Þegar ég fer á mannamót er ég undantekningarlítið spurður að því hvort Viðreisn muni ekki örugglega bjóða fram við næstu kosningar. Svarið hjá mér er ekkert mjög pólitíkusalegt því að ég segi einfaldlega: Jú!
Það eru færri sem spyrja um stefnumálin, kannski vegna þess að menn telja að þeir viti nokkurn veginn hver þau eru. Við höfum lýst því yfir að við viljum réttlátt samfélag, viðskiptafrelsi, stöðugleika og styðjum vestræna samvinnu. Þetta eru einföld mál, en alls ekki allir sammála um þau. Til dæmis virðast áhrifamenn í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum tilbúnir að selja utanríkisstefnuna fyrir nokkra fiska. Markaðsöflin fá ekki að ráða för í landbúnaði eða sjávarútvegi, sama hvaða flokkar eru við völd.
Á tveimur stefnumótunarfundum hefur hópur fólks unnið að útfærslu á stefnumálum þar sem boðorðið er einfaldleiki. Ég ætla að nefna nokkur mál sem mér finnst skipta miklu:
- Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni. Þetta þarf að vera eins og rauður þráður í gegnum öll stefnumál.
- Tryggja hagsmuni ungs fólks og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með því að lækka vexti og verðbólgu til samræmis við nágrannalönd. Það verður ekki gert nema með því að taka upp annan gjaldmiðil.
- Sjávarútvegur borgi markaðstengt auðlindagjald með því að árlega fari ákveðinn hluti kvótans á markað.
- Bygging nýs Landspítala með áherslu á endurnýjun tækjabúnaðar. Byggingarkostnaður verði fjármagnaður með sölu á hlut ríkisins í bönkum.
- Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni og bændur taki ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum. Hætt verði að skilyrða styrki til landbúnaðar og dregið úr þeim í áföngum jafnframt því sem innflutningshöft og tollar á landbúnaðarvörur verði afnumin.
- Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda með það í huga að óskert náttúra er líka auðlind.
- Ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og bera aðildarsamning undir þjóðina.
- Jafnrétti kynja verði tryggt á öllum sviðum. Mér finnst að öll fyrirtæki yfir ákveðinni stærð eigi að fara í jafnlaunavottun, en það eru ekki allir sammála um það. Sennilega mun það gerast að sjálfu sér, því að fólk mun ekki vilja skipta við fyrirtæki sem ekki standast slíka skoðun.
- Réttindi einstaklinga og fyrirtækja gagnvart ríkinu verði tryggð þannig að ríkið geti ekki gert kröfur án þess að uppfylla sjálft kröfur um eðlilega stjórnsýslu.
- Námsárangur nái að minnsta kosti meðaltali innan OECD. Nám á bæði grunn- og framhaldsskólastigi verði markvissara en nú er. Íslenskir nemendur komi ekki eldri í háskóla en gerist í nágrannalöndum.
- Ísland á að taka þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi, þar með talið móttöku flóttamanna.
- Kosningaréttur á að vera jafn, óháð búsetu.
Almennt gildir að ríkið á ekki að skipta sér af einstaklingunum að þarflausu. Ekki láta vaxtaákvarðanir í hendur pólitíkusa sem munu þá ráðstafa takmörkuðu fjármagni á lágum vöxtum til vildarvina. Ekki úthluta gæðum landsins til ákveðinna hópa án endurgjalds.
Ríkið á að búa til umgjörð stöðugleika sem dregur úr hættu á því að pólitíkusar, auðjöfrar eða sérhagsmunahópar geti ráðskast með þjóðina og eignir hennar. Hluti af þessari umgjörð er breytt stjórnarskrá sem tryggir að almenningur geti komið að málum ef ákveðinn fjöldi kjósenda krefst þess. Meirihluti Alþingis á ekki að valta yfir minnihlutann, en þingið verður að vera starfhæft, umræður eiga að vera markvissar en ekki til þess að þæfa mál. Löggjöf þarf að vanda og undirbúa vel, en ekki henda frumvörpum inn á síðustu dögum þingsins.
Einstaklingar eiga að hafa vel skilgreind réttindi gagnvart ríkinu. Lífskjör þurfa að vera svipuð og nágrannalöndunum. Góð menntun, gróska í menningarlífi og traust heilbrigðisþjónusta eru öll hluti af þessu. Til þess að tryggja þetta þarf að fara vel með fé almennings.
Einfalt og gegnsætt stjórnkerfi, einfaldar og skilvirkar reglur eru dagskipanin.
Gleymum aldrei grundvallaratriðinu: Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni!