Ræða á fyrsta vinnufundi Viðreisnar á Grand Hóteli 11. júní 2014.
Góðir fundarmenn!
Hvers vegna gerir enginn neitt?
Hve oft höfum við heyrt þessi orð af vörum fólks víðs vegar um landið þegar áföll dynja á?
Hvers vegna gerir enginn neitt?
Orðin klingja í eyrum, en oftast er þetta ákall til þingmanna, bæjarstjórnar, ráðherra. Þau eiga að grípa inn í og bjarga málunum þegar allt er komið í óefni.
Í spurningunni felst að „þau“ eigi að koma til hjálpar. Oftar en ekki hefur biðin eftir „þeim“ verið löng og tilgangslaus.
Spurningin felur í sér uppgjöf. Miklu betra væri að spyrja: Hvers vegna gerum við ekki neitt?
Best er samt að segja:
Við skulum gera eitthvað. Við skulum greina vandann. Við skulum finna lausn og við skulum hrinda henni í framkvæmd.
Á sólskinsdegi í miðjum júní kemur stór hópur fólks saman til þess að taka fyrstu skref á leið sem gæti orðið löng og ströng. Við ætlum að leggja okkar of mörkum.
Hvers vegna Viðreisn? Svarið er einfalt: Eftir hrun þarf viðreisn.
Ætlum við þá að dvelja í fortíðinni og festa okkur í hruninu eins og síðasta ríkisstjórn? Nei, svo sannarlega ekki. Við þurfum að hugsa til framtíðar í heimi sem hreyfist svo hratt að stundum finnst manni eins og framtíðin hafi verið í gær.
En þegar stjórnin sem var föst í hruninu fór frá tók önnur við. Og hver skyldi boðskapur hennar vera? Stjórnarinnar sem er mynduð undir líkneski Hriflu-Jónasar á Laugarvatni? Stjórnarinnar vill brjóta allar brýr að baki sér í utanríkismálum og eyðileggja allt það starf sem þó var unnið á árunum þar á undan. Boðskapur forsætisráðherrans er skýr, en ógnvekjandi, þegar við sjáum hann fyrir okkur segja dimmum rómi:
Fortíðin hefst á morgun!
—
Það er kominn tími til þess að hugsa málin upp á nýtt. Hætta að redda hlutunum fyrir horn og finna þess í stað framtíðarlausnir. Hætta að vernda sérhagsmuni og setja almenning í öndvegi.
Margir hafa spurt: Hvers konar hópur er Viðreisn? Hvað viljið þið? Sjáið þið nokkuð nema Evrópusambandið?
Vitur maður sagði fyrir nokkrum árum þegar hann var spurður hvort hann vildi að Ísland gengi í Evrópusambandið: Heilinn segir já, en hjartað segir nei.
Ég svara því hins vegar að Evrópusambandið er ekki markmið í sjálfu sér. Markmiðið er stöðugleiki, markmiðið er að á Íslandi séu lífskjör sambærileg við þau sem við þekkjum í nágrannalöndunum, lægri vextir, lítil verðbólga og ódýrari matvörur. Við verðum að byggja á Íslandi heilbrigt samfélag þar sem ungt fólk vill búa, þar sem vel menntað fólk vill setjast að, þar sem erlend fyrirtæki vilja hefja starfsemi og íslensk fyrirtæki hugsa ekki stöðugt um að flýja land.
Ef við getum náð mörgum markmiðum samtímis með hagstæðum samningum við Evrópusambandið þá er innganga skynsamlegur kostur og Ísland verður betra land.
Þá segir heilinn já og hjartað segir líka já.
Við þurfum að taka til í samfélaginu, við eigum að verja peningunum skynsamlega. Ágæt kona sagði við mig um daginn: Þið talið bara í prósentum, hvað um menningu, menntun heilbrigðismál, jafnrétti? Málefni sem fólk skilur og skipta máli í daglegu lífi?
Stundum er leiðin svolítið löng, en prósenturnar geta breyst í betri menntun, bætt heilbrigðiskerfi og blómlegri menningu. Lausnin felst ekki alltaf í því að eyða meiri peningum, þeir verða alltaf takmarkaðir. Við verðum að fara betur með það sem við höfum.
Hugsum til baka, hvert um sig, til barnaskólaáranna. Ætli nokkurt okkar hugsi um það hve vel tíminn hafi verið nýttur á hverjum degi? Hvað segir það okkur þegar Íslendingar standa að baki nágrannaþjóðum í alþjóðlegum prófum og allstór hluti nemenda getur ekki lesið sér til skilnings í lok tíu ára í grunnskóla? Meiri peningar eru ekki alltaf lausnin heldur þarf fyrst og fremst metnað og þor til þess að fara nýja leiðir.
Menningin hefur stundum verið fyrst undir niðurskurðarhnífinn þegar á móti blæs. Sagt er að ráðgjafi hafi lagt það til við Churchill í heimstyrjöldinni að útgjöld til menningarmála yrðu skert meira vegna stríðsrekstrarins og gamli maðurinn hafi svarað: „Til hvers erum við þá að berjast?“
Þetta á líka við á Íslandi. Ef ekki er hlúð að íslenskri menningu hverfum við sem sjálfstæð þjóð. Það getur nefnilega vel farið saman að vera þjóðlegur og alþjóðlegur.
Þjóð með sjálfstraust verður þjóð meðal þjóða. Þjóðremba og hroki er í raun minnimáttarkennd gagnvart öðrum þjóðum.
En vel á minnst. Í morgun las ég í blaðinu að utanríkisráðherra vann í gær sinn stærsta sigur til þessa sem diplómati þegar hann undirritaði samning við Main-fylki í Bandaríkjunum. Lögð er áhersla á orkumál, viðskiptaþróun, samgöngur, nýtingu náttúruauðlinda og menningarmál, sem og rædd ný viðskiptatækifæri sem skapast með beinum siglingum milli Íslands og Main. Það gott að ráðherrann nýtir vel tímann sem losnaði þegar viðræðunum við Evrópusambandið var hætt. Í næstu viku kemur John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, væntanlega í opinbera heimsókn til Sauðárkróks og undirritar ásamt kaupfélagsstjóranum samkomulag um stjórnmálasamband Bandaríkjanna og Skagafjarðar.
Sumir tala með lítilsvirðingu um Evrópusambandið og segja að innganga í það sé engin töfralausn. Auðvitað ekki, en eigum við að hafna öllum leiðum sem ekki eru töfralausnir? Maður sér forsetann fyrir sér þar sem hann segir trekk í trekk: „Því miður get ég ekki staðfest þessi lög af því að þau eru ekki töfralausn.“
Slíkt tal varð til þess að mér varð hugsað til galdrakarlsins í Oz. Á ferðum sínum í Oz hitti söguhetja þrjá skrítna fíra. Einn vantaði heila, annan hjarta og þann þriðja hugrekki.
Ég skil það vel ef fundarmenn eiga erfitt með að tengja þessa sögu við íslensk stjórnmál.
En það er þó hægt, því að þetta eru einmitt eiginleikarnir sem gott stjórnmálaafl þarf að búa yfir. Stefnan þarf að vera skynsamleg, hún þarf að vera mannúðleg og það þarf hugrekki til þess að hrinda henni í framkvæmd. Þetta gerist ekki nema við vinnum saman að því að móta stefnu í þeim anda sem hér er lýst því að það er enginn galdrakarl til sem leysir vandann fyrir okkur.
Á þessum fundi leitum við hugmynda í þeim frjálslynda anda sem hér er kynntur. Hingað kemur fólk með margvíslega reynslu og þekkingu. Stjórnmálaafl sem vill þóknast öllum mun á endanum ekki falla í kramið hjá neinum. Viðreisn verður ekki allskonar fyrir alla. Þetta þýðir ekki að menn verði að vera sammála um hvert smáatriði, en þeir sem halda áfram verða að vera sammála um grunninn sem á er byggt.
Hugmyndir einstakra hópa eru fyrsta innlegg í starf málefnahópa sem halda áfram störfum í haust. Það gefst mikill tími til þess að ræða þær fram og til baka. Og ekki bara þær heldur mörg fleiri mikilvæg mál.
Margir spyrja hvenær verður flokkurinn stofnaður? Svarið er: Ekkert liggur á. Það er miklu betra að gera hlutina vel og mæta samstillt til leiks þegar að kosningum kemur.
Við spyrjum ekki: Hvers vegna gerir enginn neitt?
Við gerum.