Eins og nánast alltaf una flokkarnir vel við sitt að kosningum loknum. Það er erfitt að bera saman úrslit við þingkosningar því ekki bjóða allir flokkar fram í öllum kjördæmum. Reykjavík er eina kjördæmið sem hægt er að bera beint saman kosningar í borginni og til Alþingis.
Fyrir fjórum árum urðu mikil tíðindi í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi. Besti flokkurinn fékk um35% atkvæða í Reykjavík og náði völdum. Á sama tíma vann listi fólksins á Akureyri hreinan meirihluta. Með þessu reyndu kjósendur að senda stjórnmálamönnum skilaboð, en nánast enginn þeirra hlustaði. Nánast enginn segi ég, því að Guðmundur Steingrímsson stofnaði nýjan flokk og vildi róa á sömu mið, en hann hafði áður verið í Framsóknarflokknum sem erfðafylgju, en fljótt varð ljóst að hann og formaðurinn áttu ekki samleið. Kannski ætti líka að flokka þann ósamstæða hóp sem myndar Pírata þannig líka, því að vissulega er sá flokkur ákall á breytingar, en hann virðist ekki ná að festa sig í sessi, þó að hann hafi náð inn manni í Reykjavík.
Gömlu flokkarnir hlustuðu ekki á ákall um breytingar. Framsókn tók upp þjóðernispopúlisma og afturhvarf til Hriflu-Jónasar í nútímabúningi og virðist hafa tekist vonum framar, a.m.k. í Reykjavík, þó að fylgið sé miklu minna en í þingkosningum fyrir ári.
Samfylkingin losaði sig úr viðjum fortíðar þegar Jóhanna hvarf á braut. Í Reykjavík vinnur flokkurinn mikinn sigur, en annars staðar er hann ekki í neinni sigursveiflu, hækkar á stöku stað og tapar annars staðar. Mest svíður eflaust að tapa meirihluta í Hafnarfirði. Auðvitað fer mikið fylgi til Bjartrar framtíðar.
Framsóknarflokkurinn fær tvo menn í Reykjavík út á moskuna. Fylgið er samt miklu minna í borginni en í þingkosningunum fyrir ári. Þó að hann kunni að hafa haldið fylgi í einhverjum sveitarfélögum og jafnvel bætt það á stöku stað er niðurstaðan engu að síður sú að fylgistapið, sem varð til þess að Halldór Ásgrímsson sagði af sér fyrir átta árum, gekk ekki tilbaka.
Björt framtíð hafa fengið bæjarfulltrúa í mörgum bæjarfélögum þrátt fyrir að hafa ekki haldið fylgi Besta flokksins í Reykjavík. Í höfuðborginni breyttist landslagið auðvitað við það að Jón Gnarr hvarf af sjónarsviðinu. Hann var eini maðurinn sem fólk almennt þekkti í Besta flokknum fyrir kosningar og þegar hann hætti hvarf Besti flokkurinn.
VG vann mikinn sigur í þingkosningunum 2009, en síðan virðist flokkurinn ekki hafa náð sér á strik. Sigurinn byggðist því á óánægjufylgi en ekki hrifningu af málstað flokksins. Katrín formaður nýtur virðingar og vinsælda, en það dugir ekki til.
Reykjavík er öðruvísi
Skoðum úrslitin í Reykjavík með samanburði við þingkosningarnar í fyrra:
Fyrst atkvæðatölur, svo hlutföll
Listi | 2013 | 2014 | Breyting |
Björt framtíð | 7.366 | 8.539 | 15,9% |
Píratar | 4.586 | 3.238 | -29,4% |
Sjálfstæðisflokkur | 17.644 | 14.031 | -20,5% |
Samfylking | 10.001 | 17.426 | 74,2% |
VG | 9.767 | 4.553 | -53,4% |
Framsókn | 11.690 | 5.865 | -49,8% |
Aðrir | 9.277 | 993 | -89,3% |
Alls | 70.331 | 54.645 | -22,3% |
Listi | Prósent 13 | Prósent 14 | Breyting |
Björt framtíð | 10,5% | 15,6% | 49,2% |
Píratar | 6,5% | 5,9% | -9,1% |
Sjálfstæðisflokkur | 25,1% | 25,7% | 2,4% |
Samfylking | 14,2% | 31,9% | 124,3% |
VG | 13,9% | 8,3% | -40,0% |
Framsókn | 16,6% | 10,7% | -35,4% |
Aðrir | 13,2% | 1,8% | -86,2% |
Alls | 100,0% | 100,0% | 0,0% |
Í fyrsta lagi er augljóst að nærri 16 þúsund færri kusu í borgarstjórn en til Alþingis. Engum getum skal að því leitt hvernig þeir sem ekki mættu hefðu kosið, en samt er það óneitanlega áhyggjuefni að svo fáir kjósa og segir einhverja sögu um áhugaleysi um sveitarstjórnarmál almennt. Í Alþingiskosningunum voru ýmsir aðrir flokkar með samtals 13% og því talsvert til skiptanna fyrir hina, því Alþýðufylkingin og Dögun fengu lítið fylgi.
Samfylkingin er augljóslega sá flokkur sem vinnur sigur, hvort sem litið er á fjölda atkvæða eða hlutfall. Hér vinnur bæði hún og Björt framtíð á. Í Alþingiskosningunum fengu flokkarnir samtals 24% en 46,5% í borgarstjórnarkosningunum. Þetta er auðvitað sigur en þverstæðan er sú að meirihluti flokkanna féll. Dagur verður væntanlega borgarstjóri og vonandi heldur hann áfram að stytta mál sitt. Björn Blöndal hefur greinilega verið löngum samvistum við Jón Gnarr og hefur tamið sér fas hans og jafnvel talanda, en það dugði ekki til þess að fá fylgið.
VG tapa miklu fylgi, hvernig sem á það er litið. Í Alþingiskosningum í fyrra fékk flokkurinn 14%, nú rúmlega 8%. Kannski fer flokkurinn í meirihlutasamstarfið, en það er ekki endilega rökrétt niðurstaða kosninganna.
Píratar slefuðu inn manni en virðast almennt ekki hafa náð þeirri fótfestu sem þeir vonuðust eftir.
Framsóknarflokkurinn fær miklu minna fylgi en í Alþingiskosningunum og þó að fylgið hafi verið miklu meira en skoðanakannanir sýndu. Sagan sýnir reyndar að fólk er tregt til þess að viðurkenna fyrir könnuðum að þeir séu framsóknarmenn sem skiljanlegt er. Ekki má heldur gleyma að hér var ekki um hreint flokksframboð að ræða, því að Flugvallarvinir slógust í för með flokknum og því ekki fyllilega marktækt að bera fylgið saman við síðustu kosningar.
Margir velta því fyrir sér fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni, en það er vel þekkt að flokkurinn hefur sögulega fengið mun meira fylgi í borgarstjórnarkosningum en í Alþingiskosningum í Reykjavík. Þess vegna hljóta úrslitin þar að vera áhyggjuefni fyrir flokkinn. Sem betur fer komst Áslaug Friðriksdóttir að, en um tíma leit út fyrir að hún myndi falla, sem hefði verið mikið áfall fyrir frjálslyndar skoðanir í flokknum. Eins hefði verið mikill fengur að því að fá Hildi Sverrisdóttur í borgarstjórn, því að hún hefur sýnt að hún hefur ferskar og skynsamlegar skoðanir á málum.
Halldór Halldórsson barðist af mikilli þrautseigju en segja má að sótt hafi verið að honum úr tveimur áttum. Framsóknararmur flokksins lá honum á hálsi fyrir að vera Evrópusinni, en flokksforustan gerði honum óleik með því að styðja tillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og ganga þannig á bak loforða um að leggja málið í dóm kjósenda í kosningum. Þetta varð til þess að rýra traust manna á flokknum. Það var örugglega skynsamlegt hjá Bjarna Benediktssyni að leyfa málinu að sofna í nefnd og bjargaði eflaust fjórða manni inn. Fyrir Reykvíkinga er skaði að því að Halldór nái ekki til forystu í borginni, því að hann hefur afburða þekkingu á sveitarstjórnarmálum og er frambærilegur maður.
Framsóknararmur flokksins var áður einkum tengdur dreifbýlismönnum, en nú hafa tveir af fyrrverandi forystumönnum flokksins í Reykjavík og fyrrverandi þingmenn Reykjavíkur lýst aðdáun sinni á „the real thing“ eins og annar þeirra orðaði það svo skemmtilega.
Einhvern tíma hefði það þótt frétt að flokkurinn sem nyti stuðnings Morgunblaðsins fengi ekki nema rúmlega 10% í Reykjavík. Eða það að í Reykjavíkurbréfi væri formaður öfgaflokksins Front National í Frakklandi talinn helsta vonarstjarna Frakka og „afgerandi stjórnmálamaður“ sem bera ætti virðingu fyrir. En kannski er þetta byrjun á þeirri þróun öldungarnir þrír færi sig yfir Framsóknarflokkinn ekki bara í orði heldur líka á borði. Það hefði líklega lítil áhrif á fylgi framsóknar, því öllum er ljóst hvar hjarta þessara heiðursmanna slær, en væru óneitanlega eðlilegt framhald á langtímaþróun. Þetta myndi á efa gera Sjálfstæðisflokkinn að trúverðugri kosti í landsmálum, en margt ungt og frjálslynt fólk telur sig ekki eiga samleið með flokknum lengur.
Staða Sjálfstæðisflokksins
Skoðum stöðu Sjálfstæðisflokksins í nokkrum helstu sveitarfélögunum landsins:
Reykjavík 4 fulltrúar. Tapar einum.
Kópavogur 5 fulltrúar. Bætti við sig einum.
Garðabær 7 fulltrúar af 11. Hreinn meirihluti.
Hafnarfjörður. 5 fulltrúar. Óbreytt.
Seltjarnarnes. 4 fulltrúar af 7. Tapaði manni Hreinn meirihluti.
Mosfellsbær. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti.
Akranes. 5 fulltrúar. Bætti við sig 3. Hreinn meirihluti.
Borgarbyggð. 3 fulltrúa. Óbreytt.
Snæfellsbær. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti.
Grundarfjörður. 3 fulltrúar. Óbreytt.
Stykkishólmur. Bauð ekki fram en framboð sem flokkurinn studdi fékk hreinan meirihluta.
Vesturbyggð. Sjálfkjörið var og flokkurinn heldur bæjarstjóra.
Ísafjarðarbær. 3 fulltrúar. Tapaði manni.
Bolungarvík. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti.
Skagafjörður. 2 fulltrúar. Óbreytt.
Akureyri. 3 fulltrúar. Vann tvo.
Norðurþing. 3 fulltrúar. Bætti við sig einum.
Fljótsdalshérað. 2 fulltrúar. Tapaði manni.
Seyðisfjörður. 3 fulltrúar. Óbreytt.
Fjarðabyggð. 3 fulltrúar. Tapaði manni en er stærsti flokkurinn.
Hornafjörður. 2 fulltrúar. Óbreytt.
Rangárþing eystra. 2 fulltrúar. Óbreytt.
Rangárþing ytra. 4 fulltrúar af 7. Vann meirihluta.
Árborg. 5 fulltrúar. Óbreytt, Hreinn meirihluti.
Hveragerði. 4 af 7. Tapaði manni. Hreinn meirihluti.
Ölfus. 2 fulltrúar. Óbreytt.
Vestmannaeyjar. 5 fulltrúar af 7. Bætir við sig einum og fær um 75%. Hreinn meirihluti.
Grindavík. 3 fulltrúar. Bætir við sig tveimur og er stærsti flokkurinn.
Reykjanesbær. 4 fulltrúar af 11. Tapaði meirihluta.
Af upptalningunni sést að í þessum bæjarfélögum er Sjálfstæðisflokkur með hreinan meirihluta í 12 af 29. Var áður með hreinan meirihluta í 10, vann tvo meirihluta en tapaði einum. Á tveimur stöðum tók hann þátt í framboði með öðrum sem náði meirihluta og Álftanes þar sem flokkurinn hafði meirihluta, sameinaðist Garðabæ.
Áhrif á þjóðmálin
Í þessum kosningum urðu engar þær sveiflur sem breyta stöðunni í þjóðmálapólitíinni. Ríkisstjórnarflokkarnir fá ekki sérstakan skell, nema í höfuðborginni, sem líklega er tengdust þjóðmálunum. Þar tapar Framsókn miklu fylgi frá því í fyrra þó að hún hafi fengið liðstyrk Flugvallarvina og Sjálfstæðisflokkurinn fær svipað fylgi og þá, en yfirleitt hefur hann meira fylgi í borgarstjórn en til Alþingis.
Helstu tíðindin eru þau að ritstjóri Morgunblaðsins, sem í fyrra studdi Ólaf Ragnar Grímsson forseta studdi nú Framsóknarflokkinn, hinn gamla flokk Ólafs. Tíðindin eru þó ekki meiri en svo að menn taka varla eftir þeim.