Ágætt 2015 að baki (BJ)

„Ég ætla að skreppa í sund“, sagði ég við Vigdísi eftir hádegi á nýársdag.

„Er opið í dag?“ spurði hún á móti og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að segja „Nei, ég ætla að klifra yfir girðinguna eins og við erum vön að gera á nóttunni“, en svo hugsaði ég mér að það væri ekki fallegt að byrja nýja árið á því að skrökva.

Í sundinu var múgur og margmenni, eins og á sumardegi, allir pottar fullir og meira að segja margir sem syntu. Á sundinu lét ég hugann reika yfir liðið ár. Eins og vanalega fannst mér ég ekki hafa gert margt. Það ætti ekki að vera mikið verk að tína það til í stuttri skýrslu.

Fjallgöngur voru færri en flest undanfarin ár. Gekk þó örugglega tíu sinnum á Úlfarsfell, sem er hæfileg ganga ef maður hefur ekki mikinn tíma, en vill samt fá alvöru hreyfingu. Það var löngu ákveðið að þetta sumar gengi ég á Heklu og smám saman bættist í frítt föruneyti. Gangan hafðist um miðjan júlí, en eitthvað kvarnaðist úr föruneytinu. Líklega þarf ég að fara aftur næsta sumar til þess að þeir komist með sem ekki fóru í þessa ferð. Hekla er eitt af þessum fjöllum sem manni finnst maður sífellt vera að komast á toppinn, en sér þá að það er brekka eftir. Ég er satt að segja ekki viss um að það hafi verið neinir úr hópnum nema ég og Anna Bjarnadóttir frænka mín sem komust á aðaltindinn.

Við Siggi bróðir gengum á Kistufell í Esju, en það hef ég aldrei klifið áður. Í ágúst gengum við Vigdís svo með Sigga, Solveigu og Oddi norður Jökulsárgljúfur, en það er skemmtileg leið meðfram Jökulsá á Fjöllum, frá Dettifossi í Ásbyrgi. Ætli gangan hafi ekki tekið okkur hátt í tólf tíma og hver mínúta þess virði.

Við Reynir frændi fórum í óbyggðasetrið á Egilstöðum í Fljótsdal, en hann hafði einmitt gist þar fyrir rúmlega fimmtíu árum þegar hann gekk á Snæfell. Svo fórum við að Karlsskála í Reyðarfirði með Jóni Stefánssyni sem er giftur Steinunni Jónsdóttur frænku minni, en hann er einmitt fæddur þar og uppalin. Ferðin að Karlsskála var eins konar lokahnykkur á ferð sem hófst árið 1962 þegar við pabbi fórum með Reyni í Sandvík, yst í Norðfirði. Svo hef ég farið í Hellisfjörð, árið 1997, í Viðfjörð árið 2013, í Vöðlavík árið 2014 og svo að Karlsskála árið 2015. Alltaf hefur Reynir verið með í för.

Annars er Reynir vanur því að taka sér sinn tíma í ferðalög. Hann hjólaði umhverfis landið á 55 árum frá 1936 til 1991, en var reyndar ekki stöðugt að. Fór fyrst frá Akureyri til Reykjavíkur árið 1936, en hvíldi sig svo að mestu til 1990 og fór þá það sem ófarið var það sumar og það næsta í tilefni af sjötugs og sjötíu og eins árs afmæli sínu.

Við Vigdís fórum í mikla Grikklandsreisu, okkur til mikillar ánægju og menningarauka. Hér heima gengum við á Þríhyrning og fórum í Njálusafnið á Hvolsvelli. Ég mæli eindregið með báðum áfangastöðum.

Mér tókst að koma út 50 tölublöðum af Vísbendingu og sex af Skýjum. Ætli ég hafi ekki skrifað hátt í 170 greinar í þessi tvö blöð, mest í það fyrrnefnda. Líklega eru greinarnar mínar í Vísbendingu að nálgast 2.000 frá upphafi vega, hver annarri betri. Ég var slappari við pistlaskrif á Netið en oft áður, skrifaði ekki nema 31 sýnist mér.

Á fyrri hluta ársins voru nokkrir pistlar sem margir lásu:

Algjör eining fjallaði um það þegar bankastjórar Seðlabankans ákváðu í sameiningu að lána Kaupþingi gjaldeyrisforða þjóðarinnar, en höfundur Reykjavíkurbréfs mundi ekki vel hvernig þetta gerðist.

Mildur þýðandi fundinn var stuttur pistill sem sagði frá nýrri þýðingu á alþekktri útlendri reglugerð, en umhverfisráðherra hafði stungið upp á því að Íslendingar kæmu sér undan Evrópureglum með því að laga reglurnar og staðfæra þær að hætti Framsóknarflokksins.

Stefnuföst slitastjórn sagði frá því hvernig ríkisstjórnin komst með sínum hætti að því að sum kosningaloforð þurfa menn alls ekki að standa við, sérstaklega ekki þau sem menn hafa lofað að efna.

Gefið mér kol sagði frá skemmtilegu ferðalagi um Austurland, grein sem fór víða.

Í kjölfarið fylgdi mikill bálkur um Grikklandsferðina, auk þess sem aðrar ferðir urðu frásagnarefni.

Orðkynngi án skreytni var skrifuð í stíl stafsetningaræfingar, en þar ofmat ég skopskyn lesenda, sem ekki áttuðu sig allir á húmor höfundar. Þetta minnti mig á það að einhvern tíma flutti þingmaður heila ræðu á Alþingi í bundnu máli, ræðu sem olli uppnámi þeirra sem ekki höfðu innbyggt stuðla- og höfuðstafaskyn.

Lausnin sagði frá uppgötvun sem pabbi gerði og olli straumhvörfum í borun eftir heitu vatni.

Nýlega pistla hirði ég lítt að tíunda, en vinsælastir þeirra urðuJól með börnum og gamalmennumToppari allra topparaKonungur konungannaHvað vill Viðreisn?og Í Köben árið 1973.

Ekki man ég allar bækur sem ég las, en nýlega hef ég gluggað í frásagnir tengdar Watergate, annars vegar langa bók sem John Dean setti saman eftir upptökum af samtölum Nixons við undirmenn sína í Hvíta húsinu. Dean var lögfræðingur Hvíta hússins, en í bókinni er mikið af skýringum til þess að fegra hlut hans eins og hægt er. Hin bókin er eftir Bob Woodward um Alexander Butterfield, sem var aðstoðarmaður forsetans og sá sem kjaftaði frá upptökunum. Ef hann segir satt frá var Nixon mesti furðufugl sem um getur.

Nýlega las ég Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur, bók sem var öðruvísi en ég hélt hún væri. Skálmöld Einars Kárasonar um Sturlu Sighvatsson renndi ég í gegnum, en í henni þekkti ég nánast allt efnið, ólíkt fyrri bókunum þar sem ég hafði ýmsu gleymt og Einar kannski bættu fleiru við frá eigin brjósti. Erasmus eftir Stefán Zweig var ekki eins skemmtileg og ég átti von á. Fyrr á árinu las ég The bookshop eftir Penelope Fitzgerald, meinlausa bók. Secret History eftir Donnu Tartt, var skuggalegri bók og miklu lengri. Napóleon kom út á íslensku fyrir nokkrum árum og ég keypti hana til þess að gefa Sigga bróður í jólagjöf, týndi henni þannig að hann fékk einhverja aðra. Svo fann ég hana í haust, ákvað að lesa hana sjálfur og gaf svo Sigga hana nokkrum árum of seint. Hún er eftir eftir sænskan höfund en það bætir ekki miklu við fyrir okkur að sjá söguna skrifaða út frá sænsku sjónarhorni. Þetta sýnishorn nægir, en ég las fleiri bækur á árinu.

Ein upphefði hlaust mér óvænt. Ég hafði setið í stjórn Íslensku óperunnar frá árinu 2006 sem almennur stjórnarmaður alla tíð og ekki sóst eftir frekari metorðum. Á miðju ári losnaði formannsembættið skyndilega og óvænt. Við sem eftir vorum komum okkur saman um nýjan formann og þar hefði sagan endað ef ég hefði ekki skroppið á klósettið. Þegar ég sneri til baka var mér tilkynnt að ég hefði verið kosinn formaður in absentia. Þeirri virðingarstöðu gegndi ég svo fram að aðalfundi þegar stjórnarsetu minni lauk eftir níu lífleg ár.

Sem sé rólegt ár að baki og vonandi skemmtilegt ár framundan. Það byrjar að minnsta kosti vel. Ég kláraði sundsprettinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.