Ábyrgðin á Hruninu

Í viðtali við blaðamann DV spurði blaðamaðurinn, Jóhann Páll Jóhannsson mig meðal annars um hrunið. Greinlegt var að hann hafði mótaða skoðun um að Sjálfstæðisflokkurinn bæri meginábyrgð á hruninu. Í framhaldinu komst ég óheppilega að orði, því að ég hefði átt að svara mun ítarlegar en ég gerði. Skoðum fyrst þennan bút viðtalsins:
Blaðamaður:
„Þegar rannsóknarskýrslan kemur út og það er komið á hreint að Sjálfstæðisflokkurinn ber hvað mesta ábyrgð á hruninu, hvers vegna hættirðu ekki þá í flokknum?“
Benedikt Jóhannesson:
„Ég er ekki sammála því að það sé endilega niðurstaða skýrslunnar.“
Blaðamaður:
„Í skýrslunni eru felldir þungir dómar yfir Sjálfstæðisflokknum, en reyndar líka Framsóknarflokknum og Samfylkingunni.“
Benedikt Jóhannesson:
„Já, nú ertu allt í einu kominn með þrjá flokka.“
Blaðamaður:
„En Sjálfstæðisflokkurinn leiddi þessar ríkisstjórnir fyrir hrun.“
Benedikt Jóhannesson:
„Já, en ég held að meginábyrgðina beri almenningur sem í gegnum fjölmiðla var óskaplega meðvirkur með öllu því sem var að gerast. Það var enginn sem stóð upp og sagði: heyrðu nei, þetta er of gott til að vera satt og hlýtur að vera einhver vitleysa.“
Blaðamaður:
„En var það ekki hlutverk stjórnmálamannanna að setja viðskiptalífinu ramma til að koma í veg fyrir svona lagað?“
Benedikt Jóhannesson:
„Við berum öll ábyrgð. Það er ekki hægt að benda alltaf á einhvern og segja: Hann á að segja þetta. Hvar varst þú og hvar var ég? Við þurfum að axla þann hluta ábyrgðarinnar, þau okkar sem ekki sáu þetta fyrir.“
Blaðamaður:
„Finnst þér flokkurinn hafa gert mörg mistök í aðdraganda hrunsins?“
Benedikt Jóhannesson:
„Mér finnst allir flokkar hafa gert mörg mistök og allt fólk gerir mörg mistök.“
Þetta er rétt eftir mér haft, en ég orða svarið óheppilega. Blaðamaðurinn spyr um ábyrgð stjórnmálaflokks og stjórnmálamanna á hruninu. Hann fullyrðir að það sé „komið á hreint að Sjálfstæðisflokkurinn ber hvað mesta ábyrgð á hruninu“. Þessi fullyrðing hefur heyrst oft, einkum af andstæðingum flokksins, sem finnst þægilegt að geta kennt öðrum um. Það er hins vegar rangt að þetta sé niðurstaða skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Enda bætti blaðamaðurinn snarlega við tveimur flokkum.
Auðvitað olli almenningur ekki hruninu. Þar voru aðalleikarar auðjöfrar tóku geysilega mikla áhættu og lögðu miklu meira undir en þeir áttu. Á endanum stóð uppi ein rjúkandi rúst.
Stjórnmálaflokkarnir báru líka ábyrgð, forsetinn var dyggur fylgisveinn útrásarvíkinganna, stofnanir samfélagsins stóðu sig ekki, meðal annarra eftirlitstofnanir. Fjölmiðlar voru margir í eigu auðjöfra og ræktu ekki sitt hlutverk. Engum er greiði gerður með því að einfalda málið þannig að ábyrgðin sé öll á einum flokki, hvað þá einum manni eða örfáum. Þá höfum við ekki lært okkar lexíu.
Steingrímur Sigfússon, sem ekki var í neinum þeirra flokka sem blaðamaðurinn nefndi, sagði um daginn að við bærum sem kynslóð sameiginlega ábyrgð á því sem gerðist. Á þeim nótum var ég að hugsa þegar ég svaraði.
Þórarinn Eldjárn orðaði það svo: „Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir.“ Ég játa það fúslega að ég er ekki einu sinni í þeim hópi sem sá hrunið fyrir eftirá.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.