Ósýnilegi óvinurinn

Veirur eru ósýnilegur óvinur og hættulegar fyrir vikið. Þær ráðast að okkur þegar minnst varir og geta gert skelfilegt tjón. Ríkisstjórnin hefur líka verið nánast ósýnileg frá upphafi og valdið skaða. Hún kaus að auka útgjöld til þess að kaupa sér vinsældir. Framtíðin skipti engu. Staða ríkissjóðs er nú um 100 milljörðum lakari en ef stefnu Viðreisnarstjórnarinnar hefði verið fylgt. 

Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari, sem skrifaði bókina Sapiens, talar um að stjórnmálamenn hafi ekki lengur framtíðarsýn heldur hugsi fyrst og fremst um að fylla stólana sem þeim bjóðast. Margir segja eflaust það sé ekki rétt, markmiðið sé alltaf að hjálpa vinum og flokksmönnum að komast að kjötkötlunum. Sala ríkisbankanna á sínum tíma til tveggja hópa, sem höfðu það eitt sér til ágætis að vera þóknanlegir hvor sínum stjórnarflokki, er líklega skelfilegasta dæmið um slæm stjórnmál á þessari öld. En slæmar ákvarðanir í fortíðinni mega ekki verða til þess að enginn þori að gera neitt.

Tónninn í núverandi stjórnarsamstarfi var sleginn þegar formaður Framsóknarflokksins skýrði hvernig flokkarnir náðu saman: „Með því að einbeita okkur að þessum verkefnum sem allir eru meira og minna sammála um að þurfi að fara í þá getum við vonandi náð að uppfylla þær væntingar sem landsmenn hafa til ríkisstjórnar.“ Með öðrum orðum, við tók fjögra ára starfstjórn sem ætlaði ekki að breyta neinu.

Núvitund er leið til að efla vellíðan með því að beina athygli að líðandi stund og finna betur fyrir sjálfum sér, hugsunum sínum og líðan. Núvitund skeytir því hvorki um fortíð né framtíð. Þetta kann að hjálpa einstaklingum, en er afleit stefna í stjórnmálum. Samt mætti kalla ríkisstjórnina Núvitundarstjórnina, því að hún hefur enga stefnu nema það „sem allir eru meira eða minna sammála um“.

Og þó. Flokkarnir hafa skapað nýja auðmannastétt með því að vera á móti markaðstengdu auðlindagjaldi í sjávarútvegi. Þeir vilja ráða því hvað fólk borðar með innflutningshöftum og tollum á erlend matvæli. Ráðherrar eru einhuga um að hér skuli vera gjaldmiðill sem flöktir bæði í logni og vindi. Loks telja þeir best að Ísland sé aukafélagi í Evrópusambandinu, án atkvæðisréttar. Ríkisstjórnin sameinast um kyrrstöðuna.

Þegar loksins kemur eitthvað frá stjórnarflokkunum verður það oft broslegt, til dæmis tillagan um sex ára kjörtímabil forsetans „eins og í nágrannalöndunum“.

Ísland þarf framsækna ríkisstjórn, stjórn sem vill að þjóðin öll njóti afraksturs af sameiginlegum auðlindum, gerir Ísland að virkum þátttakanda í alþjóðastarfi og hverfur frá einangrunarhyggju, tryggir öllum landsmönnum jafnan atkvæðisrétt, beitir sér fyrir lægra matvælaverði og stöðugum gjaldmiðli. Þjóðin þarf stjórn sem berst gegn veirum og óværum.

1 comments

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.