Greiði kemur greiða á móti

Núverandi ríkisstjórn gæti vel staðið undir nafninu Sérhagsmunastjórnin. Veiðigjald hefur verið lækkað og öllum almenningi er misboðið. Það verður aldrei sátt um kerfi sem ívilnar útgerðarmönnum og gjald er ákveðið af pólitíkusum og embættismönnum.

Útgerðin hefur aftur á móti á undanförnum árum forherst í því að gefa ekki krónu eftir af sínum ofurgróða. Stefna Viðreisnar er að afgjaldið fyrir veiðiheimildir ráðist á markaði þar sem ákveðinn hluti kvótans verði boðinn upp á hverju ári. Tekjur ríkisins ráðast þá ekki af því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn heldur af markaðsaðstæðum á hverjum tíma.

Skilyrði fyrir sátt

Í fljótu bragði má nefna nokkur atriði sem ekki ætti að vera mikill styr um:

  • Greitt sé sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindinni
  • Gjaldið sé markaðstengt
  • Tryggt sé að umgjörðin sé stöðug til frambúðar
  • Nýliðun sé möguleg

Hvatt sé til hagræðingar og hámarks arðsemi til lengri tíma litið.

Um hvað er deilt?

Almenningur er ekki sáttur við einkaeign á sameign þjóðarinnar. Á móti er ekki óeðlilegt að spurt sé: Hver hlúir að sameign og gætir þess að vel sé um hana gengið? Kvótakerfið með reglum um nýtingarrétt til langs tíma stuðlar að því að útgerðin fari ekki ránshendi um auðlindina til þess að ná í skammtímahagnað. Kerfið hefur orðið grundvöllur mikillar hagræðingar sem að mestu hefur hafnað í vasa útgerðarmanna.

Fyrir daga kvótakerfisins var útgerðin rekin á núlli með síendurteknum gengisfellingum, en nú er öldin önnur. Fólk, sem áður rak útgerð sem barðist í bökkum, varð skyndilega auðkýfingar á montjeppum með villur úti í erlendum paradísum. Útgerðarmenn eru smám saman að leggja undir sig allt atvinnulíf þjóðarinnar. Hagnaðurinn af „sameigninni“ lendir allur í vasa og afkomenda þeirra. Núverandi stjórnarflokkar vilja festa það kerfi nýrra lénsherra um alla framtíð.

Stjórnarflokkarnir vernda útgerðaraðalinn

Pólitíkusar kyrrstöðuflokkanna í ríkisstjórninni vilja veiðigjald sem er ákveðið af stjórnmálamönnum en tekur ekki mið af markaði. Þeir sem mikið skulda fá afslátt. Flestum þætti það einkennileg viðskiptaaðferð við bensíndæluna.

Ýmsir þingmenn sem á hátíðarstundum kenna sig við frjálsa samkeppni vilja alls ekki hleypa markaðsöflunum að til þess að ákveða veiðigjaldið sem þó er almenn regla á Íslandi, til dæmis á húsaleigumarkaði. Ekkert kerfi sem byggir á undanþágum og sérreglum nær að uppfylla kröfur um sanngirni.

Sanngjarnt gjald fyrir veiðiheimildir er nákvæmlega eins skilgreint og á hlutabréfamarkaði: „Það sem markaðurinn ber“. Það er fullt gjald.

Núverandi ríkisstjórn hefur kappkostað að gæta þess að sem mest af hagnaði af auðlindinni fari til útgerðarmanna, en sem minnst til almennings. Í ljósi þessa væri eðlilegt að banna að fyrirtæki sem fá úthlutað gæðum frá ríkinu styrki stjórnmálaflokka. Í Biblíunni segir líka: „Því að þar sem fjársjóðir yðar eru, þar munu og hjörtu yðar vera.“


Þessi pistill er að stofni til stytt útgáfa af grein sem ég skrifaði fyrir réttum fjórum árum. Ef eitthvað er þá hefur ástandið versnað frá því að framsóknarflokkarnir í ríkisstjórn voru bara tveir.

 

 

1 comments

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.