Tveggja mála flokkar

Á nýafstöðnu flokksþingi Pírata var lagt upp með tvö meginstefnumál: Stjórnarskrármálið og að samningaviðræður við Evrópusambandið verði kláraðar. Frá þessu hefur verið rækilega greint í fjölmiðlum.

Það hefur hins vegar gleymst að segja frá því að ekki eru nema sex og hálft ár síðan annar flokkur tók einmitt þessi mál upp á sína arma.

Ætli það hafi verið Samfylkingin sem krafðist þess við stjórnarmyndun 2009 að kosið yrði stjórnlagaþing? Það hlýtur líka að hafa verið hún sem ályktaði á flokksþingi í janúar 2009 að Ísland skyldi hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Nei, það var annar framsækinn flokkur undir nýrri forystu: Framsóknarflokkurinn!

Á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 var samþykkt að Ísland skyldi hefja viðræður við Evrópusambandið. Ályktunin sagði:

Markmið

„Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.

Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

Skilyrði

Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.

Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.“

Stjórnlagaþing skýlaus krafa

Í lok janúar 2009 setti Framsóknarflokkurinn það skilyrði fyrir stuðningi sínum við minnihlutastjórn Samfylkingar og VG að kosið yrði stjórnlagaþing og skrifuð ný stjórnarskrá. Í Fréttablaðinu sagði 30.1.2009:

Flokkurinn vill að kosið verði til stjórnlagaþings sem geri heildstæða endurskoðun á stjórnarskránni. Á því sitji 63 kjörnir fulltrúar sem kosnir verði almennri kosningu. Þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands verði ekki kjörgengir. Þingið starfi í sex til átta mánuði og þurfi tveir þriðju þess að samþykkja breytingar á stjórnarskránni. Hún verði síðan lögð undir þjóðaratkvæði.

„Með þessu viljum við að þjóðin ákveði hvernig stjórnarskráin lítur út. Hún hefur verið nánast óbreytt í 135 ár. Endurskoðun hennar getur verið grundvöllur hins nýja samfélags,“ segir Sigmundur Davíð.

Svona var þetta þá. Það er gott að hafa staðfasta leiðtoga.

Þegar Hanna Birna sagði í viðtali nýlega að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki svikið loforð hlýtur hún að hafa meint: „Það var ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem sveik loforð.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.