Gleðigjafar á vaktinni

Björn Bjarnason skrifar pistil á Evrópuvaktina sem hann kallar: Óánægðir sjálfstæðis­menn standa ekki að óánægjuframboði.

Pistill Björns byrjar svona: „Allt er enn á huldu um hvort þeir sem ætla að berjast fyrir frjálsum markaði og vestrænni samvinnu með því að stofna flokk til að komast í Evrópusambandið láti í raun til skarar skríða.“ Það er sterkt til orða tekið að allt sé á huldu um þetta. Þegar hefur verið kynnt að haldnir verði fundir á næstunni til þess að undirbúa málið.

Björn heldur áfram:„Þeir sem koma einkum fram til að svara fyrir málið láta helst eins og þeir séu bjargvættir pólitískra flóttamanna úr Sjálfstæðisflokknum.“ Ég reikna með að Björn eigi við mig í þessari setningu. Ég hef einmitt sagt að ég telji að stofnun nýs flokks muni hafa lítil áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins eins og það er núna. Það hefur þegar dottið niður úr 35-40% eins og það var í könnunum fyrir landsfundinn í febrúar 2013 í 24% í síðustu könnun. Könnun Capacent Gallups virðist staðfesta þessi orð mín, fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar aðeins niður í 21,5% við það að nýr flokkur komi fram.

Björn greinir könnunina og sér það sem öðrum er hulið: „Sundurgreining á þeim sem kunna að hugleiða að kjósa þetta framboð manna hægra megin við miðju sýnir hins vegar að stærsti hluti kjósendanna skilgreinir sig nú á miðjunni eða til vinstri við hana.“ Þetta eru skrítin vísindi í ljósi þess að spurningin var: Ef fram kæmi nýtt framboð Evrópusinnaðs flokks hægra megin við miðju, hversu líklegt eða ólíklegt er að þú myndir greiða slíku framboði atkvæði þitt í alþingiskosningum ef kosið yrði til Alþingis í dag?

Að mati Björns virðist þetta fólk sem telur líklegt að það kjósi flokk hægra megin við miðju skilgreina sig vinstra megin við hana og hefur þá líklega ekki skilið spurninguna.

Björn hefur ekki verið sérstakur stuðningsmaður núverandi formanns og vill nú láta líta svo út að gagnrýnin beinist sérstaklega að Bjarna: „Forkólfar hugsanlegs framboðs hafa gengið þannig fram á undanförnum vikum að þeir draga skil á milli sín og Sjálfstæðisflokksins, ekki síst með svikabrigslum í garð Bjarna Benediktssonar flokksformanns.“

Þessi orð Björns eru villandi, en nokkrir flokksmenn sem ekki hafa stutt formanninn gegnum tíðina vilja láta líta svo út að gagnrýni snúist einkum gegn honum. Ítrekaðar tilvitnanir í fjölmiðlum staðfesta að allir ráðherrar flokksins lofuðu kosningum um framhald málsins fyrir þingkosningarnar vorið 2013. Enda ekki skrítið því að stefna flokksins eins og hún kom fram í bæklingum og kynningum var: „Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“ Varaformaðurinn, Hanna Birna Kristjánsdóttir, tók mjög afdráttarlaust til orða um þetta, svo dæmi sé tekið.

Enginn flokksmaður gagnrýndi þessa stefnu vorið 2013 svo ég viti. Fréttir herma að a.m.k. 16 af 19 þingmönnum flokksins telji sig nú óbundna af þessu stefnumáli, þannig að ómaklegt er að beina gagnrýni sérstaklega að formanninum.

Björn spilar svo út trompi sínu: „Er ár og dagur liðinn frá því að jafnstór orð hafa fallið um meint svik formanns Sjálfstæðisflokksins og aldrei fyrr i sögunni úr munni fyrrverandi flokksformanns.“

Í fyrsta lagi er rangt að gagnrýnin hafi beinst sérstaklega að formanninum eins og áður er rakið.

Í öðru lagi er Birni greinilega ókunnugt um skrif Morgunblaðsins eftir síðasta Icesave-samninginn, en 7. febrúar 2011 hét leiðari blaðsins: Botnfrosið mat. Hann byrjaði svona:

„Það hefur aldrei þurft kjark til að guggna og gefast upp. Mörg flokksfélög sjálfstæðismanna hafa verið í öngum sínum eftir að formaður flokksins söðlaði óvænt um í Icesave-málinu og lagðist á sveif með þeim Steingrími J. og Jóhönnu.“ Síðar í leiðaranum segir: „Bjarni sagði einnig, sem var hvað dapurlegast í öllum málatilbúnaðinum, að hann væri að haga sér í samræmi við samþykkt Landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem hefur ákveðið að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki standa að samningum um Icesave vegna þess að kröfurnar skorti lögmæti. Það þarf meira þrek en hér er búið yfir til að fara yfir útskýringar sem leiða áttu til þeirrar niðurstöðu.“

Ritstjóri Morgunblaðsins var formaður Sjálfstæðisflokksins í 14 ár.

Reyndar snerist hópur flokksmanna gegn formanninum í Icesave-málinu meðan aðrir, meðal annars ég og flestir fyrrverandi ráðherrar flokksins, studdu Bjarna. Formaður utanríkismálanefndar flokksins, Björn Bjarnason, sagði hins vegar af sér vegna óánægju með formanninn og stefnu hans.

Ekki má gleyma því að Bjarni Benediktsson hefur þurft að berjast við þrjá núverandi þingmenn flokksins um formennskuna. Hann var gagnrýndur harðlega af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í hinni frægu 36% ræðu, þar sem rifjað var upp að flokkurinn væri nánast fastur í 36% fylgi í skoðanakönnunum. Eftir landsfundinn vorið 2013 þar sem samþykkt var harðari Evrópustefna og ályktun um lokun Evrópustofu hefur það ekki verið vandamál.

Að Bjarna var gerð fræg aðför vorið 2013 í aðdraganda kosninganna. Sjálfur studdi ég formanninn þá einarðlega með skrifum og með því að mæta á fundi honum til stuðnings. Ég minnist þess ekki að hafa séð Björn og meðflutningsmann hans að tillögunni um að loka Evrópustofu þar.

Pistill Björns endar svona: „Andrúmsloftið innan Sjálfstæðisflokksins verður ánægjulegra ef óánægjuraddir ESB-aðildarsinna þagna þar.“ Hér hittir Björn naglann á höfuðið, því að það er altalað í flokknum hve einkar glaðlegt andrúmsloft er alltaf í kringum hann og félaga hans á landsfundum sem annars staðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.