Stefnuskráin (BJ)

Teitur Björn Einarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður og fyrrverandi formaður utanríkisnefndar Sjálfstæðisflokksins skýrði stefnuna 2. mars 2013:
„Í nóvember 2011 samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktun um aðildarviðræður við ESB sem í reynd var málamiðlunartillaga. Á nýafstöðnum landsfundi flokksins var orðalagi þeirrar ályktunar breytt. Í stað þess að hlé verði gert á viðræðunum er lagt til að þeim verði hætt. En málamiðlunartillagan stendur óhögguð og er hún áréttuð. Áfram er lagt til að framhald aðildarviðræðnanna ráðist í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er þjóðaratkvæðagreiðslan um framhald viðræðnanna sem er kjarninn í málamiðlunartillögu Sjálfstæðisflokksins. Innan Sjálfstæðisflokksins eru skiptar skoðanir um ESB og aðildarviðræðurnar eins og gefur að skilja í stórum flokki með breiða skírskotun. En með ályktuninni hefur landsfundur falið forystu Sjálfstæðisflokksins á Alþingi að ná samstöðu um framhald málsins á þessum grundvelli. Tillagan í ályktuninni um utanríkismál er sett fram til að sátt náist meðal þjóðarinnar hvernig leiða megi þetta mikla ágreiningsmál til lykta.
Átök um aðildarviðræðurnar hafa nú staðið yfir í um fjögur ár og litlu sem engu skilað. Kominn er tími til að ná fram samstöðu í þjóðfélaginu um framhaldið og svo hægt sé að beina kröfum og tíma allra að því verkefni að bæta kjör fólks í landinu. Það stendur því frekar upp á aðra flokka að svara því til af hverju þeir geta ekki fallist á að ágreiningur um framhald aðildarviðræðnanna verði lagður í dóm þjóðarinnar. Sú leið er lýðræðisleg og best til þess fallin að skapa sátt.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2013.
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Illugi Gunnarsson, núverandi menntamálaráðherra, sagði í Silfri Egils þann 10. mars 2013:
„Ég er sammála því að það verði stöðvaðar þessar viðræður, að það verði ekki farið í það sem kallað er hægja á eða gera hlé, sem er auðvitað ekkert annað en að halda áfram en bara gera það hægar, og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðin fái að segja sinn hug í því hvort hún vilji klára þetta eða ekki. Ef það er þannig að þjóðin segi já við því þá eru allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.“
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:

„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Hanna Birna Kristjánsdóttir, núverandi innanríkisráðherra, sagði í Silfri Egils þann 17. mars 2013:
„Fyrst og síðast snýst þetta um það að Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum sinnar þjóðar ekki vera best borgið innan Evrópusambandsins. Við erum hins vegar þeirra skoðunar að vilji þjóðin það á einhverjum tímapunkti þá ber okkur að fara í þjóðaratkvæði og niðurstaðan af því, við munum virða hana.“
Sú þjóðaratkvæðagreiðsla myndi fara fram á kjörtímabilinu. Ennfremur sagði Hanna Birna:
„Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fær að ákveða það hvort það verði gengið lengra í þessu máli. Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna.“
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:

„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Í Kosningasjónvarpi RÚV síðastliðið vor sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mestu máli skipta að þjóðin fái að greiða atkvæði um hvort viðræðum yrði haldið áfram.
„Það sem mér þykir mestu máli skipta er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. Og ég treysti þjóðinni til þess að taka upplýsta ákvörðun. Vegna þess hversu mikið ágreiningsmál þetta er, milli flokka, milli þjóðarinnar, milli landsbyggðar og höfuðborgar, þetta fer í gegn um fjölskyldur, eina leiðin til að komast að niðurstöðu um það hvert skuli halda núna, er að spyrja þjóðina,“
sagði Ragnheiður Elín.
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Kristján Þór Júlíusson núverandi heilbrigðisráðherra sagði við Íslending, vefrit fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, 19 janúar 2013:
„Ég tel að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sökum þeirra miklu deilna sem aðildarviðræðurnar hafa skapað í þjóðfélaginu tel ég rétt að þjóðin fái tafarlaust að kjósa um áframhald aðlögunarviðræðna.“
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
24. apríl 2013 var fjallað um málið á Vísi:
„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist líta svo á að það sé komið hlé á viðræðum og ekki gerist þörf á að slíta þeim með formlegum hætti, en þráðurinn verði ekki tekinn upp að nýju „nema með umboði frá þjóðinni úr þjóðaratkvæðagreiðslu“.
Varðandi tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu segir Sigmundur að hún gæti jafnvel orðið snemma á næsta kjörtímabili.

Bjarni og Sigmundur játa báðir að það væri engin kjörstaða ef þjóðin samþykkti framhald á meðan hugsanlegir stjórnarflokkarnir væru á því að Íslandi væri betur borgið utan ESB.

„Það er í sjálfu sér ekki góð staða og vissar flækjur í því ef ríkisstjórn er að framkvæma eitthvað sem hún er ekki hlynnt,“ segir Sigmundur en bætir við að þetta sé afleiðing þess að núverandi stjórn hafi hafið ferlið „á röngum forsendum“. [Hér mun SDG eiga við ályktun Framsóknarflokksins á flokksþingi vorið 2009 þegar samþykkt var að sótt skyldi um aðild að Evrópusambandinu undir ákveðnu skilyrði „Þá setur flokkurinn það skilyrði, að í upphafi viðræðna, það er við Evrópusambandið, verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.“]

Bjarni [Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi fjármálaráðherra] segir málin munu ráðast þegar að því kemur.

„Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið og greiddi atkvæði gegn umsókn,“ segir hann. „En við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það.““

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Á mbl.is 20.8. 2103 hafði Bjarni Benediktsson gleymt stefnuskránni fyrir kosningarnar og sagði:
„Það er hvorki stefna Sjálfstæðisflokksins né Framsóknarflokksins að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.“
Bjarni sagði hins vegar síðar í samtalinu að sjálfur væri hann enn sömu skoðunar:
„Það er hins vegar mín skoðun, og ég ræddi það fyrir kosningar að það gæti farið vel á því að við efndum einhvern tímann á fyrri hluta kjörtímabils, eða þá að það gæti orðið á seinni hlutanum, til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálin.“
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Þann 21. febrúar 2014 samþykkti þingflokkur Sjálfstæðismanna að standa að þingsályktunartillögu sem sagði m.a.:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.“
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Í Vikulokunum á Rás 1 22. feb. 2014 sagði Þorsteinn Pálsson:
„Menn kusu [Sjálfstæðis]flokkinn út á þetta. Nú hefur formaðurinn ákveðið að svíkja þetta. Þetta er eitt stærsta loforð sem gefið hefur verið í íslenskum stjórnmálum og þetta eru ein stærstu svik sem gerð hafa verið í íslenskum stjórnmálum.“
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði 22. feb. 2014 við RÚV  að ákvörðun stjórnarflokkanna um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka séu ekki svik við kjósendur. Heppilegra hefði verið að orða hlutina með öðrum hætti í aðdraganda kosninga heldur en að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sögðu báðir í aðdraganda kosninga að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB.
 „Skilyrði þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi var það að ákveðið væri að halda áfram,“ segir Birgir.
„Auðvitað er rétt að það féllu ýmiss ummæli í aðdraganda kosninganna. En frá því að kosningarnar fóru fram og síðan ríkisstjórnin var mynduð, hafa menn verið að velta fyrir sér hvernig ætti að nálgast þetta viðfangsefni.
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því að hann sæi ómöguleika í því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu undir þeim kringumstæðum að ríkisstjórn og þingmeirihluti sem eru andvíg aðild og aðildarviðræðum ættu að fylgja því máli fram á þessum tíma.“
Formenn stjórnarflokkanna höfðu þessa skoðun í aðdraganda kosninganna. Voru það mistök að hafa lofað þessu fyrir kosningar og geta ekki staðið við það? „Það má orða það þannig að menn hefðu sennilega átt að orða hlutina með öðrum hætti. Það sem hinsvegar hefur gerst í millitíðinni er að menn hafa gert hlé á viðræðunum, menn hafa upplifað það að vera í þeirri stöðu að vera umsóknarríki án þess að vera í virkum viðræðum. Sú reynsla sýnir mönnum einfaldlega fram á að það  er heiðarlegra gagnvart kjósendum Ísland, gagnvart samstarfsmönnum í Evrópu, að hafa línurnar skýrar í þessu.“
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
24. feb. birtist frétt á Vísi þar sem málinu er still þannig upp að aðeins hafi verið tveir kostir í málinu og báðir hafi falið í sér svik. Val forystumanna sjálfstæðismanna hafi verið að velja þann kostinn sem minni svik væru:
Yfirskriftin var: „Meiri svik að ljúka viðræðum en að draga umsóknina til baka“
Fréttin heldur áfram: „Bjarni Benediktsson segir það vera meiri svik við kjósendur Sjálfstæðisflokksins að halda aðildarviðræðum áfram en að draga umsóknina til baka.

„Ég lít ekki svo á að ég sé að svíkja kjósendur Sjálfstæðisflokksins með þessari tillögu,“

sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í samtali við Stöð 2 í dag.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið þeirra skoðunar að við ættum að standa utan Evrópusambandsins. Flokkurinn hefur ályktað um þessi mál og oft á tíðum verið mikil átök. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að það væri heppilegt að útkljá þetta mál með þjóðaratkvæðagreiðslu og ég horfði til þess að það væri hugsanlega hægt að gera það á fyrri hluta þessara kjörtímabils.“

En síðan væri búið að kjósa og ákveðið pólitískt landslag væri í landinu um að hvorugur stjórnarflokkurinn hefði á stefnuskrá sinni að ganga í sambandið og enginn ráðherra hefði áhuga á því.

„Kannski mætti segja að það væri einhver mestu svik sem ég gæti framið að gera aðildarsamning við Evrópusambandið og að koma með hann heim þegar fyrirliggur að mikill meirihluti Sjálfstæðismanna er á móti inngöngu.“

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:

„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
 „Það hefur ekkert kosningaloforð verið svikið enn, svo því sé haldið til haga. langur vegur frá. Þvert á móti hefur formaður Sjálfstæðisflokksins lýst yfir vilja til þess að beita sér fyrir því að það verði samkomulag meðal þingmanna um að það að koma með einhverjum hætti þjóðinni að þeirri ákvörðun sem þarf að taka í þessu máli. Ég skil ekki þær fullyrðingar um að eitthvað annað liggi í spilum eða kortum,“
sagði Kristján Þór.
Kristján sagðist þá ekki hafa  kvikað frá þeirri skoðun sinni að fara eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann dragi þó hins vegar fullkomlega í efa að vilji sé á þinginu til afgreiða málið með þeim hætti að um það náist samstaða.
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Í samtali Hönnu Birnu Kristjánsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins við Mikael Torfason í þættinum Mín skoðun á Stöð 2  16.3. sagði hún aðspurð um þær ásakanir Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, að slit á viðræðum fælu í sér ein mestu svik íslenskrar stjórnmálasögu, velti hún upp stærð og eðli svikanna:
„Ég vil segja við Þorstein: Umræðunni á þingi hefur ekki verið lokað. Bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra hafa ekki útilokað neitt. Ég vil líka segja við fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, að Sjálfstæðisflokkurinn snýst ekki um aðild að Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn snýst um frelsi, val einstaklinganna og lítil ríkisafskipti. Þetta er kjarninn í sjálfstæðisstefnunni. Kjarninn í sjálfstæðisstefnunni er ekki aðild að Evrópusambandinu. Stærstu svik formanns Sjálfstæðisflokksins geta aldrei snúið að Evrópusambandinu.“
Hún var ekki spurð um það hver stærstu svikin gætu þá verið, né bent á það að þetta hefði verið sameiginlegt loforð allra frambjóðenda flokksins fyrir kosningar 2013 en ekki loforð formannsins eins.
 —
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:
„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
12. apríl 2014 sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Stöð 2:
„Og nú er það verkefni eins og við höfum sagt og það hafa allir nefnt það í ríkisstjórninni, að þetta mál í kring um Evrópusambandið nýlega hefur ekki farið nógu vel. Við fórum of hratt með það og fólk var ekki alveg að átta sig á því hvers vegna við gerðum þetta svona hratt. Nú erum við að vinna í því á þinginu og ég held að það skipti mestu máli að allir þeir sem standa innan Sjálfstæðisflokksins vinni að því sameiginlega að finna á því lausn. Og ég er sannfærð um að þinginu getur tekist að finna lausn sem verður breið og ágæt samstaða um og það skiptir miklu máli.“
Ekki kemur fram hvort lausnin felist í því að slíta viðræðunum hægar.
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:

„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“
Vorið 2014 hafði stefnunni verið breytt á xd.is:
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013:

„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Myndin hér að ofan er úr blaði Sjálfstæðismanna í Kópavogi fyrir kosningarnar 2013.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.