Skarpasti maður í þessu fjárans landi (BJ)

Yfir farinn veg með Bobby Fischer eftir Garðar Sverrisson. Útgefandi Skrudda 2015.

Fyrir Íslendinga er Bobby Fischer undarlegur kokteill. Hann var óumdeilanlega snillingur og sérvitringur með skoðanir sem féllu fáum hér á landi í geð. Ég held að flestum hafi þótt vænt um hann með sínum hætti þó að fáir hafi kynnst honum og hann hafi verið kunningjum sínum erfiður. Garðar Sverrisson var sá maður sem umgekkst Fischer mest síðustu árin sem hann lifði. Nú hefur hann skrifað bók um kynni þeirra. Augljóst er að tilgangurinn er ekki síst að gefa mynd af manni sem að sumu leyti er allur annar en sú mynd sem flestir gera sér af honum. Í útgáfuhófi talaði Garðar um að hann þekkti ekki hinn ofsafengna mann sem væri truflaður á geði, eins og sumir hefðu lýst Bobby. Bókin er framlag Garðars til þess að breyta þeirri ímynd.

Hún finnst mér falleg lýsing á sambandi þeirra Garðars og þeirri vináttu sem tókst milli Fischers og fjölskyldunnar, sem hefur greinilega reynst skákmeistaranum vel til hinsta dags. Í bókinni kemur fram að Garðar á við langvarandi sjúkdóm að stríða, sem reyndar hefur ekki verið neitt leyndarmál. Hvort sem það er vegna þess eða annars sést að Garðar er með ýmsar sérþarfir, tiktúrur hefðu einhverjir sagt. Hann þolir illa hávaða og vill fyrstu velja herbergi þegar þeir fara í sumarbústað. Hann gefur í skyn að einmitt vegna þessa eigi hann auðveldara með að setja sig í spor Bobbys. Það sem einum sýnast tiktúrur getur átt sér skýringar, ef menn þekkja bakgrunninn. Fischer hafði sterkar skoðanir og sannfæring hans skýrir suma af hans sérvisku, til dæmis að hann vildi ekki leita sér læknis í veikindum.

Garðar var einn þeirra sem barðist fyrir því að fá Fischer leystan úr prísundinni í Japan. Hann lýsir þeirri baráttu nokkuð. Það vakti athygli mína að hann telur að utanríkisráðherrann, sem ekki er nafngreindur en var Davíð Oddsson, hafi flækst fyrir, að því að gefið er í skyn af ótta við Bandaríkjamenn. Hann hafi gefið sínum þingmönnum fyrirskipun um að tefja afgreiðslu á ríkisborgararétti til handa Fischer. Á endanum greiðist þó úr því máli og Fischer kemst til Íslands.

Eftir að Fischer kom til Íslands kynnist hann í upphafi nokkrum mönnum, en smám saman fækkaði vinunum og manni sýnist að á endanum hafi nánast enginn verið eftir nema Garðar og fjölskylda hans. Allan tímann tekur Garðar málstað Fischers og það gefur bókinni aukið gildi.

Garðar nefnir ekki mörg nöfn heldur segir deili á mönnum með þeim hætti að oftast er auðvelt að bera kennsl á þá. Fornbókasalinn við Hverfisgötu er landskunnur, en hann hafði að sögn verið full lausmáll um að Fischer vendi komur sínar í búðina. „The genetics guy“ hafði sýnt því mikinn áhuga að kynnast Bobby, en fljótlega varð fátt með þeim og síðasti fundur þeirra varð með þeim hætti að erfðafræðigaurinn hellti sér yfir heimsmeistarann á kaffihúsi.

Stundum verður stíllinn eins og verið sé að skrifa fyrir útlendinga þar sem skýrðir eru hlutir sem nánast allir eiga að þekkja, að minnsta kosti líklegir lesendur bókarinnar. Tveir læknar eru þó nefndir með nafni og þakklæti, þeir Magnús Skúlason og Eiríkur Jónsson, sem báðir reyndust Fischer vel.

Sumar sögurnar eru kímilegar. Vinirnir tala um hvaða konur séu fallegastar. Fischer hafði smekk fyrir rúmlega tvítugum stúlkum meðan Garðar sagðist vera meira fyrir konur sem væru nær honum í aldri. Það fannst mér skynsamleg afstaða og hana myndi ég líka hafa, ef ég væri að skrifa bók.

Mér kom á óvart með hve mikilli virðingu Fischer talaði um ýmsa forvera sína sem voru heimsmeistarar í skák. Skákin væri hins vegar einfaldlega stærðfræði en „innsæi“ væri ekki lykillinn að afburðaárangri. Ekki er ég viss um þessa greiningu, en ég er heldur ekki heimsmeistari. Fléttan var mín uppáhaldsskákbók þegar ég var strákur, en Fischer fannst lítið til um hana. Hins vegar væri Áætlunin, eftir sama rússneska höfund, sú bók sem mest væri hægt að læra af. Hana hef ég auðvitað ekki lesið, en kannski geri ég það núna.

Um þriðjungur bókarinnar fjallar um veikindi Fischers og dauðastríð. Hann var sannfærður um að menn ættu ekki að taka lyf því að hiti og bólgur væru aðferð líkamans til að læknast. Á þau skilaboð ættu menn að hlusta. Svona manni var nánast ómögulegt að koma á sjúkrahús, en Garðari virðist heldur ekki hafa verið ljóst hve alvarlega var komið fyrir vini hans. Það er reyndar gamall sannleikur og nýr að þeir sem sjá hinn sjúka daglega verða ekki varir við hvernig honum hrakar. Þorgerður, móðir Garðars, sér hve fölur skákmeistarinn er orðinn. Loks eru það starfsmenn á Hótel Loftleiðum sem verða til þess að Garðar áttar sig loks á að hvert stefndi. Fischer hafði ákveðið að gista nokkrar nætur á hótelinu, en var orðinn svo máttfarinn, að Garðar er spurður á hótelinu hvort hann sé „aðstandandi“ meistarans. „Til öryggis“ vildi starfsfólkið vita það.

Lýsingin á síðustu vikum Fischers er áhrifamikil. Þegar hann var allur tók við kafli sem greinilega var erfiður fyrir Garðar, en margir þóttust kallaðir til þess að ákveða hvar skákmeistarinn eyddi eilífðinni. Fyrir utanaðkomandi er sú barátta brosleg, en Garðari er ekki hlátur í hug. Hann vill gæta þess að legstaður vinar hans verði ekki eins og hver önnur túristagildra.

Mér fannst þetta góð bók og las hana í einum rykk. Það er eiginlega mesta hrós sem ég get gefið nokkru riti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.