Spjallað um veðrið (BJ)

Ég hef aldrei verið einn þeirra sem hafa mikinn áhuga á veðri. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum fyrir mörgum áratugum var ekki hringt milli landa á hverjum degi. Mínútan kostaði fúlgur fjár og sambandið var slæmt. Það lá í gegnum miðstöð í borginni þar sem ég bjó á Flórída, í aðra í Fíladelfíu sem aftur hafði samband við Montreal en hún gat loks náð til Íslands. Það var því ekki skrítið að verðið væri hátt fyrst það þurfti að halda öllu þessu fólki uppi.

Þess vegna fór það í taugarnar á mér þegar við fengum fyrsta samtal frá Íslandi og ég hlakkaði til að heyra fréttir af vinum og vandamönnum þá var fyrsta spurning pabba: „Hvernig er veðrið hjá ykkur?“ Af því að ég var prúður piltur svaraði ég hratt og vel, en þegar mamma kom í símann nokkru síðar og spurði aftur um veðurfar átti ég mjög erfitt með að svara ekki: „Til hvers ertu að spyrja um það? Hér er alltaf heitt og stundum rignir og stundum ekki. Þetta svar kostaði 100 dollara.“

„Hvernig ætli veðrið verði um helgina?“ spyr fólk og ég svara afundinn: „Hverju breytir það? Veður er. Ég ætla ekki að láta það stjórna mínu lífi.“ Flestir spyrja mig bara einu sinni að þessu, þannig að ég virðist koma mínum skilaboðum sæmilega til skila.

Miðað við svona mikinn og almennan áhuga á veðrinu skyldi maður ætla að fólk væri afar minnugt um nýlegar loftslagsbreytingar en það er öðru nær. Allt sem vinir mínir muna er að sumarið í fyrra var frámunalega lélegt, síðasta vika vindasöm og um síðustu helgi hellidemba. „Nú já“, segi ég og klóra mér í hausnum. „Mig minnti að það hefði verið logn og blíða, sumarsól.“

Í gamla daga kunnu menn að lýsa alvöruveðrum. Á 17. öldinni fengu vetur sérstakt heiti; lurkur (1601), píningsvetur (1602), svellavetur (1625), jökulvetur (1630), hvíti vetur (1633), glerungsvetur (1648), hestabani (1696), vatnsleysuvetur (1697). Haustið 1615 brotnuðu skip inni í fjörðum vestur í hafísum um miðjan september.

Núna segjum við veturinn 2017-18 eða veturinn tvö þúsund og nítján. Hver man þá? Ef þeir fengju alvörunöfn yrðu þau eflaust birtingur, ljúflingur eða frostleysa.

Þess vegna segi ég: Spörum samræður um veðrið þangað til við höfum um eitthvað að tala.

Benedikt Jóhannesson, fæddur rigningarsumarið 1955.

Þessi pistill var leiðari Skýja.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.