Hver er þessi maður?

Þekkja ekki allir Bobby Fischer? Undrabarnið sem varð stórmeistari 15 ára, vann á sínum tíma 20 skákir í röð við bestu skákmenn heimsins, vann tvo af hörðustu stórmeisturum á þeim tíma með núlli í tíu skáka einvígi og hrifsaði heimsmeistaratitilinn einn og óstuddur frá Sovétríkjunum, titil sem átti að sýna yfirburði sósíalista á andlega sviðinu yfir auðvaldinu.

Stundum er sagt að sögur skrifi sig sjálfar. Ekki veit ég hvað er til í því. Sumir hafa einstakt lag á því að skemma góðar sögur. Jafnvel þegar þeim tekst sæmilega til klykkja þeir út með: „Var þetta ekki gott hjá mér?“ Sagnameistarar þurfa aldrei að skýra brandara eða spyrja: „Munið þið ekki … ?“ enda er hvort eð er annað hvort spurt um eitthvað sem allir muna – eða hitt sem enginn vissi og man þar af leiðandi ekki. Ég man reyndar að í gamla daga var þáttur í sjónvarpinu sem kallaðist Maður er nefndur. Spyrillinn sat á móti einhverju gamalmenni og hóf þáttinn: „Þormóð frá Litla-Hóli þarf ekki að kynna.“ Ég vissi nánast aldrei hvaða menn þetta voru og veit ekki enn þann dag í dag.

Sagan af Bobby Fischer er margsögð. Kannski hafa meira en 100 bækur verið skrifaðar um hann. Meira að segja á íslensku eru þær ekki langt frá tugnum. Svo var bíómynd: Pawn sacrifice. Hún var ágæt, en ég held fáir hafi séð hana. Miklu fleiri sáu The Queen’s Gambit sem var víst á Netflix, en hún er byggð á skáldsögu þar sem aðalsöguhetjan er kona sem menn segja byggða á Fischer. Fólk hélt vart vatni yfir þessari snilld.

Ég veit ekki hvort það er ráðlegt fyrir rithöfunda að hætta sér út í sögur sem skrifa sig sjálfar, byggja á raunverulegum viðburðum sem margir þekkja. Það er að minnsta kosti áhætta.

Einar Kárason hefur skrifað margar bækur sem byggja á raunverulegum viðburðum. Kannski eru flestar bækur hans þannig, þó að hann flétti raunveruleikanum kannski frekar inn í söguþráð. Síðustu bækurnar hans eru spegilmynd þessa. Hann skáldar inn í raunveruleikann.

Nú er hann búinn að skrifa fjórar slíkar bækur. Fyrst komu Stormfuglar, sem er meistaralega skrifað og spennandi verk um togara sem lendir í skelfilegum hremmingum við Nýfundnaland. Hún minnti mig á bókina The Perfect Storm, aðra hrakningasögu. Hvernig fer, hver lifir af, eða farast kannski allir?

Stormfuglar heilluðu mig líka vegna þess að ég gat lesið þá í einni lotu. Þeir eru það sem kallað er á ensku nóvella, stutt skáldsaga. Aðrar slíkar eru til dæmis Gamli maðurinn og hafið, Gestaboð Babettu og Manntafl. Maður er aldrei alveg viss hvort þær eru langar smásögur eða stuttar skáldsögur.

Svo komu Þung ský og Opið haf. Þetta er kallað þríleikur eða trilogia. Mér finnst þetta vera þrjár bækur sem eiga það sameiginlegt að vera stuttar, byggja á raunverulegum viðburðum og gerast á Íslandi. Að öðru leyti fannst mér þetta ekki sérstök þrenna.

Enda kannski eins gott því í dag kom út fjórða bókin, Heimsmeistari, sem segir frá Bandaríkjamanni, gyðingi að uppruna, sem varð heimsmeistari í skák, ruglaðist í kollinum og lenti í fangelsi í Japan. Kost svo til Íslands og fann sér athvarf í fornbókabúð hjá kaupmanni sem tók í nefið og var með stóran rauðan vasaklút. Hverjir skyldu þetta nú vera?

Núna er sem sé komin ferna. Fjórar knappar bækur um sögulega atburði.

Í dag var útgáfuhóf vegna Heimsmeistarans. Öllum var boðið í Club Sólon og léttar veitingar í boði. Slíkt tilboð stóðst ég ekki. Ég gerði ráð fyrir því að Club Sólon væri nálægt Sólon barnum (þar sem Málarinn var í gamla daga, fyrir þá sem fara ekki oft á öldurhús). Það reyndist rétt vera og enskumælandi starfsmaður vísaði mér upp þegar ég spurði um útgáfuhóf.

Þegar upp var komið verð ég að játa að það varð þverfótað fyrir fólki. Við barinn stóð höfundurinn með bjórglas í hendi, tveir fullorðnir menn og annar nokkru yngri. Sjálfan tel ég mig auðvitað ungan og ferskan. Við nánari athugun sá ég að þarna voru þeir Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og fjölfræðingur og Einar S. Einarsson, fyrrverandi forstjóri Visa. Ég þóttist vita að þeir nafnar væru frændur og hugsaði með mér að Einar eldri kæmi til þess að gleðja frænda sinn, en ég vissi ekki að hann væri áhugamaður um skáldsögur. Guðmundur G. Þórarinsson er aftur á móti bókmennta konnessör, kann Shakespeare utanbókar og víðlesinn. Leiðslurnar í mér er stundum svo langar að það tók mig hálfa mínútu að átta mig á því að þarna voru tveir fyrrverandi forsetar Skáksambandsins og forkólfar í félaginu sem bjargaði Fischer úr svartholinu í Japan.

Þriðji maðurinn var gamall kunningi minn frá Prentsmiðjunni Odda, Grímur Kolbeinsson sem var mættur með sixpensarann (eins og Guðmundur) og hafði valið að gera Club Sólon að skrifstofu dagsins.

Ekki missir sá sem fyrstur fær og ég tryggði mér eintak sem höfundur áritaði ljúfmannlega.

Svo gerðist nú ekki margt nema að dreif múg og margmenni (ég hef aldrei vitað muninn á þessu tvennu). Greinilega fleiri en ég sem heillast af léttum veitingum. Stórmeistarar í skák, bókmenntajöfrar, gamlir bekkjarfélagar, nánir ættingjar komu þarna saman og margir gestanna voru reyndar margt af framantöldu.

Ég var á bíl og jafnvel þó að ég hefði (eða hafi?) fengið mér einn léttan myndi ég sannarlega ekki fara að viðurkenna það hér á prenti. Slíkt gæti ratað inn á Smartland sem gladdi okkur í morgun með því að sænskur prins hefði skandileserað með glannaakstri: Fór á 88 þar sem hámarkshraðinn er 80. Við eigum eftir að smjatta á þessu í gufunni á föstudaginn, félagarnir.

Fáðu þér tvo og aktu svo, segir máltækið. Við barinn hitti ég Egil Jóhannsson, sem áður rak Forlagið með slíkum glæsibrag að ég valdi hann og pabba hans menn ársins í viðskiptalífinu, þegar ég gaf út Frjálsa verslun. Ekki veit ég annað en þeir feðgar hafi sloppið frá sínum viðskiptaævintýrum með óflekkað mannorð, en það er ekki hægt að segja um alla okkar verðlaunahafa. Það er önnur saga.

Egill var með hvítvínsglas í hendinni. „Það er fljótlegra að panta hvítvín en bjór“, sagði hann og ég spurði um hæl hvers vegna hann hefði ekki pantað tvö glös. „Þú segir nokkuð“, svaraði Egill. „Ég get að minnsta kosti sagt að nú drekk ég með mikilli ánægju í boði Forlagsins. – Og hef engar áhyggjur af kostnaðinum.“

Einar steig á stokk og las tvo kafla úr bókinni. Óhætt er að segja að þarna hafi viðstaddir séð höfundinn í nýju ljósi því að á hann lýstu marglitir ljóskastarar sem hefðu betur sómt sér í kynningu á sýrubókmenntum en skáksögu. Einar lét þetta ekki trufla sig og komst klakklítið í gegnum textann við fögnuð viðstaddra.

Ég var svo spenntur að byrja að lesa að ég dreif mig heim. Sagði Vigdísi frá því að ég hefði farið á öldurhús, en auðvitað bara af bókmenntaáhuga. Því til sannindamerkis tók ég upp bókina.

Það hefði ég betur látið ógert því hún þreif hana af mér og hefur ekki látið hana af hendi síðan. Lesturinn fer því í bið hjá mér að sinni.

Íslenskur leiðsögumaður sagði mér að hann hefði nýlega verið á Selfossi með hóp Bandaríkjamanna og lét þess getið í framhjáhlaupi (eða framhjáhaldi, eins og kerlingin sagði) að þar í nágrenninu væri Bobby Fischer grafinn.

Í rútunni var grafarþögn þangað til einhver áræddi að spyrja: „Hver var þessi Fischer?“

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.