Veröld sem var og hverfur bráðum

Tilviljanir eru stundum svo skrítnar að manni finnst þær varla geta verið tilviljanir, sem þær eru auðvitað samt. Fyrir nokkrum árum fór Vigdís konan mín í Eymundsson og sá þar nýútkomna bók, Dagbók frá veröld sem var, bók með myndum eftir amerískan ljósmyndara Emil Edgren sem dvaldi á Ísland árin 1942-3. Á forsíðu er mynd af nokkrum snótum í baðfötum sem ekki komu kunnuglega fyrir sjónir, en á bakinu var mynd af manni sem hún þekkti vel, Bjarna Ívarssyni afa hennar. Þegar Vigdís fletti bókinni sá hún að hún hafði að geyma myndir af pabba hennar og föðurbræðrum, auk mynda frá Elliðakoti, bæ rétt neðan við Lækjarbotna, þar sem afi hennar og amma bjuggu.
Auðvitað keypti hún bókina og fór yfir með Betu föðursystur sinni og merkti myndirnar eftir bestu getu í samræmi við leiðsögn hennar. En þó Beta væri glögg dugði það ekki alltaf til. Lýsingur, gamli hesturinn var á sínum stað, en ekki vissi hún hvaða menn voru á mynd með Jóni tengdapabba.
Fyrir nokkrum vikum fékk ég tölvupóst frá syni ljósmyndarans sem hafði áhuga á því að við kynntum bókina og myndirnar í útgáfum Heims. Það var auðvitað sjálfsagt, en af því að ég var í fríi þegar pósturinn kom var ég seinn til svars. Í gær dró Vigdís bókina fram og við skoðuðum hana enn og aftur og veltum því fyrir okkur hvort fleiri myndir gætu verið úr nágrenni Elliðakots. Myndin hér að ofan sýnir Bjarna Ívarsson, afa Vigdísar við Elliðakot. Um hann má líka lesa hér og hér
Ívar, föðurbróðir Vigdísar er enn á lífi, 88 ára gamall, en hann gat litlu bætt við fróðleik Betu þegar ég spurði hann í gær. Hann mundi þó eftir ljósmyndara frá stríðsárunum.
Ívar með mjólkurbrúsann
Ívar Bjarnason með mjólkurbrúsann.
Ég svaraði Edgren yngra eftir það. Hann skrifaði um hæl og þar kom fram að faðir hans er enn á lífi, 95 ára gamall. Póstinum fylgdi líka tölvuslóð á heimasíðu þar sem margar myndanna eru sýndar.
jon_i-_bjarnason_og_fleiri
Jón I. Bjarnason (tengdapabbi), annar frá vinstri, með mönnum sem ég þekki ekki. Þessir til vinstri gætu verið bræður.
Þó að auðvitað beri ekki að lasta það að bókin hafi verið gefin út var óvenju lítil natni lögð við að þekkja fólk sem á myndunum er, en kannski hafa útgefendur ekki vitað hvernig þau ættu að byrja það verk. Edgren hafði haft bækistöðvar í Camp Waterloo á Hólsheiði, ekki langt frá Elliðakoti. Það skýrir hvers vegna þeir feðgar og bærinn urðu myndefni hans.
forsida_myndabokar
Þegar ég fór á heimasíðuna (þetta er gamla heimasíðan, nú er komin ný sem sést hér að neðan) sem pósturinn frá Róbert Edgren beindi mér á sá ég áhugaverða mynd. Ég gat ekki betur séð en Guðríður, kona Benedikts Sveinssonar frænda míns væri á myndinni. Og þegar betur var að gáð sá ég að Benedikt sjálfur var tilgreindur sem heimildarmaður að því hvaða konur skreyttu forsíðuna. Þær eru: Auður Gunnarsdóttir (fremst) og Sigríður Gunnarsdóttir, Sigríður Bjarnadóttir og Guðríður Gunnarsdóttir. Þær Gunnarsdætur eru systur, dætur Gunnars í Von, kaupmanns í Reykjavík, en fjölskyldan bjó í Gunnarsholti, næsta bæ við Elliðakot. Sigríður Bjarnadóttir er vinkona þeirra. Dætur Gunnars eru náskyldar Guðríði Jónsdóttur, konu Benedikts Sveinssonar. Á litmyndinni er „ríjúníon“ forsíðustúlknanna heima hjá Benedikt og Guðríði. Þessa mynd sendi Benedikt til Edgrens og fékk svar: „You made my day!“
konur_a_forsiduForsíðustúlkurnar heima hjá Benedikt og Guðríði (lengst til hægri)
Konurnar og fjölskyldan í Elliðakoti voru alls óskyldar, en fyrir nokkrum árum talaði Vigdís við eina þeirra sem mundi vel eftir því hvað Jón tengdapabbi hefði verið sætur ungur maður. Benedikt eignaðist bókina alveg eins og Vigdís, rakst á hana í Eymundsson og þekkti forsíðustúlkurnar. Hefðu þau ekki af rælni skoðað einmitt þessa bók hefði kannski enginn áttað sig á því hvaða fólk var þarna á mynd.
jon_a_arnarholiJón I. Bjarnason í jakka á spjalli við hermenn við styttu Ingólfs á Arnarhóli.
Sagan heldur áfram. Í kvöld kom tengdamamma í heimsókn og blaðaði í bókinni. Hún rak augun í mynd af nokkrum ungum mönnum á Arnarhóli við styttuna af Ingólfi, sannkölluðum stælgæja að tala við hermenn sem snýrþó baki í ljósmyndarann. Lilja sagði strax: „Þetta er Jón“, og segir engan vafa leika á því. Hún þekkti líka systurnar frá Gunnarshólma á forsíðunni, mundi vel eftir þeim eldri.
gunnar_bjarnason
Gunnar Bjarnason, seinna málari og leikmyndahönnuður um 10 ára gamall við Elliðakot. Gunnar var föðurbróðir Vigdísar.
Svona hafa þá þó nokkrar myndir öðlast alvöru innihald fyrir tilviljun. Þess vegna væri gaman ef menn fara í gegnum myndirnar á heimasvæði Edrgrens og kanna hvort þeir þekkja eitthvað af fólkinu eða stöðunum. Nokkrir staðir í Reykjavík og Hafnarfirði eru auðþekktir, en margir aðrir ekki. Ég ætla að skrifa um þessar myndir í Ský, flugblað Flugfélags Íslands, og gaman væri að fá viðbótarupplýsingar ef einhver lumar á þeim. Myndirnar má stækka með því að smella á þær.
thvotturKonur við þvott. Hvar og hverjar?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.