„Tergel, Tergel, Tergelsjí.“
Maðurinn á móti mér í strætisvagninum var þéttvaxinn og brosmildur, klæddur í í úlpu sem var græn- og svört köflótt. Hann lagði áherslu á orð sín með því að sveifla höndunum og hélt á sígarettupakka í hægri hendinni og kveikjara í þeirri vinstri. Öðru hvoru lyfti hann pakkanum að vörunum og bjó sig undir að fá sér rettu, en hætti svo við. Í vinstri hönd hafði hann kveikjarann og kveikti öðru hvoru á honum; stundum fyrir sessunaut sinn, stundum út í loftið og ég var hræddur um að hann brenndi sig á fingrunum.
„Grós sígar“ sagði hann og bandaði höndum og bætti svo við einhverju á frönsku heyrðist mér, brosti aftur og sagði aftur:
„Tergel, Tergel, Tergelsjí“, með áherslu á síðasta atkvæðið.
Við vorum á leið út á Tergel-flugvöll í Berlín og kannski voru þeir vinirnir líka á leiðinni í flug. Það var kátt á hjalla sýndist mér, en hvað veit ég? Ég sá bara annan þeirra og hefði getað svarið að hitt sætið væri autt. Það sýndist flestum hinum líka, en vegna þess að sá sem við þó sáum var brosmildur sagði enginn neitt þó hann væri svolítið hávær.
Þetta var endirinn á fjögra daga ferðalagi til Berlínar. Þegar við komum lentum við á Schönefeldt-flugvelli, sem er sætur sveitaflugvöllur, kannski eins og stór Akureyrarvöllur. Auðvitað ekki jafnglæsilegur og okkur flugvallarvinum finnst Reykjavíkurflugvöllur vera.
Það var hlýtt og notalegt í Berlín og leigubíllinn var með opna glugga og enga aðra loftkælingu. Gamla kommahótelið á Alexanderplatz var sjálfu sér svipað. Og þó. Ég er ekki frá því að því hafi verið breytt frá því síðast og ekki til batnaðar. Baðkarið er horfið en sturta komin í staðinn, en eins og fyrr bakvið gegnsætt gler. Það var líka dregið frá glugganum, en það skipti svosem litlu því við vorum uppi á 21. hæð. Við vöknuðum klukkan fjögur við sólarupprás og hana hefði ég líka séð ef ég hefði verið í sturtu um það leyti. Þannig að þetta hefur ótvíræða kosti.
Við höfðum ekki verið lengi á hótelinu þegar liðið var fullskipað og við gátum farið út að borða. Ekki spyrja hvert, því það veit ég ekki, en lýsingin á veitingastaðnum á eflaust bara við einn veitingastað í Berlín. Hann er ómerktur og til þess að komast inn í hann verður maður að fara inn í port. Eflaust eru þó nokkrir veitingastaðir inni í porti í Berlín, en í þessu porti er enginn veitingastaður. Til þess að finna hann verður maður að halda áfram inn í annað port inn af því fyrra.
Þegar maður er kominn þangað er maður litlu nær því að þar sér maður heldur ekkert nema gluggana á húsunum í kring og veggjakrotið sem tryggir að þetta port er alveg eins og öll önnur port hvar sem er í heiminum. Við ætluðum að snúa við þegar Vigdís tók af skarið. Hér var veitingahúsið og hvergi annars staðar. Í horninu vinstra megin sáum við timburskála sem mér sýndist í myrkrinu geta verið verkfærageymsla, en þegar nánar var að gáð var þarna fólk bakvið dyr. Það var setið við tvö borð á yfirbyggðri verönd og ég hélt áfram inn. Þar var enginn. Ég fór upp á loft og kallaði Halló (heima hefði ég kallað „Hér sé guð“, en var ekki viss um að Þjóðverjar könnuðust við þá kveðju. En þeir kannast heldur ekki við Halló miðað við undirtektir sem engar voru.
Ég fór aftur niður og áður en ég gat kallað aftur birtist stúlka með stráhatt á höfði og Pétursspor, skarpleit og fölleit. Með okkur urðu fagnaðarfundir og hún kannaðist strax við að hér væri kominn hópur Jóhannessonar og vísaði okkur til sætis á veröndinni. Svo spurði hún hvort við þekktum leikreglurnar og áður en við gátum jánkað því sagði hún okkur þær: Þetta væri svona „mömmu og pabba“ veitingastaður.
Á borðið komu tvær könnur, önnur með hvítu víni og önnur með rauðu. Þær voru býsna stórar, en færi svo ólíklega að þær tæmdust gátum við farið í ámu í stofunni og fyllt þær að nýju. Svo myndi hún koma með hvern ítalska réttinn á fætur öðrum og jafnskjótt og eitt fat tæmdist myndi annað birtast með öðrum eins krásum. Þetta gekk eftir og aldrei hef ég verið í jafnglæsilegri veislu utan konungshallar.
Það var eins gott að hleypa ekki hverjum sem er inn á svona stað. Í lok máltíðar fór ég hrifinn inn í eldhúsið og þóttist það hitta móðurina á staðnum. Hún sagðist þá bara vera eldabuskan, en ég þakkaði henni samt fyrir.
Daginn eftir fórum við að Wannsee, en þar hittust nasistaforingjar til þess að ræða „lokalausnina“. Þetta passaði ágætlega því að ýmsir ferðalangar voru að lesa bókina um Heydrich. Þó að þessir bandittar hafi gengið þarna um grundu var staðurinn ósköp fallegur. Við höfðum ekki tíma til þess að fara um sali slúbbertanna enda ekki sérstakt áhugamál mitt. Mér fannst miklu skemmtilegra að fara í þinghúsið í Berlín og ganga um glerkúpulinn. Engir þingmenn voru á ferli en mannvirkið er glæsilegt og minnir á Perluna. Pabbi sagði reyndar stoltur að þvermálið á Perlunni væri aðeins meira en á þýsku kúlunni.
Á Hótel Adlon við Brandenborgarhliðið koma auðjöfrar. Þar er hægt að gista fyrir 450 þúsund krónur á nóttu (350 þúsund ef maður sleppir morgunmat). Við létum okkur nægja að fá okkur hressingu fyrir utan fyrir 2.000 krónur glasið. Á næsta borði við okkur voru miklar fegurðardísir, sérstaklega ein sem var lík Vigdísi, þannig að ég kvartaði ekkert, þó að auðvitað einbeitti ég mér að minnismerkjunum sem þarna eru á hverju strái og tók eiginlega ekkert eftir þessum stúlkum.
Skemmtilegast var að hitta Andy frænda. Hann er ekki frændi minn heldur einnar samferðakonunnar sem kallaði hann Andylein, Andy litla, enda hafði hún ekki séð hann síðan hann var strákur. Andyleinsem nú er á sextugsaldri bjó í annarri lítilli borg suðurvestur af Berlín. Þorpi eiginlega. Þangað var gaman að koma og eins og oft var skemmtilegast að gera ekki neitt heldur bara upplifa.
Skelfilegast var að fara í DDR-safnið í Berlín. og sjá hvernig stöðugt var reynt að blekkja alla, bæði innan og utan alþýðulýðveldisins. Ekkert er skelfilegra en að taka frá fólki frelsið, sem okkur finnst sjálfgefið, múra það inni og hóta því öllu illu ef það reyndi að bjarga sér. Í Leipzig sáum við líka Stasi-safnið, sem er enn skelfilegri birtingarmynd kúgunarinnar. En á sama tíma og við fordæmum kúgun í austri leyfum við hleranir á Íslandi á færibandi. Flísin er augljós en bjálkinn vandséður.
Helgin var fljót að líða og áður en varði vorum við á leiðinni út á flugvöll og hittum hinn málglaða samferðamann okkar sem talaði tungum. Kannski eru ekki allir jafnheppnir og ég með ferðafélaga og skipulagningu, en ég mæli líka með ferðinni fyrir hina sem fara einir. Þeir geta í versta falli hafið samræður við ímyndaða ferðafélag