Hann er kominn á

Þegar ég heyrði að viðmælandi minn var staðkunnugur spurði ég hann hvort hann gæti bent mér á einhverja góða veiðistaði í Gufudalsá. Svarið lofaði ekki góðu:

„Nei, það veiðist ekki mikill fiskur úr þessari á.“
Af því að ég var búinn að kaupa veiðileyfin og nánast lagður af stað lét ég hann ekki segja mér þetta tvisvar. Skýrara gat það ekki verið. Jæja, hugsaði ég, þetta er þó alltaf útivera og góður félagsskapur.
Það er einkennilegt hvað veiðimenn eru tilbúnir til þess að réttlæta veiðiferðir með einhverju allt öðru en veiði. Útivera fæst með rölti gegnum Laugardalinn (sem er miklu ódýrari en veiðitúr) og góður félagsskapur með því að fara í bingó (hugsa ég, hef aldrei farið).
Þegar ég var strákur fór ég stundum með pabba að veiða, en hvort sem það var vegna áhugaleysis hjá mér eða uppeldismistaka hjá pabba fékk ég ekki veiðibakteríuna. Það var samt gaman að fara í veiðitúrana, en við Siggi bróðir fórum í göngutúra meðan pabbi sinnti skyldustörfum. Mamma var ekki farin að veiða á þessum tíma, en hún var samt með í ferðinni. Líklega hefur hún byrjað á því svona miðja vegu milli fertugs og fimmtugs og einhvern tíma eftir fimmtugt fór hún að veiða líka, en pabbi setti ormana á og kastaði jafnvel líka. Einhverja fiska fékk hún, en ekki veit ég hvort þeirra landaði þeim.
Ég hélt ekki á veiðistöng aftur fyrr en ég var 35 ára eða svo. Þá fór ég stöku sinnum í veiði, var fenginn með ef einhver datt út á síðustu stundu og enginn skárri fékkst til þess að fylla í skarðið. Þetta fannst mér ekki sérstaklega skemmtilegt. Sumir sjá ofsjónum yfir boðum í laxveiðiár, en ég leit á þetta sem skylduverk sem maður yrði að taka að sér (it‘s a dull job, but sombody has to do it).
Ekki þarf að orðlengja það að ég veiddi ekkert. Mér var nokk sama, bjóst ekki við að veiða neitt. Í fyrsta túrnum var með mér leiðsögumaður. Hans djobb fólst í því að keyra mig á einhvern stað, fara svo eitthvert í burtu, koma aftur klukkutíma seinna og sitja fyrir aftan mig og súpa af fleyg.
„Ég vona að ég móðgi engan“, sagði hann í hvert sinn sem hann saup. Hann hefur væntanlega átt við mig, því að aðrir voru ekki á staðnum. Ég svaraði engu og þáði ekki vinsamlegt boð hans um slúrk úr pyttlunni. Sem ég stóð þarna með stöngina úti í ánni og veiddi ekkert hugsaði ég með mér að það væri þægilegt starf að vera leiðsögumaður í laxveiðiá.
Einu sinni komst ég í Laxá í Ásum, bestu á landsins. Líklega hefur Eric Clapton verið degi of seinn (eða kannski var hann ekki byrjaður að veiða þá). Félagsskapurinn var ágætur og árin falleg, en …
Sennilega hef ég verið kominn fast að fertugu þegar ég loksins setti í fisk. Það var örugglega alveg óvart. Maður á auðvitað að muna fyrsta laxinn, en hann festist mér ekki betur í minni en svo að ég man ekkert hvar ég var (þannig að hann var ekki eins minnisstæður og morðið á Kennedy), en hitt man ég að ég neitaði að bíta af honum uggann. Þetta Maríulax kjaftæði fór í taugarnar á mér, auk þess sem fátt er ógeðslegra en uggi af laxi.
Eitthvað gerðist samt því að skyndilega fannst mér laxveiðin ekki jafntilgangslaus og fyrr. Ég fór að hlusta eftir ráðum reyndari manna og komst að því að laxinn kann alls ekki best við sig í kyrrum pollum, eins og mér fannst rökrétt, heldur í straumvatni. Smám saman hætti ég að nota maðk og svo var það bannað, en það hafði jafnmikil áhrif á mig og reykingabann, ég hafði ekki lengur gaman af maðkveiðum. (Svo eru þær líka fyrir börn og aumingja, en það segi ég auðvitað ekki upphátt.)
Svo talinu sé aftur vikið að Gufudalsánni reyndist kunningi minn mæla orð að sönnu. Þar var engan lax að fá. Að vísu var ég í félagi með nokkrum bestu veiðimanna landsins og þeir bunkuðu upp bleikju, en það telst yfirleitt ekki sem alvöru veiði.
Alvöru veiðimenn þekkja flugur með nafni, safna þeim líkt og börn söfnuðu frímerkjum. Börnin hætta að vísu þegar þau sjá tilgangsleysið, en annar áðurnefndra vina á 4.800 flugur, hinn ruglast alltaf þegar hann er að telja sínar, svo margar eru þær.
Ég á fjölmargar flugur en þekki þær í sundur á litnum og stærð. Sumar eru rauðar, aðrar gular og ein er appelsínugul. Hún finnst mér alltaf vænleg, en fiskarnir sem ég á stefnumót við hafa lélegan smekk. Stundum raða ég flugunum fallega í box eftir lit og stærð. Svo gleymi ég boxinu í bílnum, nema því litla sem kemst í vasann á vestinu.
Á mánudaginn fór ég í Hróarslæk með fjölskyldunni. Hróarslækur er einstakur að tvennu leyti. Hann er stærsti lækur landsins og væntanlega bara kallaður lækur vegna þess að Ytri-Rangá, sem hann fellur í, er fljót. Svo er hann eina á landsins þar sem færri laxar hafa veiðst í sumar en í Gufudalsá. Veiðibókin sagði sex (þ.e. 6 laxar á land) en þar af voru fjórir á spún eða maðk, þannig að í raun voru þetta bara tveir alvörulaxar.
Veiðistaðirnir hafa ekki nafn eins og í alvöruám heldur númer. Frá einum til tuttugu og eitthvað, en flestir eiga það sameiginlegt að á engum þeirra veiðist neitt. Mér finnst að þeir staðir ættu að hafa númerið núll, rétt eins og í tombólu þegar enginn er vinningurinn.
Annars var auðvitað gaman. Góður félagsskapur, áin reyndar ekkert sérstök en sleppur þó. Veiðihúsið er reyndar ágætt og lóðin kringum það góð sem kom sér vel þegar dótturdæturnar voru með í för. Vigdís litla var með eigin stöng, fallega bleika og fékk að veiða á spún, en á hann fékkst bara gróður. Henni var alveg sama og fannst þetta frábær skemmtun.
Aðeins eitt er leiðinlegra í veiðitúr en að veiða ekki neitt. Það er þegar öðrum gengur vel. Sérstaklega þegar það er algerlega óverðskuldað.
Ég var semsé á leið í hyl 16 og við tveir. Okkur kom saman um það á leiðinni að ég myndi byrja. Í því að við ætlum að vaða yfir að hylnum hringir síminn. Það var Jóhannes sonur minn, einn af fáum sem ég hefði ekki skellt á. Erindið var svo langt að ég vinkaði til félagans að byrja. – Það voru skelfileg mistök. Ekki voru liðnar fimm mínútur þegar hann lyfti þumlinum sigri hrósandi til merkis um að hann væri kominn með fisk á.
Það sem verra var, þetta var vænn bolti sem fljótlega var kominn á land. Símtalinu var þá lokið og nauðugur viljugur blóðgaði ég fiskinn, en félaginn hafði gleymt hnífnum.
Ég veit að lesendur virða mér það til vorkunnar að ég tali ekki meira um þennan fisk. Að vísu grunar mig að Jóhannes hafi verið með í samsæri um að halda mér frá hylnum og ég hef samið við Stefán Eiríksson og Tryggva Gunnarsson kennara um að hefja sjálfstæða rannsókn á málinu.
Næsti sólarhringur leið hratt og ég var aftur kominn í 16. Ekki blés byrlega. Ég steig óvart í einhvern leðjupytt og valt útaf og varð allur forugur. Vöðlurnar höfðu fest á gaddavír og láku, ég hafði fengið lost úr rafmagnsgirðingu (þess vegna er ég svona núna). Rauða, gula og appelsínugula fluga höfðu farið yfir hylinn án árangurs.
Í því að ég reis úr forarsvaðinu, staðráðinn í því að fara heim úr þessari leiðindaá, kallaði veiðifélaginn sem var kominn á bakka handan árinnar: „Ég sé fisk.“
Svo öllu sé til haga haldið leiðbeindi hann mér um hvar fiskurinn lægi og að hann blakaði sporðinum þegar flugan færi yfir hann. Hún var bara allt of hátt. Eiginlega var hann bara hjálplegur, en hefur auðvitað verið með samviskubit yfir fisknum frá því í gær.
Um tíma hélt ég að hann væri að gabba mig, því ég sá engan fisk. En okkur kom saman um að best væri að ég færði mig, veiddi hylinn ofanfrá og svo skipti ég um flugu í síðasta sinn. Setti á þunga rauða flugu með gylltri kúlu efst.
Í fyrsta kasti hvorki gekk né rak, en í næstu lotu náði ég línunni beint yfir fiskinn, flugan sökk og þegar hún var beint fyrir framan hann strippaði ég. (Fyrir óinnvígða þýðir að strippa að kippa snöggt í línuna með hendinni). „Hann er kominn á“, dundi við í félaganum og sekúndubroti síðar fann ég kippinn.
Dauðastríðið var stutt og snarpt. Á land kom hrygna. Stærðin skiptir ekki öllu máli, túrnum var reddað. Frábær túr, satt að segja.
Og reyndar veit ég það. Þetta var rauður frances cone head.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.