Hver er sinnar gæfu smiður? (BJ)

Forsætisráðherrann sagði í 17. júní ávarpi sínu:

„Stjórnmálamönnum, sá er hér stendur er þar ekki undanskilinn, er tamt að tala um tækifæri, alls konar tækifæri sem bíða þess að verða gripin og nýtt til hins ýtrasta til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það er rétt að tækifæri Íslands eru mörg og mikil, þjóðin ung og framtakssöm og þekking á atvinnuháttum góð. En við erum fá sem búum hér. Fámennið hefur gert það að verkum að „allir þekkja alla“, eins og sagt er. Það er því mikilvægt þegar við nýtum það sem landið hefur upp á að bjóða að sem flestir njóti með einum eða öðrum hætti.

Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð eigum við að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.

Fólk gerir ekki kröfu um að allir séu jafnsettir, en fólk hefur ekki þol fyrir óréttlátri skiptingu þar sem sumir fá að njóta á meðan aðrir gera það ekki. Sérstaklega á þetta við þegar tilfinning fólks er sú að sumir fái fleiri og betri tækifæri en aðrir. En gleymum því ekki heldur að hver er sinnar gæfu smiður.“

Að sumu leyti kveður hér við annan tón en hjá sama manni sem vildi sem sjávarútvegsráðherra festa lágt og lækkandi auðlindagjald í lög í aldarfjórðung eða svo. Hann vildi sem landbúnaðarráðherra, og vill eflaust enn, festa óréttlátt landbúnaðarkerfi í sessi í áratug. Stjórnarmeirihlutinn hefur með búvörusamningnum gert samsæri gegn neytendum og kjósendum. Nýtt þing á að standi frammi fyrir orðnum hlut.

Ráðherrann vill að „sem flestir njóti með einum eða öðrum hætti“, um leið og hann gerir samninga sem setja neytendur í B-flokk næstu tíu ár. Hann heldur áfram: „[F]ólk hefur ekki þol fyrir óréttlátri skiptingu þar sem sumir fá að njóta á meðan aðrir gera það ekki.“

Allir virðast sammála um að núverandi forsætisráðherra sé venjulegur maður og koma hans í forsæti hafi breytt vinnubrögðum ríkisstjórnarmeirihlutans til hins betra. Ræðan bendir til þess að hann sé réttsýnn maður. En um ríkisstjórnina má þá segja að vont sé hennar ranglæti en verra hennar réttlæti.

Hver er sinnar gæfu smiður, segir ráðherrann og bætir við að allir þekki alla. En í óréttlátu kerfi fá vildarvinirnir, þeir sem þekkja stjórnarherrana best, miklu meiri gæfu úthlutað en allir hinir.

Það segir sína sögu að á Austurvelli var tekin upp ný stefna í þetta sinn, aparheitstefna stjórnarflokkanna. Ráðamennirnir voru öðrum megin girðingar, almenningur víðs fjarri hinum megin.

Ísland er auðugt land, en á hverjum degi erum við að skipta auðlindum þess með óréttlátum hætti. Í stað þess að þeir sem nýta auðlindirnar borgi eðlilegt, markaðstengt afgjald, er aðgangur að þeim gefinn eða seldur á afsláttarverði sem stjórnmálamenn og embættismenn ákveða. Afleiðingin er sú að núverandi kynslóð skilar landinu í verra ástandi en hún tók við því. Velmegunin er tekin að láni hjá komandi kynslóðum.

Í Viðreisn viljum við að þeir sem njóta auðlindanna greiði fyrir markaðstengt gjald, þannig að allir njóti afrakstursins.

Einn er sá hópur sem er refsað fyrir að vera sinnar gæfu smiður. Öldruðum sem hafa safnað sér réttindum í lífeyrissjóð er refsað með því að skerða ellilífeyri almannatrygginga á móti. Kerfið bitnar verst á þeim sem minnst réttindi eiga í lífeyrissjóðum, fólk sem árum saman greiddi í lífeyrissjóð en tapaði réttindum á verðbólgubáli tapar þeim nú aftur. Þau eru engu betur sett en þeir sem aldrei lögðu krónu til hliðar til elliáranna. Þetta er ekki bara sök núverandi stjórnvalda. Sama kerfi gilti hjá fyrri stjórn, velferðarstjórninni sjálfri. Jöfnuðurinn varð svo mikill að mönnum er refsað fyrir að reyna að hjálpa sér sjálfir.

Já, vont er þeirra réttlæti.

Í Viðreisn viljum við taka höndum saman við samtök aldraðra og búa til kerfi sem dregur úr hinum óréttlátu skerðingum.

Sumir spyrja: Hvers vegna ekki afnema þær alveg?

Svarið er einfalt. Við viljum almannatryggingakerfi sem er öryggisnet, en ekki kerfi sem borgar þeim, sem eru þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga lífeyrissjóð sem tryggir þeim mannsæmandi kjör, viðbótarlaun frá ríkinu. Almannatryggingakerfið á að vera fyrir þá sem ekki eru jafnheppnir, án þess að refsa þeim sem eiga örlítil réttindi fyrir forsjálnina. Um þetta erum við og samtök aldraðra sammála.

Auðvitað kostar þetta eitthvað, en það kostar bara brot af þeim tekjum sem ríkisstjórnin færir þeim sem þekkja ráðherrana best. Því þeir fá nefnilega fleiri og betri tækifæri en aðrir.


PS: Ég fékk spurningu um hvað ég ætti við með mannsæmandi kjör. Þeir sem eiga réttindi í lífeyrissjóði upp á 50 til 100 þúsund á mánuði njóta þess núna í nánast engu í núverandi kerfi. Skerðingin er 80-100%. Fimmtíu til hundrað þúsund á mánuði kalla ég ekki mannsæmandi lífeyri. Þessar skerðingar þarf að minnka mikið.

Þeir sem eru svo heppnir að eiga lífeyrisréttindi upp á hálfa til eina milljón á mánuði tel ég að þurfi ekki að fá viðbótarlífeyri frá almannatryggingum.

Þetta á ég við sem öryggisnet og ósanngjarnt kerfi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.