Sagan leiðrétt (BJ)

Bolli Héðinsson skrifaði áhugaverða grein í Fréttablaðið í gær. Hún byrjaði svona: „Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er.“ Þessi tilvitnun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, höfð eftir einum helsta ráðamanni landsins í garð manns sem dirfðist að vera honum ósammála, eru þau ummæli sem hvað best lýsa ástandi opinberrar umræðu á Íslandi á árunum frá því fyrir aldamót og fram að hruni.

Margir hafa áhuga á því að vita hver þessi ráðamaður muni hafa verið, en Bolli sýnir þá tillitssemi að nafngreina hann ekki. Því er fróðlegt að fletta upp í 7. bindi Rannsóknarskýrslunnar fyrrnefndu, þar sem nánar er fjallað um þessi ummæli, menn nafngreindir og sagan svo leiðrétt. Hefjum lesturinn:

„Þegar fundi með fulltrúum Glitnis lauk segist Tryggvi Þór Herbertsson hafa rætt við Geir og sagt að sér litist illa á fyrirliggjandi tillögu.Hafi Tryggvi lagt til að hann myndi ræða við Davíð og gera úrslitatilraun til að sannfæra hann um þetta.Síðan segist Tryggvi hafa beðið Davíð að ræða við sig undir fjögur augu.Hafi þeir því næst farið inn á skrifstofu Davíðs.Við skýrslutöku lýsti Tryggvi samtali sínu og Davíðs með eftirfarandi hætti: „Ég var rétt byrjaður, þá trylltist hann, sagði að ég væri að grafa undan tillögum hans og sagði: „Þarna situr forsætisráðherra frammi og skelfur eins og lauf í vindi og getur ekki tekið ákvörðun. Hann hlustar á þig og þú ert að grafa undan þessu. Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er.“

Jafnframt sagði hann að ég skyldi ekki hræra í Össuri, þá skyldi hann eiga mig á fæti. Hann var vægast sagt tryllingslegur og mér féll gjörsamlega allur ketill í eldinn. Ég brást við með því að segja að við hefðum verið samherjar til margra ára, ég hefði ekkert annað í huga en framtíð landsins okkar, hann róaðist nokkuð við það en ég sá að hann hugsaði mér þegjandi þörfina.“

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis voru framangreind ummæli Tryggva Þórs Herbertssonar borin undir Davíð Oddsson. Davíð sagði að hann hefði vissulega rætt við Tryggva undir fjögur augu. Hann hefði heyrt frá starfsmönnum Seðlabankans að Tryggvi hefði þetta kvöld meðan hann var í bankanum átt símtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson þar sem hann hefði lýst fyrir honum tillögum Seðlabankans varðandi Glitni.

Davíð lýsti því fyrir nefndinni að hann hefði af þessum sökum verið Tryggva reiður og sagði að það gæti verið að hann hefði verið hvassyrtur í hans garð. Hann neitaði því hins vegar að hafa látið þau orð falla að hann myndi sjá til þess að Tryggva yrði ólíft á Íslandi. Þess í stað hefði hann sagt: „Og ég sagði við hann að ég mundi sjá til þess, ef hann héldi þessu áfram, að hann færi út úr húsinu og það yrðu gefin fyrirmæli um það að hann færi ekki inn í það aftur. Ég held að Ísland hafi ekki verið, sko, hann gæti verið á Íslandi en þetta var skýringin.““

Í ljós kemur sem sagt að Davíð, hefur í raun verið óvenju yfirvegaður í þessu samtali og alls ekki sagt að Tryggva yrði ólíft á Íslandi heldur aðeins í Seðlabankanum, sem er auðvitað bara hluti af Íslandi (óneitanlega afar mikilvægur hluti), og áréttar í lokin að Tryggvi „gæti verið á Íslandi“, en eins og menn vita er heimild Davíðs nauðsynlegur hluti af dvalarleyfi á landinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.