Maður bíður með gikkinn spenntan og þegar þeir líta upp horfir maður augnablik í glyrnurnar á þeim og lætur vaða.“ Hann þagnaði aðeins, renndi tungunni yfir efri vörina og drap tittlinga meðan hann leit yfir hópinn. „Maður verður að hitta milli augnanna í fyrsta skoti, annars tryllast þeir. Það er miklu erfiðara að drepa trylltan kött en stilltan.“ Hann dró upp rauðan tóbaksklútinn, en í stað þess að snýta sér stakk hann einu horninu í eyrað á sér. Tóbakskögglarnir duttu niður á skyrtuna.
Þetta var eitt af sumrunum sem ég vann hjá Vegagerðinni. Ég veit ekki hvort það var skipulagt, en hverjum einasta hópi af sumarstrákum fylgdi eitt gamalmenni. Ekki verkstjórinn, hann var ungur smiður, þrítugur eða svo. Á þessum árum var ég ekki sérlega snjall að átta mig á aldri fólks. Þeir sem voru meira en tuttugu og fimm ára voru kallar. Menn yfir fertugt voru gamlir kallar. Eftir á að hyggja hefur Hilaríus verið um fimmtugt þegar ég sá hann fyrst. Líklega aðeins eldri. Hann var alltaf í flókaskyrtu og belgvíðum bómullarbuxum. Innan undir skyrtunni skein í gulleitan bolinn sem hafði einhvern tíma verið hvítur, en það voru mörg ár síðan. Dags daglega var hann í gömlu grænu Álafossúlpunni. Nema hvað.
Flestir létu Hilla afskiptalausan. Það var helst Doddi sem reyndi að fá karlinn til þess að blaðra, en okkur hinum fannst hann ógeðslegur, jafnvel óhugnanlegur. Hann hafði verið á sjónum og stundum þegar Doddi kom honum af stað sagði hann sjóarasögur. Þær voru flestar á sömu lund, um félaga hans sem höfðu fest króka á viðkvæmum stöðum, af heimsóknum í hóruhús í ömurlegum enskum sjávarþorpum eða slagsmálum við aðra drabbara. Þær enduðu oft eitthvað á þessa leið: „Og áður en nokkur vissi af lá augað úti.“ Svo hlógu hann og Doddi rosalega meðan við hinir misstum matarlystina.
Langlíklegast hefði Hilli verið eins og hver önnur svipmynd sem bregður fyrir í lífi manns, hluti af tilverunni á hverjum degi í langan tíma og svo ekki söguna meir. Horfinn og enginn leiðir hugann að honum aftur.
Þess vegna varð ég hissa að sjá hann fimmtán árum seinna þegar ég fór með son minn í skólann í fyrsta sinn. Hissa er ekki rétta orðið. Mér fannst óþægilegt að sjá karlinn. Mér sýndist hann ekkert hafa breyst nema orðinn enn hrukkóttari og ljótari. Ósjálfrátt reyndi ég að fela strákinn sem auðvitað þýddi ekkert. Ætlaði að láta eins og ég væri að flýta mér og tæki ekki eftir karlinum, en í því að ég snaraði mér inn greip hann í handlegg¬inn á mér.
„Ætlarðu ekki að heilsa gömlum vini?“ sagði hann og hló sama ógeðslega hlátrinum og í gamla daga. Ég lést vera smátíma að átta mig á honum en sagði loks: „Hilli minn, ert þú hér!“
Hvers vegna sagði ég „Hilli minn“? Ég beit mig í vörina.
„Jú, jú, kominn til þess að passa að krakkaskríllinn geri ekkert ljótt.“ Hann sneri sér að syni mínum og sagði: „Þú hefur þig hægan, góði, og þá verður ekkert vesen með Hilaríus gamla. Annars færðu að finna að Hilli karlinn kann tökin á gaurum eins og þér.“
Mig langaði til að lemja karlinn, en ég hef aldrei lamið neinn svo að við feðgar gengum rösklega áfram í átt að stofunni og hann kallaði á eftir okkur: „Þú þarft ekki að vera hræddur um að hann geri neitt af sér meðan ég er á vaktinni.“
—
Eldri sonur minn vildi eignast hund. Hundar eru hræðileg dýr. Þegar ég sé hund stirðna ég upp og kemst varla úr sporunum. Ef ég get hlaupið í skjól, farið yfir götuna, komið mér burtu, geri ég það. Hundar vita þetta og ef ég lendi í herbergi með þeim sækja þeir í mig, setja hrammana á hnén á mér og vilja sleikja á mér hendurnar. Það er martröð. Þegar konan vildi láta þetta eftir drengnum sagðist ég verða að flytja annað. Við sættumst á að strákurinn fengi gullfiska. Honum fannst lítið fútt í því nema þegar hann veiddi hornsíli og setti í búrið. Eftir viku var sílið búið að éta fiskana og drapst loks sjálft.
Meðan við skoluðum búrið og komum því fyrir í geymslunni horfði konan þannig á mig að það fór ekki á milli mála að þetta var allt mér að kenna. Mér fannst þetta óþægileg og ósanngjörn ásökun, sérstaklega vegna þess að hún sagði ekki orð. Um kvöldið var samviskubitið orðið óbærilegt og ég sagði: „Allt í lagi. Hann má fá kött.“
Kettir eru ekki eins ógeðslegir og hundar, en þeir voru ekki í neinu uppáhaldi hjá mér heldur. Kosturinn er samt sá að það er hægt að sleppa þeim út án þess að ganga með þá í ól eins og fábjáni. Eftir ár var okkar köttur hættur að míga í öllum hornum og farinn að klóra leðrið af sófanum okkar í staðinn. Krakkarnir höfðu gaman af kisunni en ég talaði aldrei um hana öðruvísi en „andskotans köttinn“.
Einn daginn lá dauður fugl við útidyrnar hjá okkur. Hvað gerir maður við dauðan fugl? Hvers vegna veiða kettir fugla ef þeir éta þá ekki? Hvers vegna eru dýr svona ógeðsleg?
„Andskotans kötturinn er farinn að drepa fugla í ná¬grenninu,“ sagði ég þegar ég gekk inn í eldhúsið þar sem þau sátu öll við kvöldmatarborðið. Kötturinn var með sína skál í horninu. Börnin litu öll á mig og konan sagði: „Hvernig geturðu talað svona fyrir framan börnin?“
Yngri sonur minn sagði einlæglega: „Hann er að koma með sitt framlag til heimilisins.“ Konan strauk tár af kinninni. Mér leið ömurlega og hafði vit á að segja ekki meira.
Kettir fara sínar eigin leiðir. Það gerði þessi köttur líka. Af því að hann kom alltaf heim á kvöldin var augljóst að eitthvað var að eitt kvöldið þegar hann var ekki kominn klukkan að verða níu.
Krakkarnir vildu fara út að leita að honum. Ég sagði að hann myndi skila sér, en þegar ég leit á konuna áttaði ég mig, fór í úlpuna og elti börnin. Þau eldri skipulögðu leit og fóru hvort í sína áttina. Ég leiddi þann minnsta í þessu tilgangslausa ráfi.
Allt í einu kippti hann í höndina á mér. „Mér finnst ég heyra í honum.“ Aumingja barnið heyrði það sem það vildi heyra. Ég lést vera áhugasamur og elti hann út á róluvöll, upp að skólanum og framhjá búðinni. Næst búðinni var stórt einbýlishús sem stóð hátt í lóðinni og upp að því var hallandi steinbeð með fallegum blómum. Í beðinu miðju stóð maður í grænni úlpu. Hann kallaði á eftir okkur: „Á ekki að heilsa gömlum vini?“
Þarna var Hilli ljóslifandi kominn. Hann bograði yfir blómunum með krukku í annarri hendinni og skeið í hinni. Hann glotti svo skein í góminn. „Ég er farinn að vinna hjá borginni sem meindýraeyðir. Eyðing er starf við mitt hæfi. Ekkert jafnast á við að finna dauða rottu sem hefur bergt á blásýrubuffinu mínu.“ Aftur heyrðist þessi ískrandi hlátur sem fór í gegnum merg og bein. Þegar ég horfði á hann minnti hann mig allt í einu á rottu, með mjóleitt andlit, nef sem bognaði upp á við og lítil stingandi augu. Ég tók í lúkuna á honum, en var um leið viss um að hún væri þakin einhverri ólyfjan og varð að passa mig að þurrka ekki strax af henni á buxnaskálminni.
„Við erum að leita að kattarfjandanum,“ sagði ég til þess að þurfa ekki að stoppa lengi hjá honum.
„Kattarfjandanum,“ sagði Hilli. „Bannsettum kettinum.“ Hann þagnaði en bætti við: „Kettir eru til óþurftar. Andskotans meindýr. Mér finnst mest gaman að eyða villiköttum. Þá fer ég út á nóttunni með byssuna.“ Enn hikaði hann og strauk með löngum og mjóum fingrunum niður andlitið: „Maður horfir eitt augnablik í glyrnurnar á þeim og klárar þá í fyrsta skoti.“ Hann glotti og ég sagði að það væri gaman að hitta hann en ég yrði að halda áfram á eftir drengnum.
Við fundum hvorki tangur né tetur af kattarskrattanum og héldum daufir heim á leið. Þegar við fórum framhjá spennistöðinni sagðist sonur minn enn heyra í kisunni. Ég sagði að líklega væri kötturinn langt í burtu, en svei mér ef ég heyrði ekki líka mjálm. Við stoppuðum og kíktum í garðana í kring en þar var ekkert að heyra eða sjá. Við fórum aftur á sama stað og það var ekki um að villast; við heyrðum mjálm í ketti.
Spennistöðin varð miðpunktur leitarinnar en fjárans kötturinn sást hvergi. Við heyrðum samt ámátlegt mjálm öðru hvoru, það leyndi sér ekki. „Kannski hefur hann farið inn um dyrnar,“ sagði sonurinn, en það fannst mér ólíklegt því þær voru harðlæstar, ég hafði tekið fast í húninn. Strákurinn var lagstur á hnén og teygði höndina inn.
„Passaðu þig,“ sagði ég því að þó að við krakkarnir hefðum í gamla daga leikið okkur í kringum óvarða spennistöð vissi ég núna að það gat verið dauðadómur. „Ég sé hann,“ sagði strákurinn og þá fór ég líka niður á hnén.
Kattarskömmin var þarna og virtist hafa smokrað sér inn í gegnum litla holu undir timburvegg. Hann var greinilega fastur og komst hvorki lönd né strönd. Það var ekkert annað að gera en teygja höndina inn og vona að ég lenti ekki á rafmagnskapli. Ekki gat ég verið sá fantur að skilja dýrið eftir þarna. Eftir á að hyggja hefði ég getað hringt í rafmagnsveituna og beðið hana um aðstoð, en það datt mér ekki í hug.
Kettir eru almennt ekki gáfuð dýr og það var okkar köttur ekki heldur. Þegar ég greip um rófuna á honum, því annað hald var ekki að fá, streittist hann á móti og ég varð að beita afli. Samt gekk tiltölulega vel að losa hann en eftir því sem ég tók fastar á barðist hann harkalegar um. Loks voru báðar komnar út, kisan og blóðrisa höndin. Strákurinn faðmaði köttinn að sér en skeytti engu um særðan föður sinn.
„Það er brunalykt af honum.“ Sviðalyktin af kisa leyndi sér ekki. Hann hafði greinilega stofnað til of náinna kynna við Rafmagnsveitu Reykjavíkur. En þó að báðir værum við laskaðir tókst okkur að komast heim, kettinum og mér.
Brunalyktin var lengi að hverfa og rófan brotnaði í björgunar¬aðgerðinni. Ég vissi ekki einu sinni að kattarrófur gætu brotnað, hélt að þær væru eins og reipi sem rúlluðust upp þegar þörf væri á, en gætu líka staðið beint upp í loftið þegar sá væri gállinn á kettinum. Þessi rófa stóð aldrei framar beint upp í loftið.
Mér er illa við að viðurkenna það, en eftir þetta var mér farið að þykja dálítið vænt um helvítis köttinn. Sérstaklega eftir að ég var búinn að hreinsa skrámurnar á hendinni. Þegar hann kom næst með fugl í búið ákváðum við að búa fallega um líkið og jarðsetja í beði með krossi úr íspinnum ofan á. Þó að fljótlega væri kominn lítill grafreitur í garðinn amaðist ég ekki lengur við þessu framlagi. Ég hætti meira að segja að tala um fjárans köttinn og sagði „kattarskömmin“.
Einu sinni kom frétt í sjónvarpinu um köttinn okkar. Fiskbúðin í Skipholti var talin besta fiskbúð í bænum og þangað vandi kötturinn komur sínar og sat fyrir utan. Karl¬arnir sem ráku búðina voru farnir að gauka að honum bita. Einn daginn mætti líka mávur á svæðið. Ekki veit ég hvernig það atvikaðist en fljótlega var mávurinn farinn að fá sitt fiskstykki líka. Stundum léku þeir sér aðeins saman, en að mestu leyti voru þeir hvor með sitt og létu hinn óáreittan. Þegar okkar kisi birtist á skjánum með vini sínum var ekki laust við að ég væri hreykinn og sagði meira að segja frá því í kaffi¬tímanum í vinnunni daginn eftir að kötturinn minn væri sjónvarpsstjarna.
Skömmu seinna hvarf hann aftur. Nú skilaði hann sér ekki í nokkra daga. Við fórum út og kíktum inn í spennistöðina, en þar var ekkert. Kvöld eftir kvöld gengum við sífellt stærri hringi, en ekki hjálpaði það.
Ég tók mér meira að segja frí í vinnunni og skaust í fiskbúðina til þess að spyrja karlana hvort þeir hefðu séð kisuna mína. Nei, hún hafði ekki komið í viku, sögðu þeir.
Um kvöldið fór ég í langan göngutúr, allt frá Hlemmi upp í Öskjuhlíð, því að einhvers staðar hlaut dýrið að vera. Krakkarnir voru löngu hættir að nenna að leita. Ekkert skilaði sér nema vonbrigðin. Ég rölti heim á leið daufur í bragði.
Við lúpínubreiðu sá ég mannveru bogra yfir einhverju. Ég vildi vera einn, gekk niðurlútur og heilsaði ekki. Veran reis upp og skaust í veg fyrir mig, eilítið hokin í öxlum, handleggirnir langir og mjóir og það lá við að hnúarnir snertu jörðina. Ég vissi strax hver þetta var. Auðvitað myndi hann koma og heilsa upp á mig. En endilega í kvöld?
„Þú ert á heilsubótargöngu sé ég er. Alltaf gott að vera einn og þurfa ekki að hafa áhyggjur af kerlingunni og grislingunum.“ Hilli hló með sínum sargandi hlátri sem alltaf virtist hanga niðri í hálsinum. Hann pírði augun og deplaði þeim aftur og aftur. Svo var eins og honum fyndist ég þurfa að fá skýringu á veru hans hér.
„Ég er að eyða kanínum í Öskjuhlíðinni. Bölvuð óværa kanínan. Maður veiðir hana í gildrur, lokkar hana í snöruna með eitraðri gulrót. Kanínur eru hlægilega vitlaus dýr. Ef þær festast ekki í snörunni brennir gulrótin á þeim innyflin smám saman. Á endanum nær maður þeim öllum.“ Aftur þessi hryglukenndi hlátur. „Hugsaðu þér, maður nær þeim öllum. Hættulegt fyrir gæja eins og mig, útrými sjálfum mér með meindýrunum, hé, hé, hé.“
Mig langaði til þess að segja að mér fyndist kanínur falleg dýr og hann væri rottulegur karakter. En ég var þreyttur og leiður og vissi að kisinn minn kæmi ekki aftur þó að ég missti stjórn á skapinu. Svo að ég jánkaði og gekk áfram.
„Nú það er ekki verið að eyða orðum á almúgann. Ekki einu sinni gamlan vin. Sér er nú hver fýlan.“ Það var ógeðsleg lykt af honum, rétt eins og af rotnandi kjöti. Starfið virtist umlykja hann eins og hjúpur.
Ég var leiður og strauk um augnkrókana með handar¬bakinu. Allt í einu fann ég aftur sama óþefinn. Hilli hafði laum¬ast á eftir mér. Hann lyfti fótunum og hlykkjaðist áfram eins og þjófur í teiknimynd. Áður en ég gat komið mér undan greip hann um handlegginn á mér.
„Þú þarft ekki að hafa meiri áhyggjur af helvítis kettinum.“
Ég horfði á hann og áttaði mig ekki á því hvað hann var að fara. Andlitið ljómaði og glottið náði nánast milli eyrnanna.
„Eitt einasta augnablik. Og ekki söguna meir. Þetta var það minnsta sem ég gat gert fyrir gamlan vin.“
Smásagan Kattarglottið kom út í samnefndu smásagnasafni árið 2011.