Upp, upp, upp á fjall

Samtalið byrjaði svona: „Mér datt í hug …“

Þegar ég heyrði þetta vissi ég að Vigdís var búin að ákveða hvað við ættum að gera. Hennar hugmyndir eru settar fram sem tillögur, en í raun og veru hafa þær sömu stöðu og stjórnarfrumvörp á Alþingi. Það má ræða þau fram og tilbaka, en í raun og veru eru þau nánast orðin lög þegar þau eru sett fram.

Einhver kynni að halda að málþóf gæti haft áhrif, en ef það er nokkur Íslendingur sem hefur nánast óendanlega reynslu af málþófi er það Vigdís. Og lætur það aldrei koma sér úr jafnvægi.

Þess vegna beið ég rólegur eftir hugmyndinni, en vissi um leið að örlög mín væru ráðin.

Hugmyndin var reyndar ekki slæm. Við ætluðum að fara austur í Öræfi í fjallgöngu, svo austur á Norðfjörð og loks heim aftur norður um land (ef guð og Bárðarbunga leyfðu).

„Jú“, sagði ég því mér fannst hugmyndin ágæt, en hefði auðvitað sagt jú hvort eð er. „Hvenær eigum við að leggja í hann?“

„Á föstudagsmorgni, en þú mátt ráða klukkan hvað.“ Svona virkar lýðræðið vel á okkar heimili.

„Og hvenær komum við í bæinn aftur?“ hélt ég áfram.

„Er ekki hæfilegt að koma á laugardagskvöldi“, segir Vigdís óhikað.

Ég hugsaði mig aðeins um og sagði svo með minni eðlislægu hægð: „Átta dagar, mér lýst vel á það.“

Vigdís horfði á mig eins og ég væri alvarlega skertur. „Nei, daginn eftir auðvitað.“

Eftir langar samningaviðræður náðist sú niðurstaða að við yrðum í fjóra daga á þessari ferð.

Þegar við nálguðumst Vík stakk ég upp á því að við stoppuðum í Reynisfjöru. Vigdís taldi að við værum farin framhjá henni. Um þetta þrefuðum við nokkuð, en ég taldi líklegt að hún væri við Reynisfjall. Nei, Vigdís mundi eftir því að við höfðum farið framhjá skiltinu um Reynishverfi skömmu áður.

Svo ókum við framhjá Dyrhólaey og komum að skiltinu um Reynishverfi. Vigdís beygði þegjandi til hægri og við sögðum ekki orð um þetta mál framar.

Í fjörunni eru hellar og fallegt útsýni yfir að Dyrhólaey, auk þess sem strýturnar upp úr sjónum sjást til austurs. Þarna er líka nýopnað kaffihús og þegar við komum var maður að lenda í fallhlíf við húsgaflinn; hann hefur líklega verið kaffiþyrstur.

Segir svo fátt af ferðum okkar þangað til við erum komin að Kálfafellsstað á föstudagskvöldi. Þar reka Bjarni mágur og Þóra kona hans gistiheimili og eru búin að taka hálft húsið í gegn af miklum myndarskap. Hinn helmingurinn klárast fljótlega.

Það er ekki amalegt að gista á prestsetri og ef einhverjir eru á sveimi í kirkjugarðinum við húshornið trufluðu þeir okkur ekki. Ég hafði aldrei heyrt sagt frá Gunnhildi, völvunni sem þarna bjó og var systir Ólafs helga Noregskonungs. En leiði hennar sáum við nálægt fallegum hól. Hún færir húsráðendum björg í bú að sagt er. Fjallahringurinn tryggði fallegt sólsetur.

Daginn eftir brosti sólin við okkur, eins og mér finnst reyndar að hún hafi gert á hverjum degi í sumar, en það eru ekki allir sammála því skilst mér. Fólk man ekkert nema rigninguna sem var í einhverja þrjá daga, ef ég man rétt.

Ferðinni var heitið á Kristínartinda, fjall ofan við Skaftafell. Hvannadalshnjúkur var baðaður í sólskini. Við Hala er minningarsteinn um þá bræður Steindór, Þórberg og Benedikt Þórðarsyni. Ég var ánægður að Suðursveitarmenn skuli muna eftir fleirum en Þórbergi einum og hafi skorið steininn í þrennt.

Vigdís hafði lesið um að gönguferðin á tindana tæki sjö til átta tíma. Ég taldi að hún væri fljótlegri, en á þetta gátum við einmitt látið reyna og ég var staðráðinn í að ganga greitt.

Frá upplýsingamiðstöðinni gengum við fyrst að Svartafossi. Það var að vísu andstætt mínum markmiðum, en hann er bara svo flottur að ég gat ekki látið hann framhjá okkur fara.

Skömmu síðar komum við að skilti sem sagði: „Kristínartindar 7,4 km“. Þetta var miklu lengra en mig minnti, sérstaklega þar sem við vorum þegar búin að fara rúmlega tvær rastir (rastir var orð sem einhver vildi nota fyrir orðskrípið kílómeter. Það festi ekki rætur).

Ekki var um annað að ræða en greikka sporið og með okkur var jafnræði í göngunni. Stígar eru allir greinilegir og sums staðar jafnvel timburpallar, væntanlega yfir votlendi. Ekki þarf að orðlengja það að við stungum alla aðra af. Þegar Vigdís vildi snæða samþykkti ég það með semingi, en við vorum varla búin að taka utan af brauðinu þegar ég sagði: „Jæja.“

Ég reyndi af útsjónarsemi að finna út hvar leiðin lægi (stígurinn er reyndar augljós, en ég vildi að Vigdís sæi að ratvísin væri mér í blóð borin). Þess vegna benti ég aðeins áleiðis og sagði:

„Við eigum að ganga eftir þessum hrygg.“ Ég sá tvo göngugarpa á hryggnum.

Vigdís jánkaði því og muldraði eitthvað. Mér heyrðist hún segja: „Ég sé þarna eru tveir.“

Menn mega ekki taka því sem neinu yfirlæti af minni hálfu, en mér fannst ég þurfa að bæta um betur: „Meira en það, ég sé stíginn.“

Hún horfði aftur á mig þessu einkennilega augnaráði og ég áttaði mig fljótlega á því að hún hafði sagt: „Ég sé þarna er leið.“ Það er oft einkennilegur þytur í fjallalogninu.

Af hryggnum sáum við yfir í Morsárdal. Hann er sérkennilegur. Hvítur líparítsandur breiðir sig yfir aurana, rétt eins og hann sé snjóbreiða. Innst í dalnum er brattur hamar og jökullinn nær út á ystu brún hans. Af snjóbráðinni myndast fossar sem sagðir eru þeir hæstu á landinu, kallaðir Morsárfoss, 227 metrar á hæð. Áður náði jökullinn miklu lengra fram og brotnaði þá reglulega framan af honum með háum hvelli, segir Reynir frændi.

Á þessum slóðum sá ég mann sem ég hefði ekki viljað vera í flugvél með. Kauði var í kufli og með höfuðbúnað Araba. Ég stoppaði hann og spurði hve langt við ættum eftir. Hann svaraði því skilmerkilega og mér heyrðist að við gætum vel náð á toppinn á skikkanlegum tíma. Ég veit að lesendur átta sig á því að hann hefur líklega verið með sprengjuna í bakpokanum, en svo hann njóti sannmælis þá sprengdi hann hana ekki meðan við spjölluðum.

Nú vorum við komin að fjallinu sjálfu, eftir að hafa gengið í um tvo tíma á heiði. Leiðin varð sífellt brattari. Vigdís virtist alls ekki gera sér grein fyrir því að ég ætlaði að afsanna hennar kenningar og gekk hratt og örugglega upp hlíðina. Ég varð hins vegar bensínlaus í miðri brekku og hreyfðist hægt áfram. Eftir langa og kraftlitla göngu komst ég loks upp á háls þar sem hægt var að tylla sér við vörðu.

Við blasti síðast áfanginn, snarbrött leið sem nokkur ungmenni fetuðu sig varlega niður. Vigdís hvarf á bakvið klett. Ég settist og tók upp nestið. Nú varð ég að fá orku.

Það er gaman að kyrrðinni á fjöllum á fallegum sólskinsdegi. Hvannadalshnjúkur á hægri hönd, Morsárdalurinn horfinn bakvið tindinn, en skriðjökull framundan. Ég teygaði vatnið og naut augnabliksins þegar síminn hringdi. Auðvitað skildi ég minn síma eftir í bílnum, en Vigdís vill ekki missa sambandið við siðmenninguna. Ekki vissi ég hver vildi spilla þessu augnabliki.

Þetta reyndist vera sonur okkar að tilkynna okkur að gos væri hafið undir jökli. Auðvitað hefði ég átt að snúa þegar í stað við og fara að skrifa um það á Iceland Review vefinn, en

a) Það var langt tilbaka

b) Við vorum ekki komin á tindinn (en þetta gaf pottþétta afsökun til þess að sleppa síðasta áfanganum sem var ekki heillandi)

c) Við vorum ekki í neinu tölvusambandi hvort eð var

Við ákváðum að skipta með okkur verkum. Jóhannes skrifaði um gosið og við héldum áfram og sögðum fólki á fjallinu fréttirnar. Margir voru vantrúaðir, en af því að við vorum Íslendingar trúðu þau okkur samt. Mikið var maður ánægður um kvöldið að þurfa ekki að hitta þetta fólk aftur þegar Magnús Tumi aflýsti gosinu. Gæti hins vegar vel hugsað mér að hitta það núna.

Síðasti áfanginn var drjúgur, brattur, illkleifur og hátt fall niður, ef maður hefði misstigið sig. Ég ákvað að reyna að misstíga mig ekki. Vigdís hljóp við fót upp klettana, en beið þó eftir mér á einum stað. Þar var örmjótt haft sem okkur leist illa á og gerðum þegjandi samkomulag um að snúa við. Í því spígsporaði danskt par framhjá og var hið sperrtasta. Ég ákvað að feta í fótspor þeirra enda þegjandi samkomulag ekki pappírsins virði. Haftið, var einn metri og eftir það var leiðin greið.

Upp komumst við, en þar eru eggjar miklar sem ég þorði ekki einu sinni að skríða fram á. Því að þó að ég hafi gaman af því að ganga á fjöll er ég afar lofthræddur og rennur kalt vatn milli skinns og hörunds meðan ég skrifa um þessa skuggalegu hamra og er þó fallið ekki nema um ellefu hundruð metrar. Það væri um fimmtán sekúndna fall og útsýnið skemmtilegt á leiðinni.

Aðeins stoppuðum við þó og létum mynda okkur, skrifuðum í bókina (aftasta blaðsíða, ég skrifaði upp á rönd). Niðurferðin var erfiðari þann hlutann sem brattastur var. Ég stoppaði aftur á hálsinum til þess að hella sandi úr skónum. Vildi þá ekki betur til en svo að ég fékk feiknalegan krampa í kálfann, svo mikinn að ég veinaði upp. Notaði þau tvö trix sem ég kann við því, stóð í fótinn og kláraði vatnið. Þetta hreif.

Niðurleiðin var fábreytileg. Við ákváðum að halda áfram á hringleið og gengum fyrst upp á hæð sem er kölluð Gláma. Það var vel þess virði, sérstaklega eftir að vatni var bætt á pelann í lækjarsprænu.

Þessi leið er meðfram Skaftafellsjökli og heldur daufleg. Vigdís lýsti því þó yfir á niðurleiðinni miðri að líklega væri hún með sérstök fjallgöngugen, blési ekki úr nös þó að hún hefði ekkert æft sig allt sumarið. Þetta var skot á mig og Úlfarsfellsferðir mínar, en ég tók því af karlmennsku, því að orkubúskapurinn var allur kominn í lag hjá mér.

Mér fannst niðurferðin lengri en leiðin upp, ekki síst ofan við gróðurlínu. Það var löngu ljóst að ég kláraði ferðina ekki undir sjö tímum og varð því að játa að Vigdís hefði haft rétt fyrir sér, þó að mér væri það þvert um geð.

Svo brá líka við að hún hafði hægt á sér. Ég sinnti því engu og strunsaði áfram, en mundi svo eftir því að hún hafði beðið mín á uppleiðinni og hinkraði.

Í ljós kom að genabygging hennar hafði gerbreyst á einni röstinni á niðurleið. Hún var komin með blöðrur á tærnar og gat vart fært fæturna áfram.

„Ég bíð þá eftir þér niðri“, sagði ég af þeirri riddaramennsku sem mér er í blóð borin og hljóp það sem eftir var leiðarinnar í gegnum kjarrskóginn.

Ég var rétt rúmlega sjö og hálfan tíma á þessari rúmlega 20 kílómetra leið með 1.126 metra hækkun. Meðan ég beið við bílinn og teygði mig meðan ég beið eftir Vigdísi hugsaði ég:

„Kristínartindar. Tékk.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.