Búddamunkurinn sem seldi húsið sitt (BJ)

Á föstudagskvöld fór ég í afmæli til góðrar vinkonu okkar. Fínt partý, skemmtilegt fólk, veitingar á heimsmælikvarða, ekki síst þar sem þær byggðust fyrst og fremst á laxi, bleikju og rabarbara. Það þurfti að tæma ísskápinn, frystikistuna og beðin í garðinum. Maður þakkar guði fyrir að þau hjón eru ekki makrílveiðimenn með sultaðar asíur í eldhúsbúrinu.
Ég talaði við marga og átti uppbyggilegar samræður. Þær voru svona:
Viðmælandi: „Hvernig gengur með flokkinn?“
„Það er nú ekki búið að stofna neinn flokk ennþá“, svara ég, en man svo að kjósandinn hefur alltaf rétt fyrir sér (nema kjósendur Framsóknarflokksins) þannig að ég bæti við: „En það gengur mjög vel.“
„Hvað er næst á dagskrá hjá ykkur?“
„Ég reikna með því að við höldum nokkra fundi í haust og reynum að ná samstöðu um stefnuna.“
„En þurfið þið marga fundi, eruð þið ekki bara eins máls flokkur?“
Ég velti því hvort ég eigi að endurtaka það að ekki sé búið að stofna flokkinn, en hætti við og segi þess í stað: „Hver finnst þér að séu erfiðustu málin sem við er að eiga?“
Smá hik en svo kemur: „Það er náttúrlega sjávarútvegurinn, landbúnaður og … líklega heilbrigðismálin.“ Röðin er ekki alltaf sú sama, en þetta eru oftast málin.
„Þá ber vel í veiði, þetta eru einmitt mál sem við viljum leggja áherslu á.“
Löng þögn. Svo kemur: „Ég er nú ekki á þeirri skoðun að við eigum að ganga inn í Evrópusambandið, eins og þú vilt.“ Hik. „En mér finnst sjálfsagt að við klárum viðræðurnar og sjáum hvað kemur út úr þeim.“ Lengra hik. „Annars veit ég ekki mjög mikið um þetta mál.“
Þá kemur örstutt innlegg frá mér um hvort viðmælandinn sé ánægður með krónuna, ofurtolla og höft í landbúnaði eða sjávarútvegskerfið. Enginn er ánægður með þetta og ég segi: „Þá erum við sammála.“
Eftir því sem leið á kvöldið urðu ég og viðmælendurnir sífellt sammálari.
Einhver kallar yfir hópinn hvort pólitíkusar séu ekki asnar upp til hópa. Þegar ég vil ekki samsinna því, en segi að vissulega séu sumir býsna sérstakir, þá segir kona að hún þoli ekki að enginn sem vill að vera í pólitík geti svarað skýrt.
Þá segi ég að það sé vegna þess að stjórnmálamenn þurfi að vera svo mikið erlendis og við vitum jú öll hvaða áhrif útlendur matur hefur á heilabúið. Þá verður konan aftur glöð.
Að lokum kom að lokum boðsins og við huguðum að heimferð. Í því að ég spyr Vigdísi hvort við eigum ekki að panta bíl spyr einhver hvort við höfum ekki komið akandi: Ég jánka því en tel að eftir svona mikinn lax og rabarbara sé heppilegra að skilja bílinn eftir.
„Já, þú getur náttúrlega ekki látið taka þig, maður kominn í pólitíkina,“ segir einhver. Ég hlæ rosalega til þess að missa örugglega engan stuðning sem ég er búinn að hafa mikið fyrir að reyna að vinna mér inn. „Já þetta er hræðileg fórn fyrir mann eins og mig,“ segi ég til þess að virðast hress og hlæ aðeins meira til öryggis.
Morguninn eftir vakna ég og velti því fyrir mér hvort ég eigi nokkuð að sækja bílinn. Eftir jógúrtina er lífssýnin strax bjartari og ég spekúlera í því hvort ég eigi að biðja Vigdísi að skutla mér. En hún er steinsofandi þannig að ég ákveð að ganga.
Ég er á bolnum og brosi glaðlega til tveggja kvenna sem koma úr Farfuglaheimilinu dúðaðar upp fyrir haus. Þær halda greinilega að svona léttklæddur maður sé nýsloppinn úr gæslu, greikka sporið og færa sig yfir götuna.
Fyrir neðan stiginn við Áskirkju er gangbraut og yfir hana stikar köttur. Ég er svo gáttaður á löghlýðni kattarins að ég tek ekki eftir því hvernig hann er á litinn. Hafi hann verið svartur afsannaði ganga hans ógæfu sem fylgir slíkum dýrum því þetta varð sérlega ánægjulegur dagur.
Á þessum slóðum bjó ég til tvítugs og þekkti fólk í hverju húsi. Nú eru fáir af gömlu nágrönnunum eftir. Mér finnst það svolítið leiðinlegt, en svona er lífið. Í tveimur húsum er heimili fyrir fólk sem er að fóta sig eftir að hafa þurft að leita sér lækninga vegna geðrænna vandamála.
Fyrir rúmlega 40 árum ætlaði fólkið sem þarna bjó að fara á límingunum þegar fyrra húsið var selt til þessara nota. Árni Gunnarsson gerði útvarpsþátt um fordómafulla fólkið á Laugarásveginum og ég var oft spurður um það hvers konar lið við værum.
Foreldrar mínir voru því reyndar meðmælt að fá svona hús í hverfið. Vinkona þeirra var frumkvöðull á því sviði reka svona hús og ég man að þangað komum við, án þess að mér dytti það í hug að nokkur íbúanna vildi gera mér neitt mein. Pabbi hringdi í Árna og sagði honum að ekki væru allir sammála í mótmælunum, en það var ekki spennandi efni og var aldrei birt.
Sunnósjoppa er enn á Langholtsvegi, en margt annað er horfið. Pósthúsið, apótekið, bankaútibúið, Silli og Valdi. Allt löngu horfið. Langholtsskólinn er samt enn á sínum stað og Jenna, gamli kennarinn minn, er enn á lífi. Um daginn hitti ég mann sem heilsaði mér, sagðist hafa verið í Langholtsskólanum á sama ári og ég, en ég mundi ekkert eftir honum. Hann var reyndar í B-bekknum sem við kölluðum og bjó ekkert mjög langt frá mér. Kannski ef ég sæi mynd úr 12 ára bekk?
Kona kemur á móti mér, eilítið skökk og ég velti því fyrir mér hvort hún hafi verið ennþá skakkari kvöldið áður. Ég býð góðan dag og hún svarar: „Dah“ með hálfgerðu raddlausu hvísli. En áður en ég sekk dýpra í vangaveltur um ævi og örlög þessarar konu hleypur einhver framhjá mér.
Svona morgunhlaup er ekki tígulegt sport. Flestir eru þrútnir, framlágir, sveittir, másandi svo að maður heldur að þeim liggi við andnauð, framhallandi, bognir og með hlaupalag sem vekur vorkunn fremur en aðdáun á framtakinu. Fatnaðurinn ýkir líka yfirleitt ástæðurnar fyrir því að menn taka á rás snemma á frídagsmorgni. Heilbrigð sál í hraustum líkama segir máltækið, en hlauparar bera fæstir nokkur merki um hreysti. Að minnsta kosti ekki á síðustu metrum hollustunnar. Hjólreiðamenn eru hins vegar glæsilegir þegar þeir þjóta framhjá á sínum tvíhjólaða gírafáki.
Þessi langi göngutúr var eins og rölt til útlanda. Úr mínu gamalgróna hverfi fór ég stíga sem ég hef aldrei fetað áður. En bíllinn var á sínum stað og ég ók aftur á mínar öruggu hemaslóðir.
Hvernig kemur svo Búddamunkurinn inn í myndina? Jú, Ástvaldur Traustason var með tónleika í dag til þess að kynna nýtt verk sem heitir Hljóð. Ástvaldur er einn besti píanóleikari landsins, að minnsta kosti af þeim rytmísku. Hann er líka einstakur kennari, jákvæður og þolinmóður. Hann er auk þess Zen munkur og hefur kannski öðlast sína yfirvegun þar. Köllun hans í lífinu er að hjálpa til.
Nú hefur hann notað þekkingu sína til þess að búa til mínimalska tónlist, fallega og illflokkanlega. Hún er ótrúlega góð til þess að hlusta á og öðlast hugarró, en þó ekkert innihaldslaust, verksmiðjuframleitt slökunarpopp. Fyrir fjórum árum gaf hann úr diskinn Hymnasýn, sálma túlkaða með hans aðferð. Kannski er þetta skylt djassi, en þó …
Eitt lagið samdi hann þegar hann var búinn að selja húsið sitt og ekki búinn að kaupa annað. Þá áttaði hann sig á því að það er mikilvægt að eiga einhvers staðar heima. Ástvaldur er ekki svo langt kominn í fræðunum að hann búi á fjallstindi og tali í gátum. Mér finnst ágætt að hugleiða málin með gamaldags hætti, til dæmis á gönguför, og það er gott að fá tónlist sem hvílir mann og örvar samtímis. Hana tekst Ástvaldi að búa til, munkinum sem seldi húsið sitt og keypti annað.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.