Tvær fallegar bækur (BJ)

Ég verð að játa að ég er ekki alltaf duglegur að lesa nýjustu bækurnar. Ég hef stundum sagt að ég hafi fæðst á rangri öld. Áhugasviðið er fornrit, Jón Grunnvíkingur, Árni Magnússon og fleiri löngu liðnir spekingar. Kannski er það þess vegna sem einu nýju bækurnar sem ég hef lesið nýlega eru ævisögur, eða kannski ævisögubrot.

Ég hef áður sagt frá bókinni um Fischer eftir Garðar Sverrisson. Um svipað leyti áskotnaðist mér bókin Mamúska – Sagan um mína pólsku ömmu eftir Halldór Guðmundsson. Halldór hefur samið ævisögur mestu rithöfunda Íslands. Halldórs Laxness og Þórbergs, þess síðarnefnda í samfloti við Gunnar Gunnarsson sem ég er efins um að eigi heima í hópi með hinum tveimur og undarlegt að mönnum hafi dottið í hug að hann gæti fengið Nóbelverðlaun.

Mamúska er ekki rithöfundur heldur eldabuska eða veitingamaður ef mönnum finnst það óvirðulegt hugtak. Hún var kannski pólsk, ef hún var ekki litháísk eða eitthvað annað. Hún rak lítinn veitingastað í Frankfurt og þangað komu frægir menn af ýmsu þjóðerni, meðal annarra Rolling Stones og forleggjarar Máls og menningar. Þar þýddi ekkert að panta ákveðinn rétt, hún bauð upp á það sem til var. Halldór talar þýsku betur en Mick Jagger og henni fannst hann hæfilega barnalegur og með fallega rödd þannig að hún ættleiddi hann að langfeðgatali og ákvað að verða amma hans. Kannski hefur hún boðist til þess að verða systir Micks, en þess er ekki getið.

Það er ágætur mælikvarði á hvernig til tekst að lýsa stað að mann langi að fara þangað. Það tókst mætavel. Veitingastaðurinn í Frankfurt bætist í hóp staða eins og bókabúðarinnar í París og fjölmargra annarra sem fallega hefur verið lýst í bókum. En Rauða akurliljan verður víst til frambúðar í slíkum himni skemmtilegra staða, því hún er ekki til lengur.

Þegar ég las bókina hugsaði ég með mér að þessa bók væri hægt að gera út á þýsku líka og það reyndist rétt hjá mér. Halldór skrifaði bókina fyrst á þýsku og snaraði henni svo aukinni og endurbættri á íslensku. Bókin er stutt og hlýleg. Ég var í góðu skapi þegar ég lagði hana frá mér eftir að hafa lesið hana í einum teig.

Svo tjallaði ég mér í rallið með Thor Vilhjálmssyni. Ég þekkti Thor ekki persónulega þó að ég sæi hann stundum þegar ég var ungur maður. Hann bjó í sömu raðhúsalengju og Goggi vinur minn og reyndar Siggi Baldurs frændi minn líka. Siggi Baldurs og mamma voru systra- og bræðrabörn. Hann kom oft heim í Laugarás, en aldrei allsgáður. Þetta var siður í gamla daga að fara í húsvitjanir þegar menn voru kenndir. Ekki veit ég hvers vegna mamma varð fyrir valinu, en auk Sigga man ég eftir þeim bræðrum Jóhanni og Barða Friðrikssonum, sem komu þó aldrei saman. Mamma dreypti stundum á sérríi, en aldrei svo á henni sæi vín.

Þó að Sigga væri vel tekið heima hjá mér er ég viss um að hann hefur verið meiri aufúsugestur hjá Thor nágranna sínum. Þeim hefur báðum þótt sopinn góður og svo voru þeir kommar. Mig minnir að mamma hafi sagt mér að Siggi hafi orðið kommi þegar hann féll í formannskjöri til Heimdallar, en hann var örugglega aldrei ríkur. Thor varð að brjótast til fátæktar af eigin rammleik eins og reyndar kemur fram í bók Guðmundar Andra sonar hans. Pabbi Thors var Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélagsins, og afi hans Thor Jensen sem var einn stofnenda þess. Það er áhugavert að það þurfti Björgólf Guðmundsson, sem er giftur frænku Thors, til þess að gera Eimskipafélagið að engu á örfáum árum. Hann braut mörgum leið til fátæktar eftir sínum aðferðum.

Guðmundur Andri segir söguna út frá ljósmyndum. Það er snjall frásagnarstíll. Þannig tekst honum að koma víða við og hann segir hlýlega frá pabba sínum. Engum dylst að Thor er sjarmerandi maður sem náði sér aldrei í þann hóp sem hann vildi vera í með bestu skáldum Íslands. Samt verður að virða það við hann að hann valdi sér sína leið þegar aðrar voru miklu greiðfærari. Að vísu sló hann í gegn þegar hann stældi Umberto Eco, en það sýndi bara að hann hefði getað gert það fyrr, ef hann vildi.

Ég ræddi einu sinni við Thor. Við vorum báðir stuðningsmenn sameiginlegrar frænku okkar, Guðrúnar Pétursdóttur, sem betur hefði orðið forseti árið 1996. Af einhverjum ástæðum kom Hannes H. Gissurarson til tals og Thor spurði hvort hann væri ekki mjög leiðinlegum maður. Ég sagði að það fyndist mér ekki, en hann væri einn af þeim mönnum sem maður yrði einfaldlega að taka eins og hann væri. En ef maður samþykkti það væri hann ágætur. Í huga mér flaug að líklega væri Thor Vilhjálmsson líka í hópi slíkra manna, en um það þagði ég þar til nú.

Mér fannst gaman að lesa þessa bók. Thor gat greinilega bæði verið ágætur og afar erfiður. í bókinni er lögð áhersla á sjarmatröllið, en hinn er ekki falinn. Þess vegna var bókin ekki bara skemmtileg heldur fannst mér líka að ég fengi að sjá allar myndirnar í albúminu, ekki bara glansmyndirnar, sem auðvitað er viss þverstæða í lífi manns sem valdi aðra leið en frændur hans flestir, en þótti samt örugglega gott að eiga þá að stundum. Það er örugglega ekki auðvelt að lýsa svona pabba, en Guðmundur Andri sýnir að hann er bæði góður rithöfundur og hlýlegur sonur.

Ég mætti í Eymundsson þegar bókin kom út. Þar voru margir sem á árum áður voru í Fylkingunni, Trotskíistar eða Marx-Lenínistar. Einn gekk til mín og spurði hvort ég ætlaði ekki að bjóða fram í næstu kosningum og ég jánkaði því. „Að hugsa sér að gamall kommi eins og ég“, sagði hann þá, „sjái engan kost betri en að kjósa Viðreisn.“

„Já það er margt skrítið“, svaraði ég. „Einhvern tíma hefði ég látið segja mér það tvisvar að ég ætti eftir að mæta í svona kommapartý.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.