Vel fór hann með sínar litlu gáfur (BJ)

Fátt gefur sögum meira gildi en snjöll mannlýsing. Í Íslendingasögum eru mörg dæmi um slíkar lýsingar, svo snjallar að söguhetjurnar eru enn í dag ljóslifandi í hugskoti fólks. Egill Skallagrímsson með sínar illilegu augabrúnir og Gunnar á Hlíðarenda sem stökk hæð sína í öllum herklæðum birtast okkur fyrir hugskotssjónum þrátt fyrir að engar ljósmyndir séu til af þeim. Góð mannlýsing er miklu betri en ljósmynd, því í lýsingunni er hægt að segja frá ýmsu sem ekki festist á mynd.
Sumir telja að lýsingarnar eigi að vera mjög stuttar og gagnorðar til þess að vera góðar. Í Njálu segir:  „Engum manni er Kári líkur í hvatleik sínum og áræði.“ Engum blöðum er um það að fletta að þarna fer einstakur kappi. Í raun og veru er nóg að segja: „Engum er Kári líkur“ og allir átta sig á hvað því við er átt. Í Músum og mönnum Steinbecks er sagt um eina persónuna: „Hann er lágvaxinn, þybbinn og heldur að hann sé betri en allir aðrir.“ Við höfum strax sterkar hugmyndir um þennan mann þó að ekki sé meira komið fram.
Stundum skolast lýsingar til. Í Grettissögu segir um aðalsöguhetjuna: „Grettir Ásmundarson var fríður maður sýnum, breiðleitur og skammleitur, rauðhærður og næsta freknóttur, ekki bráðger meðan hann var á barnsaldri.“ Benedikt Sveinsson afi minn taldi að þarna hefði orðið „ekki“ fallið út og réttur texti væri: „Grettir Ásmundarson var ekki fríður maður sýnum, …“ Það passar betur við söguna og reyndar orðin sem á eftir fylgja miðað við staðlaðar fegurðarhugmyndir, en einhverjum söguritara hefur þótt afleitt að þessi mikli kappi væri ekki fríður eins og Gunnar á Hlíðarenda og Kjartan Ólafsson.
Á tímum ljósmynda og myndbanda hef ég á tilfinningunni að hæfileikinn til mannlýsinga sé að hverfa. Þess vegna fannst mér ég hafa himin höndum tekið þegar ég fletti bókum Kristleifs Þorsteinssonar sem fæddur var á Húsafelli árið 1861, en bjó á Stóra-Kroppi og lést árið 1952. Á árunum 1944 til 1960 kom út í þremur bindum safnið Úr byggðum Borgarfjarðar. Kristleifur safnaði saman miklum fróðleik sem að stórum hluta er skrifaður upp eftir minni, sem greinilega hefur verið mörg megabæti, svo vísað sé til nútímaeiningar.
Ástæðan til þess að ég fletti upp í bókum Kristleifs var sú að við bræður, Sigurður og ég, höfum í vor farið í tvær göngur í Borgarfirðinum, annars vegar úr Skorradal í Hvalfjörð, svonefndar Síldarmannagötur, og hins vegar úr Skorradal í Lundarreykjadal. Steinunn Símonardóttir, amma okkar, fæddist í Bakkakoti í Skorradal og fluttist svo yfir að Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal, en pabbi hennar, Símon Jónsson, var frá Efstabæ í Skorradal og mamma hennar, Sigríður Davíðsdóttur, af Hvalfjarðarströnd. Mig langaði að fræðast meira um þetta svæði, en datt þá ofan í mannlýsingar Kristleifs.
Hér á eftir tek ég dæmi, nánast af handahófi, um mannlýsingar á fólki sem ég þekkti ekki neitt til, en hef nú nokkra mynd af. Það eykur gildi lýsinganna að yfir þeim er engin mærð eins og oft má sjá í minningargreinum.
Í Teigakoti bjó Erlendur Erlendsson. „Erlendur var talinn einn af mestu aflamönnunum, er hann var í blóma lífs. Hann var tæpur meðalmaður á vöxt, kvikur í hreyfingum, snar og skjótráður, sjómaður  af list og fimur glímumaður. Afli hans gekk nokkuð í súginn, því að vínnautn hans var mikil og raskaði þar stundum prúðum heimilisháttum.“
Halldóra Jakobsdóttir frá Húsafelli var „gervileg í sjón, hög og verkmikil, en útausandi og af sumum kölluð bruðla.“
Björn Björnssonfrá Breiðabólstað var „miðlungsmaður að greind og gjörvileik, nokkuð þrætukær, en þó enginn gallagripur. Þjóðbjörg [kona hans] var slitviljug, en lítt lofuð fyrir þrifnað eða hagsýni.“
Ljótunn Pétursdóttir frá Norðtungu var „engin miðlungskona, greind í besta lagi, þrifin og stjórnsöm, skemmtin í tali, hispurslaus og ekki myrk í máli. Nokkuð þótti hún stórgeðja, … Á blómaskeiði var hún talin glæsileg og mikil fyrir mann, ljóshærð og björt yfirlitum, en við aldur varð hún föl og hörkuleg á yfirbragði.“
Jón Sigurðsson á Kollalæk „var mannúðarmaður, ríkur af góðvild, en fátækur að fé. Vann hann af miklu kappi, en minni forsjá, gaf sér litla hvíld og bar þó lítið úr býtum. … Hann var meðalmaður á vöxt, kvikur og knálegur, fölleitur og grannleitur, næstum skegglaus. Ekki var hann greindur, en vel fór hann með sínar litlu gáfur.“
Soffía Árnadóttir var „mikil myndarkona, hagsýn, þrifin og stjórnsöm. Greind var hún líka og til fyrirmyndar í allri hegðun. Hún var stór vexti og ekki fríð sýnum í augum þeirra sem þekktu hana lítið.“
Frá Þorbirni Ólafssyni hinum ríka, gullsmið á Lundum, og Halldóri Pálssyni á Ásbjarnarstöðum hinum fróða segir Kristleifur, en þeir voru uppi á seinni hluta 18. aldar. Afkomendur þeirra giftust og taldi Kristleifur það heppilega ættblöndun á þegar afkomendur auðmannsins tengdust niðjum gáfumannsins. „Báðir þeir kostir, búvit og bókvit, hafa gengið í arf til niðja þeirra, þótt búvitið hafi þar orðið fremur ríkjandi.“ [Þess má geta að Þorbjörn er forfaðir minn, en Halldór fróði óvenju fjarskyldur samkvæmt Íslendingabók, við erum af sjötta og tíunda lið.]
Um Kjartan Gíslason sem víða flakkaði en bjó um tíma á Búrfelli í Hálsasveit segir: „Kjartan var meðalmaður á vöxt, léttur á fæti, en þó jafnan hægfara, og sýndist honum aldrei liggja meira á i einn tíma en annan. Var hann jafnan reiðubúinn að gefa öllu gætur, sem bar fyrir augu hans og eyru. Leið honum líka fátt úr minni, sem hann hafði séð og heyrt um dagana. Kjartan var stórleitur, en þó fríður sýnum, ennið hátt, augun ljósgrá og heldur smá, en óvenjuhvöss og rannsakandi. Ungur varð hann snjóhvítur af hærum, bæði hár og skegg. Skegg sitt rakaði hann vandlega af munni og höku, en hafði skeggkraga um kjálkabörð.“
Síðasta lýsingin er reyndar höfð eftir Kjartan þessum um Guðlaugu á Gestsstöðum: „Hvergi er Guðlaug fríð. Og svo munnstór er hún, að þar á hún engan sinn líka, því að standi maður fyrir aftan hana, má sjá þaðan í bæði munnvik hennar. Hún er og lystug vel og gengur rösklega að mat sínum, sérstaklega að skyri. Það borðar hún með geysistórri birkisleif og stingur henni upp í sig með öllu, sem getur á henni tollað. En þrisvar verður hún að kyngja því, því að ekki er hún kokvíðari en annað fólk.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.