Einhvern tíma í fyrra hitti ég tvo menn í Úlfarsfellinu, hef reyndar hitt þá nokkrum sinnum, en í þetta sinn leiddist talið að því hversu oft við gengjum á fjallið. Ekki gat ég svarað því; alloft var mitt besta svar. Annar hinna, sem reyndar er endurskoðandi, sagði frá því að hann hefði farið meira en 1.300 sinnum á fjallið, minnir mig. Mér fannst tvennt merkilegt við þetta svar: Annars vegar hve oft hann afrekaði þetta, hins vegar að hann skyldi telja.
Eftir þetta heyrði ég í fleira fólki sem telur göngur. Tvær konur hafa sagt mér af sínum fjallaferðum. Önnur hafði farið 25 sinnum á Esjuna á árinu í lok maí og hin hafði lagt Úlfarsfellið 52 sinnum í fyrra. Þetta varð til þess að ég ákvað að byrja að telja. Ég hef punktað hjá mér fjallgöngur undanfarin ár og í fyrra reyndust þær vera 52 með smá átaki í desember.
Í upphafi árs setti ég mér ekkert markmið. Enda lofaði janúar ekki góðu. Fyrstu 25 dagana fann ég mér ýmislegt til afsökunar og eftir mánuðinn hafði ég gengið einu sinni á Úlfarsfellið. Febrúar var eitthvað líflegri, en eftir að kórónuveiran kom til landsins urðu ferðirnar tíðari, hvort sem samband er þar á milli eða ekki.

Til þess að gera langa sögu stutta var svo komið um miðjan ágúst að ég var farinn að nálgast 90 fjöll (reyndar Esju og Úlfarsfell oft) og fór að huga að því hvernig ég ætti að haga 100. göngunni. Ræddi það við son minn og eftir ýmsar vangaveltur stakk hann upp á því að Vestmannaeyjar væru góður göngustaður. Þetta fannst mér þjóðráð og þegar ég var kominn í 95 ferðir ákvað ég að fara út Eyjar á næsta góðveðursdegi. Ég spurði Vilhjálm Bjarnason hvort þar væru ekki örugglega fimm tindar og hann staðfesti að svo væri.
Ég gúglaði svo til þess að finna út hvernig þetta yrði best gert og sá þá að þar var talað um sjö tinda (jafnvel átta) og þessir nefndir: Eldfell, Helgafell, Sæfjall, inn í Herjólfsdal, upp á Dalfjall, Blátind, Háhá, Molda og Heimaklett. Svo sá ég að nefndir voru fleiri tindar, til dæmis Stóra-Klif og Litla-Klif og svo Stórhöfði, sá frægi útvörður veðurfars á Íslandi og mesta rokrassgat Evrópu að sagt er. En Stórhöfði er eiginlega ekki fjall, nema í neyð, heldur meira svona höfði – frekar stór höfði vissulega.

Á miðvikudaginn gengum við Smári vinur minn reyndar á Úlfarsfellið, þannig að ég var kominn upp í 96 ferðir, þannig að fimm var ekki heilög tala lengur. Veðurútlit var gott á föstudegi, en gul viðvörun víða um land á fimmtudag varð til þess að ég frestaði för fram á laugardaginn, minnugur Heklugöngunnar þar sem lofað hafði verið heiðskíru en við lendum í eina snjóbyl sumarsins á fjallinu og fundum næstum ekki toppinn (sáum hann aldrei).

Ég ákvað að sigla með Herjólfi á föstudag og Vilhjálmur Vestmannaeyjaráðgjafi Bjarnason sagði mér að panta herbergi á Hóteli Vestmannaeyjum. Það var gott ráð. Honum láðist að segja mér að á föstudögum er mikil aðsókn að Herjólfi og nauðsynlegt að panta með löngum fyrirvara. Ég ætlaði með bíl klukkan rúmlega sex, en komst á endanum bíllaus klukkan rétt fyrir níu.
Það sem verra var, ég var grímulaus líka og þannig má enginn fara til Eyja. Í vandræðum mínum spurði ég konuna í miðasölunni hvort ég gæti keypt grímu um borð í skipinu, en henni fannst það greinilega heimskuleg spurning, sagðist sjálf hafa grímu til sölu og gegn 300 krónum fékk ég grímu sem ég bar stoltur eftir þetta og hugsaði með mér að einhver hefði hagnast vel á grímusölu, eins dauði er annars brauð.

Þegar út í Eyjar var komið eftir tíðindalausa sjóferð rölti ég áleiðis að hótelinu sem ég mundi nokkurn veginn hvar var. Þangað kom ég þegar klukkan var að verða tíu, henti töskunni upp á herbergi og ætlaði að fá mér bita á Einsa kalda, en þar var búið að loka eldhúsinu og ekkert að fá nema áfengi, sem ég ákvað að geyma mér til betri tíma.
Mér datt ekki í hug að stilla vekjaraklukkuna, því að á svona degi sefur maður ekki yfir sig. Ég var glaðvakandi klukkan sex, leit út um gluggann og þar blöstu við tvö fjöll, Eldfell og Helgafell. Máninn var næstum fullur og byrjað að birta af degi. Reyndi að liggja aðeins lengur, en klukkan hálf sjö var spennan orðin óbærileg og ég dreif mig í sturtu og fór að tína til göngudótið. Klukkan rétt fyrir sjö mætti ég hjá Einsa kalda og í þetta sinn var nægan mat að fá. Ég var eini árrisuli gesturinn og eins og ég komst að fljótlega næstum eini árrisuli maðurinn í Eyjum þennan dag. Fyrst ég hafði misst af steikinni í gær ákvað ég að borða vel af eggjum og beikoni, sem ég fæ mér annars aldrei að morgni. Út fór ég vel mettur, upp á herbergi og kláraði að græja mig og pakka, fékk að geyma farangurinn á hótelinu og lagði af stað klukkan 7.45 með bakpokann og myndavélina.

Nú er verið að breyta gamla Ísfélagshúsinu í banka og íbúðir. Mér finnst alltaf vænt um Ísfélagið frá því að Sigurður heitinn Einarsson fékk mig til þess að spjalla við starfsmenn þar um lífeyrismál fyrir 30 árum eða svo. Sigurður var sómamaður, talaði ekki af sér en það var vit í því sem hann sagði.
Mér fannst svolítið gaman að sjá að nú eru veipsjoppur teknar við af vídeóleigum og spretta upp eins og gorkúlur. Oddfellóar geta veipað á Djáknanum og hafa eflaust ekki teygað loftið af meiri áfergju síðan Tjarnarbúð í Oddfellóhúsinu í Reykjavík var helsta hassbúlla landsins.

Leiðin lá um hafnarsvæðið og Vestmannaeyjar eru sannarlega útgerðarbær, maður andar að sér fiski- og sjávarilminum. Gekk framhjá Blátindi VE 21 sem er í slipp. Ég ætlaði einmitt að ganga á Blátind á eftir og þetta lagðist vel í mig. Seinna sá ég að hér er mikill uppgangur, ekki bara í útgerðinni heldur er fólk líka að byggja ný og glæsileg hús.

- Heimaklettur (283 m)
Ég hef oft komið til Eyja áður og oftar en ekki lagt fjall undir fót. Við Vigdís gengum á Heimaklett fyrir tíu árum eða svo. Hann er óárennilegur að sjá, en það er búið að einfalda uppgöngu með ýmsum hjálparmiðlum. Reyndar var ég svo vitlaus að finna ekki stiginn upp í fyrstu tilraun og tróð marvaða í sandinum fyrstu skrefin. Þetta reyndist erfiðasti hluti þessarar göngu. Auðvitað var þarna góður stígur sem ég komst fljótlega á og hann lá að stiga upp á klettinn.

Umbúnaður er allur til fyrirmyndar, stigar og þrep þannig að lítil hætta er á því að stígurinn spillist í vætu. Ég sé að ýmsir tala um að leiðin sé ekki fyrir lofthrædda og líklega er það rétt, en fyrir þá sem eru bara hæfilega varfærnir eins og ég er þetta ekkert mál. Ég vildi ekki fara þetta í bleytu eða hálku, en á sólríkum degi er þetta í góðu lagi.

Þegar ég kom að síðasta stiganum ákvað ég að geyma bakpokann niðri. Eyjamenn eru þekktir fyrir að vera stálheiðarlegir þannig að ég hafði ekki áhyggjur af honum. Ofarlega í þessum stiga eru appelsínulitaðar rimar og milli þeirra á maður að sjá „papakross“ samkvæmt skilti þar hjá, en hvernig sem ég rýndi sá ég ekki neitt. Hann á vera upplýstur á vetrarsólstöðum. Í Sognfirði sáum við stóran kross af þessu tagi fyrir áratug eða svo, en hann hafði brotnað þegar tré féll á hann skömmu áður. Ef ég man rétt átti að fella það svo það skyggði ekki á hann. Mér á greinilega ekki að auðnast að sjá þessa krossa.

Ofar stigans er reipi sem maður hífir sig upp á og svo eru keðjur á stöku stað. Slóðin er öll vel greinileg og auðveld uppgöngu. Kindurnar sem tóku á móti mér voru fallegar, en sumar ansi fífldjarfar fyrir minn smekk.

Á toppnum sér maður vel í land. Eyjafjallajökull, Hekla og Tindfjöll sjást öll vel. Þarna er gestabók, en ég var svo heillaður af útsýninu að ég gleymdi að skrifa. Uppgangan tók um 40 mínútur á rólegri göngu. Nú var það úthaldið en ekki snerpan sem skipti máli.

Á leiðinni niður sér maður bæinn vel og getur vel því fyrir sér hvernig húsin eru þarna beinlínis milli virkra eldfjalla. Í landafræðinni í gamla daga var sagt að Helgafell væri kulnaður gígur, en það reyndist aldeilis ekki.

Pokinn var á sínum stað og enginn kominn á klettinn enn. Áður en ég komst alla leið niður mætti ég þó útlendu pari í einum stiganum. Þau hikuðu þegar ég kíkti fram af brúninni eins og þau byggjust við að þurfa að víkja fyrir mér, en létti greinilega þegar ég benti þeim að halda áfram upp.

Þegar ég kom niður beið þar vörpulegur hópur göngumanna frá Ferðafélagi Íslands, greinilega nýkominn með ferjunni og höfðu klætt sig fyrir kaldara veður, sem er ágætt því að það er auðveldara að fækka fötum en kaupa ný í miðjum fjallshlíðum. Þar var nafni minn og frændi sem sagði mér að þau ætluðu að ganga „alla leið“ á eins marga tinda og þau gætu þennan dag. Á netinu sé ég að áætlunin var: „Heimaklettur, Stórhöfði, Helgarfell og Eldfell.“ Þarna hefur einhver Reykvíkingurinn talið að „Helgarfell“ væri fjall til þess að ganga á um helgar.

Áfram lá mín leið að Stóra-Klifi, en leiðin á það byrjar rétt aftan við N1 stöðina. Það er heppilegt því að þegar ég var að leggja af stað hringdi Ágúst Halldórsson, félagi minn í Merkigilsförum, í mig og spurði hvernig gengi. Ég hafði hringt í hann áður en ég lagði af stað úr landi og spurt hvort hann væri til í að skutla mér úr Herjólfsdal að Eldfelli, en það er svolítill spölur. Hann tók því strax vel og bætti nú um betur og bauðst til þess að ganga með mér næstu áfanga, sem ég auðvitað þáði með þökkum.
2. Stóra-Klif (240 m)
Aftur skildi ég pokann eftir rétt ofan við prílur á girðingu og við héldum í hann. Ágúst benti mér á hitt og þetta fróðlegt á leiðinni, nefndi örnefni og sagði sögur. Allt hafði hann farið margoft, fyrst sem smápeyi.

Í brekkunum er sums staðar melgresi, en svo urð en reyndar gras meðfram henni. Tveir kaðlar auðvelda leiðina, því þetta er nokkuð bratt. Að fenginni reynslu mæli ég með kaðlinum í grasinu. Hann liggur að allstórum kletti og það er betra að fara hægra megin við hann en hina leiðina, sem ætti ekki að koma á óvart. Ég lenti aftur á móti í vinstri villu sem gerði ferðina óþarflega erfiða. Ágústi fannst ég fara hægt, en ég var löngu ákveðinn í því að passa að sprengja mig ekki. Þessi brekka var erfiðasti hluti leiðarinnar, fannst mér. Kaðlar og keðjur voru kærkomin hjálpartæki.

Uppi á Klifinu eru fjölmörg möstur sem Ágúst hafði auðvitað klifrað upp í á árum áður. „En það var miklu hærra þá“, bætti hann við. Hann átti við mastrið en ekki Klifið. Hefur kannski ekki þótt ég sýna næga aðdáun, en það var ástæðulaust. Afrek hans og þekking bættu miklu við ferðina.

Útsýni er auðvitað stórkostlegt líka af Stóra-Klifi. Við sáum að hópurinn í Heimakletti var kominn vel á veg, greinilega vel agað og hlýðið fólk sem gekk í beinni röð eftir slóðanum. Nokkrar kindur sýndu ferðalöngunum áhuga og virtust vilja slást í hópinn, en voru annars dreifðar um brekkuna.
Á Klifi eru skemmtileg örnefni sem ég sé á korti. Maður er örnefni sem ég man ekki eftir annars staðar. Vondutær er kannski eitthvað sem maður gæti átt von á daginn eftir göngu. Skemmtilegasta örnefnið fyrir mig var samt Bensanef. Ég sá lengra en það náði.

Þó að ég hafi komið oft til Eyja, fyrst níu ára gamall, og farið víða um Heimaey, hafði ég aldrei áttað mig á því hvað landslagið er stórkostlegt fyrr en nú. Fjöllin gefa bókstaflega nýtt sjónarhorn og það er gaman að velta fyrir sér klettunum allt frá Heimakletti og inn að Dalsfjalli ofan Herjólfsdals annars vegar og láglendinu, gígunum og hrauninu hins vegar, sem allt er miklu fínlegra.

Við vorum um þrjú kortér á leiðinni upp, en Ágúst hefði eflaust farið þetta á innan við hálftíma einn.

Ofan fórum við aftur. Ég var feginn að heimamaðurinn studdi sig líka við kaðalana. Þá var ég ekki með alveg jafnmikla minnimáttarkennd þegar ég hékk í þeim. Ágúst spurði hvort ég vildi fara á Litla-Klif, en það er miklu brattara að sjá og bíður betri tíma. Þar uppi var máfsungi sem við kynntumst ekkert nánar.

Nú var ég orðinn býsna þyrstur og hlakkaði til endurfundanna við bakpokann þar sem ég hafði nóg að drekka. En af þeim varð ekki að sinni. Ekki vegna þess að hann væri horfinn heldur stakk Ágúst upp á því að við færum beint upp á Hána.
3. Háháin og Moldi (220 m)
Við héldum áfram og ég ákvað að tala ekki um vatnsleysið, því að það var óneitanlega kostur að þurfa ekki að lækka sig til þess eins að ganga upp aftur. Einum göngumanni (reyndar konu) mættum við úr Ferðafélagshópnum. Hún bar fyrir sig lofthræðslu og ákvað að fara ekki „alla leið“ á Heimaklett.

Við stoppuðum í Náttmálaskarði, en þar hafði sólin verið við náttmál (um 9 að kvöldi) á einhverjum bæ austur á eynni. Ágúst benti á eyjar og sker og sagði sögur. Þarna fyrir neðan hafði áður verið beitarland fyrir kýr, en í Suðurlandsskjálftanum 1896 hafði landslagið breyst, hrunið grjót úr Klifi og haginn horfið.

Það sem mér þótti verra var að þá hrundi líka steinbogi sem var í skeri sem við sáum þaðan. Þar hafði verið hægt að sigla í gegn. Framan við hann er sérkennilegt sker sem strákarnir kölluðu krókódílinn í ungdæmi Ágústs.

Víða eru skemmtilegar myndir í klettaveggjum ef maður leitar að þeim.

Leiðin þarna upp er fremur einföld og ekki brött. Útsýnið á meginlandið er gott og Eyjafjallajökull gægist oft fram undan Heimakletti. Ágúst benti mér á að gatið í Dyrhólaey sæist, en ég sé ekki betur en svo að ég varð að nota linsuna, en þetta var auðvitað rétt.

Við gengum fyrst fram á Molda, sem er toppur ofan við bæinn og þaðan er útsýni gott yfir Herjólfsdalinn og eyna nánast alla því að hann er miðsvæðis og skyggir þá ekki sjálfur á aðra staði á eynni.

Ofan hans er Háháin, en neðar er Háin, sem við fórum ekki um í þetta sinn. Þetta eru skemmtileg örnefni. Þegar við stóðum þar var um klukkutími frá því að við vorum efst í Stóra-Klifi.
4. Dalfjall og Blátindur (273 m)
Nú var greiðfær stígur áfram. Við stoppuðum fyrst í smáskarði þar sem vel sést vesturyfir, en á þessum slóðum var ég sumarið 1977 þegar ég var fararstjóri fyrir franska ferðamenn. Þá stoppaði ég einmitt hér og horfði á lundann, en þeir voru flestir farnir sína leið núna. Ágúst er lundaveiðimaður í frístundum og hefur veitt meira en 50 þúsund lunda um ævina. Ég man að Frökkunum fannst hræðilegt að þessir fallegu fuglar væru veiddir og kærðu sig ekkert um að sjá þær aðfarir.

Á leiðinni fór spjallið vítt og breitt og meðal annars að háum blóðþrýstingi sem ég sagðist hafa tekið lyf við í áratugi. Ekki veit ég hvort það var í framhaldi af því spjalli eða Ágústi fannst ég ekki hressilegur í göngu, en hann spurði hver væri hjartalæknirinn minn. Hefur viljað geta hringt umsvifalaust ef þörf kræfi, en ég gat ekki vísað á neinn slíkan.

Við gengum á Eggjum alla leið að Blátindi, en þangað var förinni heitið. Öll leiðin er greiðfær þar til komið er syðst í fjallið. Þá skiptist leiðin í tvennt. Önnur liggur suður í höfða þarna neðan við og heitir Sveinar og þar fyrir neðan Stafnsnes. (Ef ég fer rangt með örnefni er það mér og mínu minni eða misskilningi að kenna, en ekki Ágústi).

Nú lá leiðin upp allbrattar skriður og þar er búið að koma fyrir kaðli sem kom sér vel. Ágúst sagði mér að hann hefði smalað þarna á árum áður og það hefur örugglega verið erfitt þegar kindurnar hlupu upp og niður brattar hlíðarnar og jafnvel farið að héla á steinum.

Upp komumst við og við tóku slóðir á hryggjum sem mér fannst ágætir til göngu og ekki sérlega svakalegir, en myndu kannski henta Sigurði bróður mínum síður. Nú styttist í Blátindinn og hann skagar fram og svolítið príl upp á hann, en enn og aftur er búið að koma fyrir köðlum þannig að flestir ættu að komast alla leið.

Ágúst sagðist hafa skammað þann sem kom köðlunum fyrir því hann væri búinn að eyðileggja tindinn, en ég bað hann aftur á móti að skila þakklæti til þessa vinar síns frá mér! Við vorum um 40 mínútur frá Háhánni á Blátind.

Ekki þarf að fjölyrða um útsýnið sem er afar skemmtilegt og gott austur um eyna og út í Stórhöfða og út af honum Álsey og Suðurey.

En þarna á Blátindi var 100. fjallið sigrað í ár og mikil gleði í brjósti mér, þó að ég dempaði hana að sinni. Mesti sigurinn er nefnilega að komast heill niður. Við héldum til baka einstigin og svo niður brekku, beint ofan í Herjólfsdal. Þar eru ágætir stígar og þar hittum við Pál Scheving veitingamann í Tanganum, en hann var að smíða tröppur upp hlíðina. Ég var rétt áður búinn að hrósa þeim sem hafa dugnað í sér til þess að leggja góða stíga og auðvelda göngugörpum ferðina og vernda um leið umhverfið fyrir utanslóðarölti. Ég endurtók þá ræðu yfir Páli sem lét sér vel líka.

Niðri í dalnum var ég búinn að ganga um átta kílómetra og tæplega fimm og hálfan tíma frá hótelinu, en tæpa fimm tíma frá uppgöngustað við Heimaklett.

Einstaklega ánægjuleg ganga í skínandi sólskini og með frábæra fylgd og leiðsögn. Ekki tók verra við því að Lóa, kona Ágústs, sótti okkur inn í dal, ók með mig að bakpokanum sem auðvitað var á sínum stað og kórónaði svo allt með því að bjóða mér í mat. Það var glæsileg máltíð og gott að setjast niður eftir afrek morgunsins.
5. Eldfell (200 m)
Hús þeirra Ágústs og Lóu er rétt við Eldfell og eftir klukkutíma dýrlega máltíð hélt ég förinni áfram. Nú var verkefnið einfaldara og Ágúst gaf mér leiðbeiningar um hvernig best væri að haga göngunni.

Hún byrjaði við rætur Eldfells. Ferðin upp tók ekki nema 15 mínútur á mínum rólega gangi. Þó að bráðum séu 50 ár frá því að gosið hófst sér maður glöggt merki um umbrotin.

Nýja hraunið sem lagði undir sig hluta bæjarins sést glöggt og enn betur austur af, þótt sums staðar hafi gróður brotist upp. Skemmtilegar hraunmyndanir gera þennan gíg afar forvitnilegan. Ég gekk eftir honum öllum og þótt útsýnið sé prýðilegt var hugurinn við eldsumbrotin.

Svæðið er ekki stórt og líklega hef ég verið um 10 mínútur þarna uppi og hélt áfram sömu leið niður.
6. Helgafell (227m)
Helgafellið er kippkorn frá systurfjalli sínu. Göngustígurinn þangað upp hófst um það bil tíu mínútna gang frá bílaplaninu við Helgafell. Lengi er gangan eftir bílvegi (sem ekki má aka lengur) og eftir það greinilegur stígur.

Ég var um kortér þangað upp. Þar er útsýnisskífa og svolítill gígur sem ég hefði átt að ganga kringum, en nú var farið að sneiðast um tímann því að Herjólfur átti að fara eftir tvo tíma og einn tindur eftir enn, Sæfjall.

Leiðin upp og niður er svolítið skemmtileg að því leyti að meðfram henni er melgresið þangað til maður gengur upp úr því í um 200 metra hæð og við tekur gosmölin. Líklega eira vindarnir úr Stórhöfða engum gróðri í þessari hæð.
7. Sæfjall (182 m)
Sæfjall stendur út við sjó sunnan við flugbrautarendann. Ég verð að játa að ég vissi ekki einu sinni að það væri til fyrr en ég afréð þessa göngu.

Ég var um 20 mínútur að ganga á milli fjallsróta og uppgangan tók um stundarfjórðung. Þessi síðustu þrjú fjöll voru því vel valin sem hvíld eftir morguninn. Héðan sjást jöklarnir, Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull vel.

Að sunnan sést Surtsey vel. Uppi á Sæfjallinu eru einhver möstur en ekki veit ég til hvers þau eru, að minnsta kosti ekki til prýði. Stórhöfðinn er smár héðan frá séð og ég var sáttur að sleppa honum í þetta sinn, en gangan þangað er ekki erfið að sjá.

Niður fór ég sömu leið og Ágúst sótti mig og keyrði á hótelið og í ferjuna. Ég kvaddi hann með eins miklum virktum og hægt er á þessum tímum. Þau hjón gerðu svo sannarlega góða ferð frábæra.

Í ferjuna komst ég fyrir klukkan fimm með því að sýna miðann frá því í gær (hinn rétti var þar á bakvið), en gegn ströngum skipunum um að setja upp grímuna sem ég auðvitað gerði. Siglingin í land tók um 40 mínútur og aksturinn í bæinn tæplega tvo tíma þannig að ég var kominn heim um hálf átta leytið, lúinn en glaður með að hafa klárað fjöllin sjö eins og Mjallhvít forðum daga og náð að rjúfa 100 fjalla múrinn.