendur voru auðvitað ekki síður að hafna baráttuaðferð Davíðs en honum sjálfum, það sást á því að hann lækkaði í fylgi í lokin. Meira að segja dyggir stuðningsmenn Davíðs átta sig á því að hefði hann sýnt það fas í baráttunni sem hann sýndi að kosningum loknum hefði hann fengið miklu meira fylgi. Vonandi áttar hann sig á því sjálfur og skiptir um gír.

Með kjöri Guðna verða þáttaskil í sögu forsetaembættisins. Þjóðin eignast aftur sameiningartákn og hann mun sinna embættisskyldum sínum með sóma. Guðni er nefnilega eins og hann kemur mönnum fyrir sjónir. Hann hefur enga stóra galla, hvorki leynda né sýnilega.

Benedikt Jóhannesson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.