Jól með börnum og gamalmennum (BJ)

„Afi, af hverju syngur maðurinn um Snæfinn snjókarl á útlensku?“

Við vorum á leið úr jólafimleikunum, Vigdís, Anna Lilja og ég. KK skemmti okkur í útvarpinu með jólalögum á ensku. Ég reyndi að útskýra að Snæfinnur hefði verið útlenskur áður en hann varð íslenskur, en það þótti þeim systrum skrítið.

Áður en varði var Elvis farinn að syngja I‘ll be home for Christmas og ég fékk kærkomið tækifæri til þess að fræða þær um rokkkónginn sem hefði verið vinsælli en allir aðrir. Þær vildu vita hvers vegna og ég sagði að það væri vegna þess að mönnum fyndist hann syngja svo fallega, en satt að segja hef ég aldrei vitað hvers vegna Elvis varð svona vinsæll.

Allt í einu var Louis Armstrong tekinn við og systurnar spurðu hvort hann hefði líka verið vinsæll og þegar ég galt já við, sögðu þær nánast einum rómi: „Mér finnst hann ekki syngja fallega.“ Ég reyndi að skýra að þegar maður hefði heyrt meira í honum þá vendist maður röddinni. Rétt á eftir tilkynnti Vigdís mér að hún væri ekki búin að venjast röddinni.

Það er gaman að vera afi. Degi seinna voru þær allar þrjár systur í heimsókn hjá okkur. Steinunn María er fjórtán mánaða gömul og nýfarin að ganga og nýtir þessa kunnáttu sína til þess að klifra upp á stóla og borð. Í einni slíkri ferð taldi afinn rétt að grípa inn í og hélt á henni í fanginu og fékk bendingar um hvert ætti að halda næst.

Í bókaherberginu er taflborð með litríkum rússneskum taflmönnum sem við keyptum í Leníngrad fyrir 30 árum. Þeir eru frekar leikföng en nothæfir til skákiðkunar, en hefur þó tekist að varðveita þá alla fram á þennan dag.

Sem smáinnskot má geta þess að ég hef talið það nauðsynlegan hlut í uppeldi barna að læra heiti allra taflmannanna. Það tókst mæta vel, en þegar ég fór með Jóhannes son minn fjögra ára gamlan í Skálholt og reyndi að segja honum og Steinunni frá sögu staðarins í stuttu máli hafði hann mestan hug á því að sjá staðinn þar sem riddararnir væru grafnir. Hann sagði að minnsta kosti ekki hrókarnir.

Við Steinunn litla vorum sem sé að horfa á skákborðið og ég rétti henni peð. Hún tók við því og velti því fyrir sér og sneri meðan hún muldraði spekingslega: „Mbm, hdf, aht, bma,“ rétti mér svo aftur peðið og sagði skýrum rómi: „Meia!“ Ég rétti henni hvern manninn á fætur öðrum og fór á sömu lund. Alltaf endaði fyrirlesturinn á skýrri kröfu: „Meia!“ Þegar komið var að drottningunni hafði hún hins vegar fengið leið á að rétt afanum manninn aftur heldur lét hana fljúga með nettri sveiflu út í horn, en hikaði þó ekki við að segja í áfram í skipunartón: „Meia!“ Kannski verður hún verkalýðsleiðtogi.

Annars sýnist mér athugun mín á þeim systrum benda til þess að kapítalisminn sé mönnum í blóð borinn. Steinunn María lærir fyrst af öllu að biðja um meira, en Anna Lilja sagði lengi vel bara: „É á etta“, hvort sem hún átti hlutinn eða ekki.

Í hádeginu í gær komu þær systur aftur í heimsókn til okkar og spurðu hve langt væri til þess að klukkan yrði sex. Ég svaraði að það væru fimm og hálfur tími og Vigdís sagði heimspekilega: „Það er ekki langt.“ Svo spurði hún fimm mínútum seinna hve langt væri til jóla.

Ég spurði hvort þær ætluðu ekki að setja skóinn út í glugga um kvöldið og þær horfðu á mig vorkunnaraugum. „Afi, það eru ekki fleiri jólasveinar, Kertasníkir er síðastur.“ En manni fyrirgefst ýmislegt með því að vera orðinn gamall.

Eftir hádegið fór ég í smábíltúr með pakka. Við Vigdís höfum með okkur skýra verkaskiptingu: Hún gerir allt á heimilinu sem máli skiptir, en ég get gert hluti sem ekki krefjast mikillar hugsunar eins og fara út með ruslið og skjótast með pakka sem ekki hafa gengið út. Þeir sem til þekkja vita að hún er í rólegu starfi dags daglega, þannig að þetta eru ekki ósanngjörn skipti.

Fyrst fór ég til Kristínar frænku, en afmælisdaginn hennar bar upp á aðfangadag að þessu sinni, svo ég vildi óska henni til hamingju með afmælið.

Milli pakka hlustaði ég á BBC þar sem menn sögðu sögur af uppáhaldslaginu þeirra, sem í þetta sinn var Can‘t take my eyes off you. Fyrir þá sem ekki muna það vel þá byrjar það svona: You‘re just too good to be true. Ég verð að játa að þetta hefur ekki verið eitt af mínum uppáhaldslögum, og ekkert jólalegt, en það er ágætt og grípandi. Sögurnar voru hins vegar svo hjartnæmar að melló gæi eins og ég táraðist hvað eftir annað og sá varla hvert ég var að fara. Lagið er eftir einhvern Frankie Valli, sem ég hafði aldrei heyrt getið.

Ég endaði túrinn á Hrafnistu hjá ömmu Kristínar frænku og nöfnu, Kristínu Einarsdóttur. Hún er sú eina sem hefur lofað að kjósa mig þegar ég býð mig fram og mér þykir því eðlilega afar vænt um hana. Kristín er orðin 91 árs og kvartar undan því að minnið sé farið að gefa sig. Hún sagði mér líka að hún héldi að hún ætti ekki langt eftir ólifað, en ég sagði henni að hún yrði að minnsta kosti að reyna að endast fram yfir kosningar, þá lofaði hún að gera sitt besta, að minnsta kosti myndi hún hugsa hlýlega til mín, hvernig sem ástatt væri.

Svo spurði hún mig út í börnin og hvernig þeim líkaði hverju á sínum stað, Steinunni í Skaftahlíðinni og Jóhannesi á Lindargötunni. Svo sagði hún mér sögur af konunni sem átti Lindargötuna og hélt áfram: „Og Jón býr enn í kjallaranum hjá ykkur, er það ekki?“

Þá hugsaði ég að Kristínu væri farið að förlast, en mundi þá að við höfðum ekkert hist síðan hann flutti út í sumar. Ég útskýrði að hann og Tóta hefðu flutt á Framnesveg 3. „Já það er á horninu við Vesturgötu“, sagði Kristín, „það var skóbúð í húsinu á móti.“ Svo þegar hún hafði heyrt að allt gengi vel hjá þeim bætti hún við, að hún hefði heyrt kveðju lesna í útvarpinu frá pabba Tótu.

Svo sagði hún mér að það væri orðið tímabært hjá Ólafi Ragnari að hætta („og þótt fyrr hefði verið“ bætti ég við). „Hann ætlar samt greinilega að halda áfram“, sagði hún, „fyrst hann er farinn að úthluta matarpökkum.“ (Nú ætla ég ekki að segja hverju ég bætti við, svo fólk fari ekki að skamma mig eins og Bjarna frænda).

Það var bankað og inn kom stúlka með sérríglas sem hún bauð Kristínu. „Það er hugsað afskaplega vel um mann hérna“, sagði hún um leið og hún bergði á glasinu.

Ég fékk mér enn einn konfektmolann og hefði eflaust klárað úr skálinni ef Fríða mágkona mín hefði ekki komið og bjargað því sem bjargað varð. Ég kvaddi þær báðar með kossi og bauð gleðileg jól.

„Gleðileg jól!“ sagði Kristín. „Og ég stend við mitt!“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.