Forsætisráðherra skrifaði hreinskilna grein í Fréttablaðið sem hann nefnir Toppari Íslands:
Fyrir allmörgum árum var ég staddur í samkvæmi þar sem einn af gestunum gerði sig stöðugt meira gildandi. Það var sama hvaða umræðuefni kom upp, alltaf tróð maðurinn sér inn í samtölin (stundum fleiri en eitt í einu) eða talaði yfir fólk til að útskýra að hann vissi meira um málið en aðrir, hann hefði gert hlutina öðruvísi og betur.
Enginn var betri í viðskiptum en hann en samt var ekki til meiri mannvinur, því hann mátti að eigin sögn ekkert aumt sjá. Það var líka sama hvaða sögur aðrir gestir sögðu, alltaf bætti hann um betur. Hann hafði gert merkilegri hluti, séð meira en aðrir og unnið stærri sigra. Hann taldi sig líka alltaf kunna betri brandara en hinir og sá því enga ástæðu til að leyfa öðrum að ljúka sínum skemmtisögum áður en hann kom með aðra betri.
Í hvert sinn sem hann tók orðið var það auk þess gert af yfirlæti og gefið til kynna að allir aðrir en hann væru fábjánar. Þegar reynt var að leiðrétta eina eða tvær af fjölmörgum rangfærslum þessa samkvæmisljóns brást hann hinn versti við og gerði lítið úr þeim sem dirfðust að gera slíkar athugasemdir.
Mér fannst skrítið að fylgjast með þessari framgöngu mannsins og umburðarlyndi gestanna. Stúlka sem sat við hliðina á mér hallaði sér þá upp að mér og sagði: „Hefur þú ekki hitt hann áður? Hann er alltaf svona, þetta er mesti toppari landsins.“
Í fjölmiðlum eru uppi getgátur um það hver þessi maður geti verið. Hver er það sem gefur til kynna að allir aðrir séu vitleysingar? Hver hefur náð meiri og betri árangri en allir aðrir og hefur gert hlutina öðruvísi og betur en forverar hans? Hver er það sem gerir lítið úr þeim sem dirfist að gera athugasemdir þegar rangfærslur eru leiðréttar? Sterk vísbending kemur í niðurlagi greinarinnar:
En topparar láta staðreyndir eða framtíðina ekki þvælast mikið fyrir sér. Fyrir þá er aðalatriðið að vera maður líðandi stundar, sá sem fangar athyglina og verður vinsæll meðal trúgjarnra um sinn. Aðrir geta séð um að fást við afleiðingarnar.