Enn er Viðreisnar von

Margir hafa spurt mig hvenær næst heyrist frá Viðreisn. Fyrir nokkrum dögum hringdi í mig blaðamaður sagði að heimasíðan www.vidreisnin.is lægi niðri og vildi vita hvort hreyfingin sjálf hefði dáið drottni sínum á sama tíma.

Ég gat frætt hann á því að sögur af andláti hreyfingarinnar væru stórlega ýktar og meðan við spjölluðum saman fór ég inn á heimasíðuna sem virkaði glæsilega eins og áður og bar þess engin merki að hafa orðið misdægurt. Á næstu dögum og vikum mun heyrast til þessa hóps á ný.

Hvers vegna Viðreisn?

Við sem höfum verið að vinna að því að stofna frjálslynt stjórnmálaafl hægra megin við miðju erum enn sannfærð um að það er jafnnauðsynlegt núna og það var síðastliðið vor. Við höfum fulla trú á því að það sé eftirspurn eftir stjórnmálahreyfingu sem setur ekki bara fram loforð heldur líka leiðir.
Það er enginn vandi að lofa gulli og grænum skógum, en það er vandi að standa við slík loforð eins og allir þekkja. Innst inni vita allir að það sem virðist of gott til þess að vera satt er auðvitað logið.
Við ætlum okkur að vinna að samfélagi þar sem ekki er stutt við sérhagsmuni heldur hagsmuni heildarinnar. Þar sem ekki eru einokunarfyrirtæki sem þrífast í skjóli úreltra laga. Við þurfum að endurreisa trúna á íslensku efnahagslífi þannig að erlendir fjárfestar vilji koma til landsins og taka þátt í endurreisn efnahagslífsins. Á Íslandi þarf að dafna viðskiptalíf sem nýtist öllum og starfar við reglur sem tryggja að aldrei aftur geti örfáir einstaklingar sett þjóðina að veði.
Heilbrigðiskerfið er til fyrir einstaklingana og miklu skiptir að það sé rekið á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Ekki verður undan því vikist að finna leiðir til þess að reka hér sanngjarnt kerfi sem byggir á nútímatækni og viðunandi aðstöðu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og þá sem þjónustuna þurfa.
Þeim fjölgar stöðugt sem hafa lifað mörg ár, en á sama tíma er það tímaskekkja að tala um að öldruðum fjölgi. Heilsa þeirra sem nú eru á áttræðisaldri er jafngóð og hjá tuttugu árum yngra fólki fyrir rúmri öld. Meðalævin lengist stöðugt og þar með þarf að skapa svigrúm til þess að fólk geti lagt hönd á þann plóg sem það helst vill.
Hvers vegna skyldi starfsævin eiga að enda á ákveðnum afmælisdegi ef starfsþrekið er nægt. Þjóðin er verr sett með því að ýta reynsluboltum út af vinnumarkaði. Þess vegna þarf að hafa sveigjanleg starfslok langt umfram sjötugt.
Skólakerfið hlýtur að hafa brugðist því fólki sem hefur verið tíu ár í skóla og kann ekki að lesa sér til gagns. Íslendingar eiga ekki að sætta sig við að færast stöðugt niður listana um þekkingu og færni skólabarna. Hvers vegna gengur Finnum vel en okkur illa? Hvað getum við lært af þeim?
Ungt fólk á Íslandi þarf að borga miklu hærri vexti en jafnaldrar í nágrannalöndum. Íslensk fyrirtæki og frumkvöðlar búa við sama vanda; samkeppnisaðilar erlendis fá peninga á miklu lægra verði. Það þarf ekki að spyrja hvers vegna vel menntað fólk flyst úr landi og þeir sem hafa aflað sér framhaldsmenntunar koma ekki heim.
Enginn vill börnum sínum að búa við annars flokks kjör. Ísland er ekki samkeppnishæft eins og er.
Ísland tekur þátt í víðtæku alþjóðasamstarfi, meðal annars í Evrópusambandinu þar sem við höfum verið aukaaðilar í tuttugu ár. Á hverjum degi tekur þjóðin við nýrri reglugerð, tilskipun eða lagabálki að utan án þess að hafa neitt til málanna að leggja. Þjóðin er þiggjandi en ekki veitandi, því hún er valdalaus á Evrópuþinginu þar sem reglurnar eru settar. Andstæðingar aðildar hæðast að því að Íslendingar myndu ekki hafa mikið vægi á löggjafarsamkomunni. En það er sama hvaða mælitækni er notuð. Raddir þeirra sex þingmanna sem þjóðin fengi að velja væru ekki þöglari en Ísland er nú í þessu samfélagi.
Þjóðin þarf að ná sátt um veiðikerfi þar sem útgerðarmenn geta reiknað með stöðugleika en borga þess í stað sanngjarnt markaðstengt afgjald.
Engum, hvorki fyrirtækjum né atvinnugreinum, er greiði gerður með því að lifa í vernduðu umhverfi. Öllum þjóðum hefur vegnað best þar sem heilbrigð samkeppni ríkir. Allt of oft eru fyrirtæki vernduð undir því yfirskyni að verið sé að vernda neytendur, sem þvert á móti búa við skarðan hlut.
Ísland hefur upp á fjöldamargt að bjóða. Fallega náttúru, hreint loft, fjölbreytta menningu, fjölda tækifæra. En ekkert af þessu er sjálfgefið og um allt þetta þurfum við að standa vörð meðan við sækjum fram að réttlátara samfélagi þar sem Ísland getur borið höfuðið hátt sem þjóð meðal þjóða.
Viðreisnar er þörf.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.