Ævintýri á gönguför – Gengið yfir Glámu

Gangan frá Hestfirði yfir í Dýrafjörð á sér langa sögu. Fyrir 45 árum var ég heilt sumar við brúargerð í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi, sem þá var afskekktur eyðifjörður (sem hann er enn), en brúin var síðasti hlekkurinn í Djúpveginum svonefnda. Ég hreyfði mig aldrei spönn frá rassi úr tjaldbúðunum á kvöldin, sá ekki einu sinni Hestinn, sem er sérstætt fjall í mynni fjarðarins.

Afi Vigdísar minnar, Bjarni Ívarsson, sagði að Dýrafjörðurinn væri fegurstur fjarða, sem ég veit ekki hvort er rétt, en hann er fallegur og þangað förum við oft. Þegar ég las svo einhversstaðar að þarna á milli væri gömul þjóðleið ákvað ég, að einhverntíma skyldi ég fara hana og bæta þar með fyrir hreyfingarleysið í brúarvinnunni.

Í Hestfjarðarbotni

Þá vantaði bara göngufélaga og hann fannst og var ekki af verri endanum, dr. Gylfi Ólafsson, sjúkrahússstjóri á Ísafirði, frændi minn af Zoega-ætt og fyrrum hundtryggur pólitískur aðstoðarmaður minn í blíðu og stríðu, auk þess að vera annálaður útivistargarpur og afbragð annarra manna. Gylfi féllst strax á gönguna. Göngudagur var ákveðinn 6. júlí og ferðin gulltryggð með því að ég sagði frá henni í viðtali í Morgunblaðinu. Þá varð ekki aftur snúið.

Um níu vorum við komin í Hestfjarðarbotn og ókum út af veginum vestan við brúna eins langt og við komumst þar til bíll með tjaldi aftan í stóð á miðjum vegi. Við stoppuðum og gerðum okkur klára, sem reyndist aðeins erfitt, því að gönguskórnir mínir fundust ekki. Annað hvort hef ég gleymt þeim heima eða þeir dottið einhvers staðar út, sem mér finnst ólíklegra. Sem betur fer voru fínu, bláu, utanvega strigaskórnir með og ég fór í þá. Annars var ég í stuttbuxum og stuttermabol enda glaðasólskin og hvergi ský að sjá á himni.

Ég tók upp kortbútinn sem ég hafði prentað út af landmælingavefnum og fletti upp á Sjónfríð, hæsta tindi Glámu, í fjallabók Péturs Þorleifssonar, Fjöll á Fróni. Hvorugt kortið sýndi gönguleiðina upp úr Hestfirði, en bæði bentu til þess að gangan væri einföld. Við þyrftum að fara yfir nokkrar hliðarár, en líklega væru þær vatnslitlar, jafnvel bara lækir.

Spurningin var auðvitað hvort við ættum að fara austan eða vestan Hestfjarðarárinnar, en við vorum vestan við hana, þannig að svarið virtist augljóst.

Við kvöddum Vigdísi mína sem keyrði okkur og hún kvaddi okkur með þessum dramatísku orðum: „Annað hvort heyri ég frá ykkur eða ekki.“

Ferðin hófst og ekki leið á löngu áður en við þurftum að skella okkur úr skónum og vaða lænu sem var of breið til þess að hægt væri að stikla á steinum. Gylfi var þó miklu kaldari í því en ég, en jafnframt fundvís á leiðir.

Það er ekki einfalt að klæða sig í göngusokka þegar fæturnir eru blautir og maður er með poka á bakinu þannig að ég lét mér nægja að fara í annan. Sólin skein í heiði og falleg og einföld ganga blasti við.

Auðvitað var lífið ekki svona einfalt. Við vorum ekki komnir langt á leið þegar við sáum að gerð hafði verið göngubrú yfir Hestfjarðarána. Nú þurfti að velja. Gylfa fannst líta út fyrir að okkar megin árinnar væri mikill hliðarhalli, en beggja vegna var talsvert kjarr. Við höfðum reyndar séð það úr fjarðarbotninum og Vigdís áréttaði að á Vestfjörðum væri aldrei talað um kjarr heldur skóg, samanber Teigsskóg.

Til einhvers hlaut brúin að vera og við ákváðum að fara yfir hana og ganga austan við ána. Brúin er búin til úr samsíða símastaurum með fúnum fjölum á milli, víða brotnum þannig að ferðin yfir er eins og að fara yfir hengibrú milli fjalla í Suður-Ameríku.

Brúin

Teningunum var kastað, við fórum yfir Hestfjarðarfljót – og það reyndist afleit ákvörðun.

Fyrstu hundrað metrana eða svo var reyndar ágætt að ganga, ekki annað að sjá en þar væri stígur eða að minnsta kosti kindagata. En eftir það þéttist skógurinn. Greinarnar flæktust fyrir á alla kanta, slógust framan í okkur og flæktust fyrir löppunum á okkur. Fyrstu metrana gat maður troðið á þeim, en fljótlega snerist taflið við, trén hreinlega umvöfðu mann og ég fann hvernig brotnir kvistar boruðu sig inn í fótleggina á mér og ristu upp á mér handleggina.

Skógurinn

Öðru hvoru ræddum við hvort ekki væri best að snúa við, því að hinum megin leit út fyrir að vera miklu greiðfærara, en bæði var engin augljós leið til baka því að skógurinn, sem nú minnti meira á frumskóg en kjarr, lokaðist að baki okkur jafnskjótt og við höfðum brotist í gegn, og hitt; var ekki líklegt að á hjallanum rétt fyrir ofan skógurinn ekki jafnþéttur. Einhversstaðar er gróðurlína og þar fyrir neðan hlýtur að vera skóglína, hugsaði maður.

Maður á aldrei að hugsa því í sama bili steig ég gegnum rótarþykknið ofan í djúpa holu og stakkst framyfir mig á andlitið. Sem betur fer var þetta mjúk lending, því að ég lendi með hökuna á mosa og starði á grágrýtið framan við mig. Hefði steinninn verið fimm sentimetrum hærri hefði illa farið.

Öðru hvoru stoppaði Gylfi sem er stórstígur og klofstór og í þetta sinn var hann skammt undan og heyrði til mín hrópið, sem var ekki af sársauka heldur vegna þess að mér brá við fallið. Ég stakk upp á að ég hefði stigið inn í opið á tófugreni, en Gylfi taldi að tófum væri illa við skóga eins og Vegagerðinni. Ég vitnaði í að í kvæðinu vagaði hún um holtin, en mundi þá að það var aumingja Siggi sem var að vaga, meðan láfóta smó dældirnar. Svo ræddum við hvort „smó“ gengi í Kröflu, stafaspilinu vinsæla. Það þarf að leysa marga þrautina á gönguferðum.

Gylfi í skóginum

Við náðum upp á hjallann til þess eins að uppgötva að annar hjalli var þar fyrir ofan. Þannig gekk þetta koll af kolli, landið viði vaxið eins og á landnámstíð. Ég breyttist í mikinn skógræktarfjanda á þessum stutta spöl Hvaða gagn er að lausagöngu búfjár þegar maður lendir í svona plöntum sem grípa og nánast gleypa saklausa göngumenn, sem hafa ekkert til saka unnið annað en að fara röngu megin við ána?

Símsamband var ágætt og á leiðinni fékk Gylfi þau gleðilegu tíðindi að hann hefði verið skipaður í gerðardóm til þess að ákveða laun hjúkrunarfræðinga, starf sem þarf að vinnast á skömmum tíma og verður örugglega mjög þakklátt.

Loks kom hjalli þar sem fallegt berjalyng tók við af frumskóginum og fljótlega blessuð urðin. Væri ekki snjallt að breyta Skógrækt ríkisins í Lyngrækt ríkisins? Nýtt baráttumál í pólitíkinni, mál sem hefur verið vanrækt.

Grjót

Við stoppuðum og fengum okkur nesti. Mælitækið mitt sýndi að við höfðum gengið, nei barist áfram í gegnum þykknið, 2,4 kílómetra á tveimur og hálfum tíma. Með þessu áframhaldi kæmumst við í Dýrafjörðinn klukkan þrjú í nótt.

Gylfi leit á mig með skelfingarsvip, sem ég hélt að væri vegna þessa slæma útlits, en það var alls ekki. „Þú ert eins og Kristur á leið til Golgata, allur blóðrisa.“

Nú er Gylfi vel heima í ritningunni, enda fermdur og viðheldur fermingarheitinu með reglulegum samfundum við fermingarsystkin sín. Hann er aftur á móti líka snjall kapítalisti og sá viðskiptatækifæri í því að hefja samkeppni við gamla prestinn sinn og skírir núna, giftir og fermir undir merkjum Siðbótar ehf. (eða hvað það nú heitir), en þar er hægt að fá löggildingu á jafnmörgum dögum og árum sem prestarnir eyða í guðfræðina.

Mér þótti auðvitað vænt um samlíkinguna frá fyrrum aðstoðarmanni mínum og velti því fyrir mér hvaða lærissveinn hann væri, áður en upp fyrir mér rann upp ljós að hann sem nýskipaður dómari hlyti þá að vera Pontíus Pílatus, sem hann lét sér vel líka.

Ég tók þá strategísku ákvörðun að fara í sokkinn sem enn var í vasa mínum og leit þá á lappirnar á mér og sá blóðtaumana streyma niður. Beit á jaxlinn og nú gekk betur að komast í sokkinn en áður, þó að hann límdist við dreirrauðan kálfann á mér.

Fossar Hestfjarðarmegin

Enn skal haldið og nú voru engar greinar sem vöfðust um lappirnar á okkur. Höfðum þó varla gengið hundrað metra þegar Gylfi kveinaði, hafði skrikað fótur milli tveggja steina og lá nú afvelta á bakinu eins og hrútur. Svo vildi til að ég hafði símann uppi og hefði getað tekið mynd, en þurfti á örskotsstundu að ákveða hvort það væri siðlegt eða ekki. Væri hann slasaður var það auðvitað ljótt, en ef ekki gæti ég nýtt þessa mynd til þess að fá ýmsa greiða frá doktornum, gegn því að birta hana ekki. En svo mundi ég að Gylfi er bóngóður án sérstaks þrýstings, þannig að ég afréð, eftir þetta vandaða ákvarðanaferli, að taka enga mynd (sem hefði þó verið skemmtiefni, því að hann stóð upp án skrámu).

Á uppleið

Næst tóku við urðir og skaflar á víxl, smálækir sem Gylfi studdi mig yfir, og ferðin gekk mun hraðar en áður. Hesturinn (eða Hestfjall) kom aftur í ljós smám saman mér til mikillar gleði. Eitthvað fórum við upp og niður milli hæða, en ekki til baga. Við vissum að við áttum að stefna í átt að Hestfjarðaránni, sem við sáum glöggt.

Gylfi í gatinu

Á einum stað sáum við holur eða göt í steinum sem gætu verið eftir gamla trjáboli. Gylfi gægðist gegnum eitt gatið.

Þegar maður gengur í urð fer ferðahraðinn eftir sjálfsörygginu. Ef maður gengur stein af steini eins og vegurinn sé hellulagður fer maður eins og á breiðstræti, en fari maður að hugsa fer maður bara fetið. Auðvitað eru steinar stundum lausir og þá dregur úr sjálfsörygginu. Á einum stað í hlíðinni ákvað hún að skríða til og þá var gott að víkja sér undan hruninu. Steinarnir eru mikið til flögugrjót og víða sér maður stóra steina sem byrjaðir eru að klofna eins og sneitt brauð.

Grjót í sneiðum

Nú blasti vatnið við, Hestfjarðarvatn sem áin fellur úr, fallegt lón, sums staðar með ís og snjór víða við bakkana. Aftur kom ákvörðun um hvort ganga ætti vestan eða austan við það, en hún var auðveld því að við vorum austan megin og gátum sleppt því að fara yfir ána.

Hestfjarðarvatn 2

Aftur var áð. Gylfi var í stöðugu sambandi við umheiminn og hafði mikla ánægju af því að svara símtölum með SMSi: „Er á Glámu, má erindið ekki bíða?“

Hann dró úr pússi sínu sólvörn sem hann gerði reglulega alla leiðina. Gylfi hefur greinilega stundað sólböð af kappi því að hann er kaffibrúnn í framan (café latte) og sagði mér að hann hefði hug á að ná Vestfjarðatitlinum í sólbrúnku, sem ég hvatti eindregið til. Sagðist hafa velt því fyrir sér hvernig hann næði sem jöfnustum lit á allan líkamann og komist að því að hentugasti búningurinn væri svonefndur Borat-strengur, sem hann væri búinn að panta frá Amazon og ætti von á innan tíðar. Ég samsinnti því og taldi að strengurinn myndi fara honum afar vel og vekja aðdáun og athygli hvar sem hann færi.

Sjónfríð

Sjónfríð, fjallið með sérstæða og fallega nafnið, blasti nú við. Pétur fjallamaður segir að marga fýsi að ganga á fjall með slíku nafni, en fáir fá þá ósk uppfyllta, því að hún er úr alfaraleið og ekki heiglum hent að komast á hana. Nafnið kemur ekki til af því að fjallið sé svo fagurt heldur að frá því sést vítt og breitt í allar áttir.

Speglun í vatninu

Fjöll og hæðir í vestri spegluðust skemmtilega í vatninu.

Hér tekur einn hjallinn við af öðrum en mest gengið í fönn og leiðin sóttist ágætlega. Allt í einu dró ský fyrir sólu og Gylfi sagði: „Nú dró ský fyrir sólu í fyrsta sinn í ferðinni.“

Skömmu síðar birtist sólin aftur og ég sagði: „Nú dró ský frá sólu í fyrsta sinn í ferðinni.“

Svona voru samræður okkar uppbyggilegar.

Loksins komumst við á toppinn (910 m segja Landmælingar, 992 m segir græjan) eftir um sjö tíma göngu og höfðum þá farið tæplega 11 kílómetra. Skógurinn mikli og leiðarvalið tafði okkur áreiðanlega um einn og hálfan tíma.

Snæfellsjökull af Sjónfríð

Útsýnið olli ekki vonbrigðum. Við sáum yfir Strandirnar, út Dýrafjörðinn, Kaldbak, hæsta fjall Vestfjarða (tveimur metrum of lágur) norður yfir í Jökulfirði og Snæfellsjökul í suðri. Sjónfríð ber nafn með rentu.

Hestfjall af heiðinni

Nú var það eina sem við þurftum að varast að ganga niður í Arnarfjörð, en sú leið er líklega léttari en leiðin í Dýrafjörð. En hann blasti við, skein við sólu með Sandafellið á aðra hlið og Mýrafellið á hina, þannig að við gátum ekki villst. Leiðin niður var greiðfær. Fyrst gengum við framhjá vatni, ekki eins stóru og Hestfjarðarvatninu, drjúgu þó, en ekki kann ég að nefna það.

Fjallavatn

Ég spurði Gylfa hvort hann teldi að óhætt væri að drekka vatnið og hann taldi það óhætt enda ekki einn einasti fugl á þessum slóðum. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar hinn fegursti söngur ómaði í nágrenninu. Samt ákvað ég að taka sénsinn, viss um að ég fengi inn á sjúkrahúsinu gegnum klíku, ef illa færi.

BJ í Sjónfríð

Næst tók við löng fönn þar sem Gylfi leiddi enda annálaður skíðamaður og hann renndi sér fótskriðu niður, bæði í bruni og svigi eftir því sem við átti. Ég staulaðist á eftir þar til í síðustu brekkunni að ég settist á rassinn og lét mig renna niður á sléttan flöt.

Gylfi á fönn

Við sáum líka að Vigdís var komin að sækja okkur, hafði lagt við skógræktarlund í Dýrafjarðarbotni. Þetta varð manni hvatning til þess að greikka sporið og fljótlega vorum við komnir á stíg. Hann er ágætlega greinilegur, en liggur gegnum Dýrafjarðarkjarrið, þannig að nú voru hlífðarfötin dregin fram til þess að ekki kæmu blóðblettir í bílinn.

Foss í Dýrafirði

Víða á leiðinni eru fallegir fossar, bæði Hest- og Dýrafjarðarmegin.

Loks komumst við á leiðarenda og höfðum þá gengið milli 18 (mæling Benedikts) og 19 kílómetra (Gylfa mæling, en hann er stórstígari) með heildar hækkun 1.332 m (stundum þurftum við aðeins að lækka milli hóla, en það var ekki oft þannig að ég tel 1.100 til 1.200 metra nær lagi). Alls vorum við níu klukkustundir og 45 mínútur, en enn og aftur hefðu átta tímar verið nær lagi með réttri leið. Gylfi einn hefði verið sex tíma.

Frábær ferð í alla staði. Það var svo undarlegt að uppi á Hestfjarðarheiðinni var stafalogn, en Vigdís sagði að á jafnsléttu hefði verið gola mestallan daginn.

BJ og Gylfi

Í lokin var tekin mynd af okkur göngugörpunum, mynd sem ég birti á FB. Yfir mig rigndi fyrirspurnum um hvaða risi þessi Gylfi væri og eins hvort ég væri að ganga saman. Þá sá ég að auðvitað hefði ég átt að velja aðstoðstoðarmann með sama hætti og Pútín, en enginn af hans nánustu er yfir einn og sextíu á hæð (ég þyrfti að vísu ekki alveg svo smáa) þannig að hann virðist með hærri mönnum 1,63 á hæð.

Hér má sjá slóðina okkar (sem ég mæli ekki sérstaklega með upp úr Hestfirði). Forritið Relive er skemmtilegt og áhugamenn um göngur geta velt fyrir sér  view interactive route möguleikanum.

Svo ef einhver veltir því fyrir sér nákvæmlega hvernig skyldleika okkar Gylfa frænda er háttar er hér ættartréð (og þá þar með augljós frændhyglin):

                                    Jóhannes Zoëga Jóhannesson
                                       26. júní 1796 – 20. maí 1852
Tómas Jóhannesson Zoëga Geir Jóhannesson Zoëga
19. júní 1816 – 10. nóv. 1862 26. maí 1830 – 25. mars 1917
Jóhannes Tómasson Zoëga Kristjana Geirsdóttir Zoëga Thorsteinsson
15. okt. 1853 – 28. júní 1891 9. jan. 1864 – 12. feb. 1933
Tómas Zoëga Jóhannesson Geir Þorsteinsson Thorsteinsson
26. júní 1885 – 26. apríl 1956 4. mars 1890 – 26. nóv. 1967
Jóhannes Tómasson Zoëga Kristjana Milla Geirsdóttir Thorsteinsson
14. ágúst 1917 – 21. sept. 2004 26. maí 1926 – 12. júlí 2012
Benedikt Jóhannesson Zoëga Áslaug Sigríður Alfreðsdóttir
4. maí 1955 30. mars 1950
Gylfi Ólafsson
2. maí 1983

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.