
Ég hafði spáð þessu þrumuveðri við lítinn fögnuð fararstjórans sem ákvað samt að breyta ferðaplaninu, sýnilega án þess að telja nokkra ástæðu til þess. Þó að ég hefði notið aðstoðar AcuWeather við spána hefði ég undir venjulegum kringumstæðum hreykt mér af spádómsgáfunni og sagt: „Hvað sagði ég?“ nema að fararstjórinn hafði lánað mér vindjakka, þannig að ég var ekki í mjög góðri stöðu til þess að vera með dólgshátt.

Rigning á leiðinni

Rigning

Uppstytta
Veðrinu slotaði svo jafnskjótt og það hafði hafist og við héldum áfram ferðinni eins og ekkert hefði í skorist. Þennan dag fórum við í 1938.9 metra hæð eins og lesa mátti af krossi á háhæðinni á Wispile.
Við vorum sem sé í svissneskum fjallaleiðangri. Hann byrjaði einhvern tíma í vetur þegar Anna frænka semdi mér tölvupóst um að hún ætlaði að taka sumarhús á leigu í Gstaad í Sviss og spurði hvort við Vigdís vildum ekki koma í heimsókn. Hvorugt okkar hafði nokkurn tíma heyrt á þennan ágæta stað minnst en af því að Anna er skemmtileg frænka sögðum við strax já.
Reyndir ferðalangar kynna sér vel aðstæður á áfangastað með góðum fyrirvara og kvöldið áður en við lögðum í hann flettum við Gstaad upp á netinu. Staður eins og við kjósum að kalla borgina er líklega um 200 kílómetra frá Genf og þangað má komast með bæði lest á þremur tímum og bíl á rúmlega tveimur. Þangað sækir frægt fólk meðal annarra Roger Moore sem er sagður búa þarna og Julie Andrews, sem er heiðursborgari í næsta bæ sem nefnist Saanen. Á Hótel Palace eru myndir af frægu fólki sem hefur komið í heimsókn, m.a. Elísabet Taylor, Richard Burton og Peter Sellers. Mér sýndist á þessum myndum að það hefðu verið um 40 ár síðan sá síðasti frægi kom þarna þangað til við Vigdís heiðruðum hótelið með nærveru okkar.

Útsýnið úrfjallakofanum okkar (sem var stórt hús og enginn kofi).
Enginn skyldi þó ætla að vikudvöl á Stað sé eitthvert rölt á milli hótela. Til þess að fyrirbyggja allar slíkar hugsanir læt ég þess alls ekki getið að við bjuggum ekki í Stað sjálfum heldur næsta stað sem kallast Grund. Mér er ekki kunnugt um hvort nafnið var sérstaklega valið þegar við stauluðumst upp tröppurnar, því að sannarlega minnti hollningin á okkur oft á vistmenn á Grund, einkum seinni hluta ferðarinnar.

Þessi skrítni gaur var í skóginum.
Ég gerði alvarleg mistök. Vigdís var búin að pakka niður gönguskónum mínum, en eftir að ég sá hæðirnar í kringum bæinn á myndum ákvað ég að enginn maður með sjálfsvirðingu myndi fara með gönguskó á þessa hóla. Líklegast væru stígarnir malbikaðir þar á ofan. Mér var skapi næst að fara á sandölum, en féllst með semingi á að fara með strigaskó. Jafnframt sleppti ég peysu, úlpu og sólgleraugum en allt hefði þetta komið sér vel á göngunum, þó að auðvitað viðurkenni ég það hvergi opinberlega.
Fyrsta daginn fórum við í létta göngu. Hún minnti að sumu leyti á þuluna um tíu litla negrastráka, því eftir einn og hálfan tíma sneru tveir við, þar með talinn fararstjórinn. Þetta var falleg ganga á svæði sem heitir Lauenen. Þar voru fallegir fossar, meðal annars einn sem við gengum undir; hann sprautaðist út í loftið.

Vigdís hinum megin við fossinn.

Fjöllin framan við fossinn.
Svisslendingurinn sem var í för með okkur ætlaði að sýna okkur „alvörufoss“ því líklega hafa þessir verið 2-300 metra háir. Ég var tilbúinn að segja líkt og bandarísk vinkona okkar sagði í gamla daga þegar einhver perri fletti frá sér frakkanum: „Er þetta allt og sumt?“ Mér gafst að vísu ekki tækifæri til þess að koma þessari yfirlýsingu á framfæri, en bið lesendur að blaðra ekki um að ég hafi hrifist af vatnsfallinu.

Alvörufoss.
Takmarkið var skáli í 2.002 metra hæð, sem mér heyrðist heita Gelbenhütte eða guli skáli, en heitir reyndar Geltenhütte, eða gjaldskáli, væntanlega vegna þess að þar kostar eitthvað að gista. Gestgjafar voru vingjarnleg hjón sem áttu ýmsa drykki og spægipylsur sem við pöntuðum. Kortin höfðu helst úr lestinni með fararstjóranum. en við þóttumst sjá hvert við ættum að fara.
Spurðum þó veitingakonuna sem hristi höfuðið og sagði þá leið endasleppa. Við ættum að fara í 2.070 metra („meiri hækkun“ stundi einhver) en svo færum við niður á við. Á kafla væri svolítið bratt, en þar væri keðja sem við gætum stutt okkur við, það væru ekki nema 500 metrar. Sjálfur fer ég oftast hægt niður brekkur, en aðrir ferðalangar sögðust alltaf vera miklu fljótari að fara niður en upp.

Vigdís, Hildur og Halldór.
Einhverjir skelfdust við frásögnina af keðjunni en létu sig hafa að fara áfram. Ég sá fram á að keðjan héngi niður af klettasnös og við þyrftum að feta okkur niður, hálfan kílómetra. Var farinn að hlakka svolítið til. Allt gekk vel, við Vigdís fórum aðeins hraðar yfir, en allir voru þaulvanir fjallgöngumenn, þannig að við höfðum engar áhyggjur af því.

Þessar kýr þurftu ekki keðju.
Skyndilega heyrðum við bjölluhljóm og töldum að í dalnum væri verið að hringja til messu, enda var sunnudagur. Ekki var það heldur tók kúahjörð á móti okkur með klingjandi bjöllum. Ég leit upp og sá klettabelti fyrir ofan okkur og svimaði aðeins, leit svo niður og sá að 500 metrar voru líklega vanmat á fallhæðinni.
Í skálanum skiptumst við á að segja hrakfallasögur frá fyrri fjallgöngum og hlógum dátt. Þær voru núna gleymdar, en nú sáumvið eina fólkið á þessari leið, fjallakonu með hönk af gaddavír í fanginu og tvo veðraða kóna sem sátu á klettabrún og reyktu. Gaddavírskonan brosti til okkar, en reykingamennirnir gáfu okkur engan gaum. Þegar við komum niður sagði Svisslendingurinn, vinur okkar, að hann sæi ekki eftir niðurgreiðslum til svona fólks. „Þær halda þeim úr þéttbýlinu.“

Einstigið og keðjan hægra megin.
Nú kom skyndilega að keðjunni sem boðuð hafði verið. Hún lá þá alls ekki niður á við heldur þvert í hlíðinni. Ekkert er eins líklegt til þess að vekja lofthræðslu eins og svona keðja. Án þess að skrifa það eru skilaboðin: „Hér er líklegt að þú hrapir til dauðs, nema þú haldir MJÖG fast í keðjuna.“ Ég lét blekkjast til þess að byrja með og hélt mér, en fann fljótlega að keðjan fjötraði mig, þó í óeiginlegri merkingu væri. Ekki datt mér í hug að hafa áhyggjur af Vigdísi og fljótlega höfðum við bæði stikað þetta einstigi án áfalla.
Á einum stað var nokkuð brattur stigi líkt og í Heimakletti, en hann er eiginlega skuggalegri ef eitthvað er. Fljótlega lá svo leiðin niður á við þessa 500 metra, en þar var engin keðja, þó að sums staðar væri stígurinn svolítið brattur. Segir svo ekki fleira af okkur nema við komumst niður og hittum þar fararstjórann og fylgdarsveininn, sem hafði ákveðið að fara í fótabað í fjallavatni, en tókst ekki betur til en að hann sökk niður undir geirvörtur, en varð þó ekki meint af volkinu.

Vigdís fetar einstigið.
Líklega hefði ég ekki eytt miklu púðri í þennan stíg ef okkur hefði ekki verið farið að lengja eftir samferðamönnum okkar og ég fór að hugsa aftur til negrastrákanna tíu sem sífellt týndu tölunni. Þar sem við sátum á veitingastað og nutum svissnesks undradrykks sem er blanda af bjór og Canada Dry bárust smáskilaboð: „Eigum 40 mínútur eftir.“
Nú fórum við að huga að leitarsveitum. Svisslendingar eru svo heppnir að vera ekki einu sinni aukaaðilar að Evrópusambandinu og geta því haft sitt eigið neyðarnúmer, 145, sem er auðvitað kostur. Annar kostur sem fylgir því að vera utan EES er að það kostar 259 kr./mínútan fyrir okkur að hringja innan Sviss, svo við vildum vera nokkuð viss um að nú væri neyð. Í þeim hugsuðum þönkum birtust tveir leiðangursmenn og komu fljótlega til okkar.
Keðjan hafði haft tilætluð áhrif á þau, þannig að þau fóru fetið og héldu fast um hlekkina alla 500 metrana, sem þau fóru á tæpum hálftíma, fimm mínútna rölt ef keðjurnar hefðu ekki verið. Skömmu síðar komu svo þeir síðustu og höfðu líka lent í hrakningum, konan datt aftur fyrir sig í bratta þar sem lækur rann yfir, og var svo óheppin að lenda á tréhæl sem stóð upp úr. Heppnin var að þetta var þó ekki járnrör sem sums staðar voru notuð.

Hanspeter gestgjafi okkar hleypur 800 metra á 1 mínútu og 50 sekúndum.
Veitingahúsið græddi þó á þessum óförum og þegar við loksins fórum þaðan var ekki til meira gin og hvítvínsbirgðir í lágmarki. En eins og í kvæðinu fræga um strákana koma allir aftur saman í lokin, að vísu ekki nema átta, en það var ekki fleirum til að dreifa, nema við hefðum bætt gaddavírskerlingunni með í hópinn og þeim kumpánum, en það stóð aldrei til.
Þessi ævintýri létum við ekki hræða okkur frá frekari gönguferðum heldur færðumst öll í aukana. Einn daginn stefndum við á stað sem nefnist Bire og ég var fyrstur. Eftir erfiða göngu sem öll var á fótinn kom ég að fjósi hátt uppi í fjalli og við það stóð Landróver. Frá húsinu bárust mykjuslettur. Af einhverjum ástæðum fór ég að hugsa um kvikmyndina Deliverance, en í henni eru nokkrir félagar á ferð í Suðurríkjum Bandaríkjanna, minnir mig, og lenda í útistöðum við fáfróða heimamenn. En ég átti enga leið aðra en að ganga fram hjá mykjudreifaranum, sem var bóndi með sprungnar æðar í kinnum, í bláum buxum og köflóttri skyrtu.
„Grüs“, sagði ég og hann svaraði „Grüse“. Ég forðaðist augnsamband og gekk beint að skiltunum sem voru mörg. En það var sama hvernig ég leitaði, hvergi fann ég Bire. Ég átti því engan annan kost en að spyrja karlinn um hvaða leið lægi til Bír. „Ætlarðu til Bíre?“ svaraði hann og ég kinkaði skelfdur kolli. „Þá verður að halda kyrru fyrir.“ Ég vær svolítinn tíma að átta mig á því að ég var kominn, en mér til léttis komu hin í kjölfarið og ekki þurfti að ræða frekar við Bíra sjálfan. Skömmu síðar leið mér miklu betur þegar við vorum komin á hæð sem hét Hügeli, sem ég þýddi umsvifalaust Hugguleg. Hún var líka yfir 1.900 metra.

Vigdís réttir kúnni höndina, en kýrin kann sig ekki.
Við ákváðum að skoða kirkjuna í Saanen á bakaleiðinni. Hún er þekktust fyrir það að þar hélt Yehudi Menuhin glæsta fiðlutónleika á ári hverju, en hljómburðurinn er engu líkur. Enn í dag eru haldnir þar tónleikar kenndir við fiðlusnillinginn.

Kirkjan í Saanen.

Í kalvínskum kirkjum mun ekki vera altari en áhugaverð veggskreyting.
Við höfðum ákveðið að segjast vera Yehudi Menuhin Youth Orchestra, en töldum við nánari íhugun réttara að bæta „fyrrum“ við. Þegar að kirkjunni kom bjóst ég við að hitta prestinn í hverju skrefi og æfði mig að segja „Wir sind die ehmalige Y. M. Jugend Orchestra“ en hann var hvergi sjáanlegur og við komumst inn með því að taka í húninn. Forsöngvari okkar kvað rímu og hljómburðurinn var frábær.

Við Yehudi þungir á brún í Saanen.
Hæst gengum við í 2.172 metra. Það var Palette, tindur sem var ekki beinlínis í leiðinni en ég heimtaði að við færum upp á hann. Hvannadalshnjúkur, hah!

Á toppnum í 2.172 metrum.
Á leiðinni niður stoppuðum við í fjallakrá þar sem vinsamleg kona seldi okkur svaladrykk og ost sem hún hafði sjálf búið til, þ.e.a.s. ostinn. Hann var svo góður að við keyptum hvert sitt stykki og smygluðum til Íslands. Í túninu ofan við bæinn léku synir hennar sér og hurfu auðveldlega sjónum ef þeir beygðu sig. Það var skemmtilegur feluleiksstaður.

Ég rakst á Julie Andrews í blómahafinu.
Satt að segja fórum við enn hærra eða í 3.842 metra. Þetta var bæði léttasti dagurinn og sá sem við vorum þreyttust eftir. Þá ókum við til Chamonix í Frakklandi, en Mont Blanc er næst þeim bæ. Við tókum kláfinn upp. Ég er ekki með margar fóbíur en lyftur eru ein þeirra (og sú eina sem ég man eftir). Þegar maður situr í vagni, hangandi á mjóum vír á leiðinni upp í háloftin, er það ekki sérlega þægileg tilfinning að vera með 61 öðrum, jafnvel þó að margir þeirra séu smávaxnir Suður-Kóreubúar. Við hliðina á mér stóð kona með hvítt andlit og leit út eins og postulínsdúkka. Maðurinn hennar var í kúrekabúningi. Ég held að það hafi verið alveg óvart að þau litu út eins og grínfígúrur. Þau höfðu fengið sér væna flís af hvítlauki í morgunmat.
Í vagninum var ung kona sem ýtti á einhverja takka og við fórum af stað. Skyndilega leit hún á einn mælinn. Hann sýndi 12 km hraða. Hún bankaði aðeins í hann og leit svo á hann aftur. Hvers vegna gerir hún þetta? hugsaði ég og datt ekki í hug nein önnur skýring en að mælirinn væri bilaður. Ég leit út um gluggann og sá bara þoku.

Ég gleymdi úlpunni og var í balljakkanum. Mont Blanc í baksýn. BJ, Vigdís, Ingibjörg Steinunn, Hrólfur og Anna.
Skyndilega létti henni og grár hamraveggurinn blasti við. Við stefndum á hann á 12 km hraða á klukkustund. Lesandanum finnst það kannski ekki mikið, en það er ekki skemmtileg tilhugsun að lenda á þverhníptum vegg í 3.600 metra hæð, jafnvel þó að hraðinn sé ekki meiri. Ég hélt í stöng í vagninum og fór að hugsa hvað myndi gerast ef gólfið dytti úr vagninum. Postulínsdúkkan og hennar vígalegi eiginmaður myndu pompa niður, en gæti ég haldið nægilega fast í súluna?
Þá hægði vagninn á sér og stoppaði. Ég starði á gráan klettinn. Lokaður í þröngum vagni með 61 Kóreubúa (eða segir maður Kórverji núna?) Í örvæntingunni gleymdi ég Vigdísi og hinum Íslendingunum. Svo hreyfðist hann aðeins og með rykkjum og skrykkjum komumst við á leiðarenda í 3.778 metrum. Einhvern veginn opnaðist hlerinn (ekki botninn heldur á hliðinni) og við bárumst með straumnum. Vagninn hélt áfram að sveiflast, en við komumst upp á brú og fjallstindurinn sjálfur blasti við. Brúin virtist sveiflast líka og það var ekki fyrr en eftir nokkrar stund að ég áttaði mig á því að hér kynntist ég þunna loftinu í fyrsta sinn. Vigdís lýsti því yfir að hún væri hætt við Kílemansjaró.

Biðröð á Mont Blanc.

Stutt eftir í millistopp.
Einn í hópnum hafði klifið fjallið fyrir tæplega tíu árum og lýsti því fjálglega hvernig hópurinn hafði hrakist upp og niður fjallið. Hann sjálfur var fluttur niður í þyrlu með vatn í lungum, en þó ekki fyrr en eftir að hann náði tindinum. Ég gat ekki skilið frásögnina öðruvísi en að það væri ekki nóg með að veikindi af þessu tagi væru möguleg í okkar hæð heldur beinlínis mjög líkleg.
Ég reyndi því að taka eins margar myndir og ég gat til þess að skilja eftir mig sem mestar heimildir um síðustu stundirnar, rétt eins og Scott á Suðurpólnum. Smám saman óx mér þó ásmegin og loks var svo komið að ég heimtaði að við færum upp í turn sem er um 60 metrum hærri en aðalstöðin. Þar er glerbox sem fólk gengur út í og er fallið þá mörg þúsund metra ef gólfið gefur sig. Enginn vildi fara með mér og mér heyrðist þau hvísla um að stundum færi vatnið ekki í lungun heldur í heilann. Til þess að gera þessa för mína enn skynsamlegri hafði þokan nú þykknað á ný. Ferðin upp var líka í lítilli lyftu og með mér voru 15 Kórar á fjögra fermetra fleti. Ég lokaði augunum og hélt niðri í mér andanum meðan við fórum upp.
Loftið þar var ennþá þynnra og ég skjögraði í áttina að glerbúrinu. Þar fór hver á fætur öðrum inn og vörðurinn ljósmyndaði fólkið, skelfingu lostið. Maður fær einhvers konar inniskó til þess að rispa ekki glerið og lítur út eins og einhvers konar Stórfótur. Þessi fótabúnaður eykur ekki stöðugleikann. Ég rétti verðinum myndavélina og staulaðist út í tómið. Ef hægt er að lesa nokkuð úr myndinni er það: „Ég er ekki hér, þetta er bara draumur og bráðum vakna ég.“

Á inniskóm í glerbúrinu (náfölur).
Í því rankaði ég við mér. Það voru örfáar mínútur þangað til ég átti að fara niður. Ég tróðst fram fyrir hópinn, en það breytti litlu, alltaf virtust Kóar spretta upp fyrir framan mig. Loks í þriðju ferð komst ég niður og hljóp við fót þegar ég komst úr prísundinni. Hlaup eru ekki ráðlögð í 3.800 metra hæð. Loks komst ég á síðustu mínútu að vagninum, kastaði mér inn um dyrnar sem voru að lokast og Vigdís greip í höndina á mér. – Svona hlýtur þetta að hafa verið, því að ég komst niður á jafnsléttu.
Á morgnana notuðum við Grundargöngulagið og hefðum þegið göngugrind ef henni hefði verið við komið. Mikið skelfing getur maður þjáðst af strengjum þegar maður kemur af malbikinu yfir í alpana. Af einhverjum ástæðum rifjaði einn ferðafélaginn upp dagana í slökkviliðinu, en þar var reglulega haldin Hell week, þar sem allir voru gersamlega útkeyrðir og áttu svo að leysa ýmis verkefni. Við þurfutum ekki að leysa nein verkefni nema ég fékk að opna hólk með gestabók á tindinum í 2.172 metrum. Það tókst og mér tókst líka að krota nafnið mitt, en var ósköp loppinn á höndunum. Ég er að minnsta kosti viss um að slökkviliðsmenn hafa ekki fengið þann kost sem við fengum á kvöldin eða útsýnið á daginn í Vítisvikunni.

„Við erum sem sé týnd.“ Við Anna á fjallinu.
Gstaad er hugguleg borg. Einn sólardaginn gengum við Vigdís framhjá huggulegu svissnesku húsi (þannig eru öll húsin í Stað) og á svölunum sat gamall maður. Ég sagði henni að þetta væri svissneskt veðurhús í fullri stærð, ef veðrið versnaði myndi kerlingin sem væri inni koma út og karlinn hverfa inn í stofu.

Þetta er ekki húsið sem við Vigdís sáum.
Uppáhaldsbúð Önnu frænku heitir Landi, en hún ber ekki nafn með rentu, selur engan landa heldur áburð og grillpönnur.
Eitt kvöldið keppti Sviss við Hondúras og við fórum á bar til þess að fylgjast með leiknum. Stemningin var svosem ágæt, en eiginlega voru það nokkrir kókþambandi Íslendingar sem héldu uppi stuðinu. Það gerðum við líka í strætó sem við notuðum óspart, svo mjög að bílstjórinn var farinn að heilsa okkur kumpánlega og spjalla við okkur um fótbolta.

Þetta fjall sáum við lokadaginn á leiðinni til Etivaz.
Enda þennan langa pistil á Hallarhótelinu. Þangað fórum við síðasta kvöldið og settumst niður í glæsilegum salnum og pöntuðum misgörótta drykki. Þar var einhver besti auglýsingatexti fyrir hófdrykkju sem ég hef séð. Hann var um það bil svona:
„Ef maður drekkur of marga kokteila fer allt að hringsnúast í höfðinu á manni og daginn eftir vaknar maður og líður eins og í heilabúinu sé góður skammtur af dínamíti. Þá er eins gott að liggja grafkyrr á koddanum því minnsta hreyfing gæti orðið til þess að heilasletturnar dreifðust á veggina.“
Mér leið ekki svona í ferðinni.
Benedikt Jóhannesson bj@heimur.is
Ítarefni: Mér er sagt að af öryggisástæðum eigi maður alltaf í ferðalok að skrifa bréf þar sem allt það sem aflaga fór er tíundað. Ég geri auðvitað eins og mér er sagt, og hefst nú bréfið: