Þegar ég var strákur var Víetnamstríðið í fullum gangi. Ég vissi ekki mikið um aðdraganda átakanna, en Bandaríkjamenn börðust við kommúnista og það voru mér nægar upplýsingar til þess að vita með hvorum ég átti að halda. Einhverntíma kom stríðið til tals heima og pabbi sagði að ef Bandaríkjamenn leyfðu kommunum að vaða yfir Víetnam þá myndu þeir næst valta yfir Indónesíu. Eða kannski sagði pabbi þetta ekki, kannski stóð þetta í Mogganum. Það skipti engu, hvort tveggja var staðfesting þess fyrir mér að stríðið var réttlætanlegt.
Í sex daga stríðinu hélt ég auðvitað með Ísrael. Ísrael gegn 11 löndum var fyrirsögn í dagblaði. Engu skipti þó að Ísraelsmenn hefðu byrjað. Ef ekki, hefðu hinir byrjað.
Kennedy kom Bandaríkjamönnum í Víetnamstríðið. Þá voru hermennirnir að vísu kallaðir ráðgjafar og voru ekki nema nokkrir tugir þúsunda. Þetta var sjaldan rifjað upp eftir að Kennedy var tekinn í dýrlingatölu. Johnson var ófyrirleitinn naggur sem var auðvelt að hafa illan bifur á. Þess vegna var hrópið „LBJ, LBJ how many kids have you killed today“ svo nærtækt. Engum hefði dottið í hug að setja JFK í þessa setningu.
Líklega var það árið 1968 sem ég fór fyrst að velta því fyrir mér hvort Bandríkjamenn hefðu kannski rangt fyrir sér. Góður vinur pabba sagðist vera alveg á móti þessu stríði, góður og gegn Sjálfstæðismaður meira að segja. Ekki það að kommarnir hefðu neitt skánað í mínum augum, þeir sýndu sitt rétta andlit þegar þeir réðust inn í Tékkóslóvakíu. En ráðamenn í Suður-Víetnam virtust ekki vera neinir englar heldur nema síður væri. Svo studdu Bandaríkin alls kyns einræðisherra í Suður-Ameríku. Heimsmyndin hætti að vera svarthvít.
Eflaust hafði Woodstock sitt að segja. Ég eignaðist fyrstu Woodstock-plötuna á Íslandi, fyrstu af 15 sem fluttar voru inn í þeirri sendingu. Á Woodstock voru ekki bara bestu rokkarar heimsins, þar var rekinn stífur áróður gegn stríðinu. „It‘s a one, two, three, what are we fighting for, don´t ask me I don´t give a damn, the next stop is Vietnam.“
Smám saman fór ég að efast svo mjög um að Bandaríkjamenn hefðu rétt fyrir sér, að mig var farið að gruna að kannski væru kommarnir ekki alvitlausir. Kannski höfðu þeir á réttu að standa. Einhver hlaut að hafa réttan málstað, summan hlaut að vera núll.
Svo endaði Nixon forseti stríðið. Það fannst vinstri mönnum vont og eflaust líka að hann opnaði viðræður við Kína og vingaðist við Rússa. Mér fannst það alltaf svolítið flott og finnst enn, en Nixon var samt gallagripur sem sá óvini í hverju horni og bjó sér meira að segja til óvinalista. Þá hélt ég að þetta hlyti að vera einsdæmi, þetta gerðu ekki nema snarruglaðir menn. Það seinna er rétt, en ekki er það einsdæmi.
Ég bjó mörg ár í Bandaríkjunum. Þar kynntist ég mönnum sem höfðu barist í Víetnam, en þeir höfðu ekki orðið fyrir varanlegum skaða. Einn fór reyndar að skjóta á umhverfið eina helgina og var leiddur burt í spennitreyju, en síðar hitti ég hann og kærustu hans og þá var honum batnað, að minnsta kosti í bili. Sem betur fer hæfði ekkert skotið neinn og kannski stóð það ekki til. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta voru andleg stríðskuml eða ástarsorg. Kannski hvorugt, bara tímabundin veiki.
Enskukennarinn minn sagði í tíma að hún vildi vita hvers vegna Bandaríkin hefðu farið í þetta stríð. Enginn gat skýrt það fyrir henni. Stríðið var búið, friður kominn á og Bandaríkjamenn voru búnir að tapa honum. Enginn nennti að pæla í þessu lengur.
Einn vinur minn barðist bæði í Víetnam og Kóreu. Hann var hermaður að atvinnu og þess vegna hlustaði ég á hann þegar hann sagði að það væri sorglegt hvað mannkynið reyndi oft að leysa deilur með stríði. Hann var sannarlega ekki á móti Bandaríkjunum eða málstað þeirra. Hann var á móti stríði.
Ég lærði svolítið í hagfræði og skrifaði ritgerðir um hagkerfi kommúnista. Þá sá ég strax að ég hafði haft rétt fyrir mér, þegar ég var tíu ára andkommúnisti. Ekkert kerfi sem heftir frelsi einstaklinga getur verið rétt. Allt var á blekkingum byggt. Skyndilega áttaði ég mig á því að í heiminum tókust á öfl sem bæði voru gölluð. Gott og illt voru ekki endilega í jafnvægi.
Nú minnumst við þess að hundrað ár eru síðan fyrri heimsstyrjöldin hófst. Hundruð, þúsundir, milljónir góðra manna sem skömmu áður höfðu klappað hundunum sínum, lesið fyrir börnin sín og fært mæðrum sínum blóm héldu út í heiminn til þess að drepa aðra góðhjartaða unga menn. Hvorugur hafði gert neitt á hlut hins nema að vera í hinu liðinu. Menn sem hefðu aldrei getað hugsað sér að slá til annars manns heima á torginu í Düsseldorf eða Glasgow, grófu sig í skotgrafir og vörpuðu sprengjum á óvinafjöld, aðra siðaða menn frá Düsseldorf eða Glasgow. Nema nú voru þetta réttdræpir útlendingar. Það þurfti ekki frekari réttlætingu á því að gera siðaða menn að tja, morðingjum. Nei, enginn hugsaði það svoleiðis. Stríðshetjur er rétta orðið.
Tugmilljónum lífa seinna urðu menn aftur siðaðir í rúmlega tuttugu ár. Drápu svo aftur miklu fleiri en áður. Ekki af því að þeir vissu að hinir væru vondir menn. Nei, þeir voru óvinir. Það var nóg.
Við fyrirlítum þann sem gerir einu barni mein og þannig er það í öllum siðuðum löndum. En í stríði geta siðaðir menn með gott uppeldi kastað sprengjum á þúsundir sakleysingja, karla, konur og börn og haldið áfram að vera heiðvirðir menn.
Ef einhver heldur að Íslendingar séu öðruvísi þá hefur sá hinn sami aldrei fylgst með verkfallsvörðum í ham, ekki komið á Austurvöll þegar menn rífa upp gangstéttir og tré og kasta að óvinunum, oftast fólki sem þeir þekkja ekki neitt og eiga ekkert sökótt við. Kannski voru það ekki margir sem það gerðu, en þúsundir stóðu aðgerðalausar hjá. Íslendingar yrðu engir eftirbátar annarra í alvöru stríði. Þá gerist eitthvað sem breytir mönnum í dýr. Rökleysur verða rök, lygin sannleikur, rangt rétt.
Samt er ekki hægt að segja að stríð sé aldrei réttlætanlegt. Vesturveldin reyndu að kaupa frið með því að fórna Tékkóslóvakíu til þess að róa Hitler. Hefði hann stoppað ef þeir hefðu farið í stríðið fyrr? Enginn getur svarað svona spurningum og vill ekki þurfa að svara þeim, en nú er annar einræðisherra að hnykla vöðvana í Evrópu. Kemur spurningin upp aftur?
Við eigum að berjast fyrir frelsi og réttlæti. Margir telja að Íslendingar eigi að láta sig atburði í Evrópu litlu varða. Okkar lóð skipti hvort eð er engu. Þegar menn hugsa þannig eru þeir aftur búnir að skipta heiminum í lið. Okkur og þau. Þau eru ekki okkar mál.
Illskan verður aldrei upprætt úr veröldinni. Við eigum auðvitað ekki að ganga henni á hönd, en verst er þegar gott fólk lætur rangindi afskiptalaus. Hættum að hugsa um okkur og þau.
Hugsum um okkur. Og þau eru líka við.
Sæll.
Þú skrifar: „Illskan verður aldrei upprætt úr veröldinni. Við eigum auðvitað ekki að ganga henni á hönd, en verst er þegar gott fólk lætur rangindi afskiptalaus. Hættum að hugsa um okkur og þau.“
Þetta er auðvitað rétt, en ef ekki er barist af ástningi og meðvitað gegn illskunni, hvað þá?
Við verðum að halda þeirri baráttu áfram. Eis og segir í líkingamáli: Færa ljósið inn í heim myrkursins.
Það er erfitt og það tekur tíma. En, því má aldrei linna!
Kv. ÞJ
Líkar viðLíkar við
Sæll og takk fyrir sendinguna. Ætli við séum ekki nokkurn veginn sammála um þetta? Það hættulegasta er að gera ekki neitt. Bestu kveðjur, Benedikt
Líkar viðLíkar við