Það þykir ekki stórmennska að vilja helst ekki kannast við sinn króga (BJ)

Í Morgunblaðinu í morgun er vitnað til ræðu sem ég flutti á Austurvelli á laugardaginn var. Ég var ánægður að  sjá það, því að ritstjórinn er málefnalegur að vanda. Ég átti von á því að hann myndi vísa til seinasta hluta ræðunnar þar sem vitnað var í formann framtíðarnefndar Sjálfstæðisflokksins:
„Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“
Í fyrstu datt mér í hug að hógværð ritstjórans ylli því að hann nefndi ekki þennan hluta ræðunnar, en í undirfyrirsögn segir svo: „Það þykir ekki stórmennska að vilja helst ekki kannast við sinn króga.“ sem kann að skýra fálætið um þennan hluta ræðunnar.
Líklegast er þó auðvitað að á morgun og hinn verði framhaldsleiðarar um annan og þriðja hluta ræðunnar. Mér finnst gaman að þessu gagnkvæma dálæti okkar ritstjóranna á ræðum hins, en töluglöggur maður benti mér á að ég er átta sinnum nefndur í leiðaranum.
Kemur hér leiðarinn:
Spurull svarar sér út úr
Það þykir ekki stórmennska að vilja helst ekki kannast við sinn króga
Benedikt Jóhannesson tók fréttaviðtal við sjálfan sig á útifundi á Austurvelli um stofnun nýs stjórnmálaflokks. Það var óneitanlega merkileg uppákoma. En Benedikt hafði þá afsökun fram að færa fyrir henni að hann fengi ekki frið í morgunsárið hvern dag vegna fjölmiðlamanna sem væru í spreng vegna þessa hugðarefnis hans og þeirra.
Á þessum tveggja manna fréttamannafundi á Austurvelli spurði Benedikt sig sjálfan fyrst að því hvort hann teldi að nýr stjórnmálaflokkur yrði stofnaður á næstunni. Svo hvort einhverjir hefðu hist af því tilefni og loks hvort þeir hefðu velt vöngum yfir niðurstöðum skoðanakannana. Öllum þessum spurningum svaraði Benedikt hiklaust játandi, enda virtist engin þeirra koma beinlínis flatt upp á hann. En þegar Benedikt spurði sjálfan sig óvænt um það, hvort „eitthvert frægt fólk yrði í flokknum“ virtist hann verða undrandi, en benti sér svo á að um slíkt hefði hann auðvitað ekki neina hugmynd.
Aðspurður af sjálfum sér tók Benedikt hins vegar fram að ólíklegt væri að Sveinn Andri Sveinsson yrði formaður nýja flokksins, sem ekki er búið að stofna.
Benedikt gekk ekki lengra að sér um þetta atriði, en óneitanlega hefði verið fróðlegt að vita hvort mennirnir „sem hittust“ hefðu útilokað fleiri formannsefni eða hvort nægjanlegt hafi verið talið að útiloka Svein Andra strax, áður en frekari skref yrðu stigin. Þetta er allt saman óneitanlega dálítið sérstakt og ekki alveg laust við að hægt sé að hafa gaman af því, þótt ekki sé víst að það sé meiningin.
En það er óneitanlega uppörvandi að allt er þetta gert í góðum og samræmdum stíl. Þannig er frægt, að félag sem styður ákaft aðild að Evrópusambandinu, gerir það undir kjörorðinu „Já Ísland!“
Félag, sem kallar sig Sjálfstæða Evrópumenn og hefur sama hugðarefni og fyrrnefnda félagið, segir í upphafi stefnuyfirlýsingar sinnar að „tilgangur félagsins sé að standa vörð um sjálfstæði Íslands!“ Ef menn hefðu ekki aðeins séð til félagsins gæti vart nokkrum dottið í hug að félagsskapur, sem býður viðmælendum sínum góðan dag með þessum orðum, hefði þá skoðun í mestum hávegum að það væri þess virði að farga drjúgum hluta af íslensku fullveldi til þess að mega uppskera sem endurgjald þess, að fá að lúta faglegri forsjá frá Brussel upp frá því.
Þegar Benedikt Jóhannesson kynnir svo umgjörð nýja flokksins síns og „þeirra sem hittast,“ þá er það líka í stíl: Í þeirri kynningu leggur hann höfuðáherslu á að „baráttumál slíks flokks yrðu frelsi í viðskiptum og vestræn samvinna“. En hann minnist ekki einu orði á að nýi flokkurinn ætli sér að berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu.
Óskaplega hljóta þeir í Samfylkingunni að hafa orðið fegnir, ef ekki himinlifandi, þegar þeir heyrðu hver yrðu helstu áhersluatriði nýja flokksins sem ætti að flísa út úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir samfylkingarmenn sjá ekki betur en að þeir geti þá, hvað sem nýjum flokki líður, fengið að vera áfram og til eilífðarnóns hinn tæri einsmálsflokkur íslenskra stjórnmála. Enda má undir það taka með þeim, að það er auðvitað of í lagt að hafa tvo heila flokka um aðeins eitt og sama málið.
En hitt er svo umhugsunarefni, hvort líklegt sé til árangurs, þegar lagt er upp í vegferð, að telja að slíkt óbragð og ódaunn sé af veganestinu sínu að í það megi hvergi glitta og enginn fái að hnusa af því.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.