Guðni kallar á fortíðarsýn (BJ)

Guðni Ágústsson var lengi að ákveða sig hvort hann ætti að vera skemmtikraftur eða stjórnmálamaður. Eins og alþjóð veit hefur hann fyrir löngu valið fyrrnefnda starfið á kvöldin enda einstakur gleðipinni á árshátíðum, þorrablótum og kútmagakvöldum. Nú eru hins vegar runnir upp enn betri tímar. Guðni hefur ákveðið að skemmta þjóðinni líka á daginn og ekki bara á sviði heldur einnig á síðum Morgunblaðsins, sem hentar einmitt fyrrverandi stjórnmálamönnum vel til slíkra starfa. Í gær skrifar hann grein sem hann nefnir: Bændurnir kalla á framtíðarsýn og búvörusamning.

Nær hver einasta setning er meitlaður húmor að hætti Guðna, en vegna þess að ekki eru allir á heimavelli í landbúnaðarmálum birtast hér skýringar við gamanmál meistarans.

Guðni byrjar: „Það er grafalvarleg staða sem landbúnaðurinn er kominn í og stafar af mannavöldum.“

Skýring: Í landbúnaðarráðuneytinu og fyrirbændasamtökunum eru framsóknarmenn. Þetta er smá skot frá fyrrverandi formanni flokksins á óþæga lærisveina.

Guðni: „Það dregst lon og don að koma á nýjum búvörusamningum, þar bera mesta ábyrgð nokkrir forystumenn landbúnaðarins.“

Skýring: Í gildi er búvörusamningur sem gildir allt til ársloka 2017 í sauðfjárrækt. „Forystumenn landbúnaðarins“ eru örfáir vitleysingar sem ekki eru uppaldir af Guðna.

Guðni: „Þeir virðast nú vilja bylta kerfinu og eru uppfullir af einhverri umræðu um að gefa framleiðsluna frjálsa án þess að útskýra hvað það þýðir. Þeir vilji enga umgjörð en telja samt að ríkinu beri að koma með beingreiðslur eða stuðning sem ekki má vera í því fari sem hann hefur verið í frá þjóðarsáttarsamningunum 1990 og reynst nokkuð vel.“

Skýring: Frjáls framleiðsla: Ha, ha, ha. Hvað er hægt að hugsa sér vitlausara en að bændur þoli frelsi?

Guðni: „ESB-ríkin loga nú af átökum og uppreisn meðal bænda af því að stjórnvöld þar tóku umgjörðina, kvótakerfið af þeim og gáfu allt frjálst. Tilgangurinn auðsær, gert til að fækka og stækka búin enn og lækka afurðaverðið til þeirra.“

Skýring: Þið hafið heyrt um bændauppreisnina í Evrópusambandinu, er það ekki? Allt logar í átökum eins og fréttir bera með sér. [Guðni telur að hryðjuverkasamtökin ISIS standi fyrir: Íslenskir stórbændur með stór bú og engan að vini].

Guðni: „Hér eru það örfáir stórir kúabændur og fyrirtæki komin inn í mjólkurframleiðsluna en ekki síst „bankabændurnir“, sem reist hafa sér hurðarás um öxl sem vilja varpa greiðslumarkskerfinu fyrir róða og ná þannig framleiðslunni til sín. Þeir vilja halda í samskonar leiðangur og svínabændur fóru í fyrir 25 til 30 árum, verða stórir strákar með stór bú og eiga engan að vini.“

Skýring: Auðvitað vill enginn stórbændur. Hokur er það sem við viljum, sannir framsóknarmenn! (Og nýja héraðsskóla eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar).

Baulaðu nú Búkolla mín

Ekki vinnst tími til þess að kryfja húmor Guðna frekar að sinni, en frekari skrif eru boðuð á næstunni. Á sínum tíma skrifaði þekktur klerkur, Jakob S. Jónsson, doktorsritgerð um kímni í orðum Krists. Séra Jakob var bróðir Eysteins Jónssonar sem lengi var holdgervingur Framsóknarflokksins. Kímni í greinum Guðna Ágústssonar væri líka verðugt doktorsverkefni fyrir einhvern góðan, ungan framsóknarmann; forsætisráðherra gæti til dæmis lokið doktorsnámi sínu með slíkri ritgerð.

En vegna þess að lesendur eru væntanlega spenntir að heyra meira af glettni Guðna koma hér örfáar tilvitnanir í viðbót, án skýringa.

Guðni: „Ennfremur verða menn að vera klárir hvað tekur við ef opinber verðlagning er aflögð. Hún hefur komið í veg fyrir stóra afslætti til risanna af hálfu MS, allir jafnir hvað dagvörur varðar. … Neytendur hafa hagnast gríðarlega af störfum verðlagsnefndarinnar sem hugsar um hag heimilanna og bænda. Oft hefur mér virst eins og Samkeppniseftirlitið sé að störfum með stórversluninni … Því miður ríkir sundrung í sölu á lambakjöti til útlanda, en þar ættu bændur að standa að verki eins og einn maður og selja undir merki Íslands og hreinleikans. … Bændurnir búa nú við óvissu við þær kjöraðstæður sem markaðurinn hefur búið þeim með mikilli neyslu, vinsældum afurðanna og gríðarlegri fjölgun ferðamanna. Ég skora á þessa ágætu menn að tefja sig ekki yfir umræðu sem ber sundrunguna í sér og tap og fátækt bænda.“

Nei, eyðum ekki tímanum í umræður, gefum engan afslátt og seljum undir merki Íslands og hreinleikans (og Framsóknarflokksins).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.