999 þrep

„Helllllloooooo!“

Við höfðum rölt fram og aftur um miðbæinn þangað til við fundum hótelið við lítið torg sem var við kirkju heilags Georgs (eða var það Ágústínus?). Á torgin var stytta sem mér sýndist vera af Tómasi Guðmundssyni, en nafnið hans skrifuðu þeir upp á grísku.

„Mamma sagði mér að það væri von á ykkur“, sagði grannleitur maður um tuttugu og fimm ára gamall eða svo.

„Við ætlum að fara inn um næstu dyr, upp tröppurnar, ég sýni ykkur leiðina, herbergið er tilbúið, það kostar áttatíu evrur nóttin, en morgunmaturinn er innifalinn, upp þennan stiga, hér er sjónvarp í stofunni, en þið hafið sjónvarp í ykkar herbergi, upp næsta stiga, nei ekki inn um þessar dyr, aðeins lengra, þá erum við komin, leyfið mér að opna, sjáiði, hér er ykkar sjónvarp, ég skal stilla fyrir ykkur loftkælinguna, í míníbarnum er flaska af vatni, hún er innifalin í verðinu, þessar dyr leiða út á svalir og þessar reyndar líka, hér sjáiðið upp á hæðina, þið ættuð að fara þangað, þið farið upp 999 þrep til þess að komast á toppinn.“

Hann þurfti að anda og ég skaut inn í hvers vegna þau væru ekki einu fleiri.

„Það er gaman að þú skulir spyrja að því, en ég hef heyrt og það er bara sögusögn að hermaður hafi farið upp allan stigann á hestinum sínum og þegar hann var kominn alla leið upp hafi hesturinn sparkað burt síðustu tröppunni, en sumri segja að það séu alls ekki 999 þrep, en eins skrítið og það er hafa engir tveir gefið mér sömu tölu á þrepum, sumir segja áttahundruð og eitthvað, en engir tveir nefna sömu tölu, en við þurfum að borða í kvöld og þá er spurningin hvar okkur finnst best að snæða, það eru eiginlega engir góðir veitingastaðir í Nafplio, þrír eru þó sæmilegir, en ekki fara þangað með miklar væntingar, amerískir gestir sögðu mér um daginn, ég verð að fara eftir umsögnum gestanna, þó að ég hafi reyndar borðað sjálfur á öllum stöðunum, þá sögðu þeir að Adenas væri ágætur, en ég fór þangað um daginn og fannst hann ekkert sérstakur, en Omokron kom mér á óvart, en væntingarnar voru ekki miklar, svo þurfið þið að ganga umhverfis höfðann og fara til Epidesus, þar er flottasta leikhús í Grikklandi hinu forna.“

Meðan hann lét dæluna ganga reyndi ég að muna hvaða annar maður hefði rekið hótel og nefnt mömmu sína sem ekki sást neitt til. Virtist meinlaus.

Í stuttu máli sagt var þetta hótel stórkostlegt, svalirnar náðu í hálfhring um húsið og inn á þær var sérstakur þjónustuinngangur sem konan sem færði okkur morgunmatinn kom inn um.

„Ég þarf að kanna hvort að þið hafið lagt bílnum ykkar löglega, ég fer á skellinöðrunni minni og athuga það og ef ég hringi þurfið þið að færa hana, en munið að ef ég læt ekkert í mér heyra þurfið þið ekki að gera neitt, …“

Nafplio er fallegur bær, ferðamannaborg þar sem gaman er að fá sér hvítvínsglas, en maður borðar ekki af því að það er skemmtilegt heldur bara af því að maður er svangur. Við fórum á matsölustað B.

Eigandinn sagði að við mættum sitja hvar sem er og kona í einu horninu kallaði: „Þetta er fínn matur, við borðuðum hér líka í gær.“ Við settumst á næsta borði við hana og manninn hennar, ensku fólki um sjötugt. Hún talaði hátt því eiginmaðurinn var heyrnardaufur og svaraði hátt á móti eins og daufra er háttur.

Vigdís spurði hvort ákveðinn réttur væri góður og eigandinn neitaði að svara. „Smekkur er afstæður“, sagði hann og þuldi svo dæmisögu um mann sem hafði fengið meðmæli með mat sem honum fannst svo lítið til koma.

„Hvaðan eruð þið annars?“ spurði hann og ég var ekki viss um að hann væri glaður þegar við sögðum sannleikann. Hann hafði fengið Íslendinga fyrr í vor og … Sagan endaði ekki.

Á endanum fengum við einhvern mat sem var ekkert sérstakur en spennandi. Vigdís pantaði kolkrabba en fékk bara einn arm, sem hún sagði að tæki tíma að venjast bragðinu af. Ég hvatti hana til þess að heimta sýnishorn af hinum sjö til þess að vita hvort þetta væri algilt bragð.

Karlinn var hins vegar skemmtilegur og það gerði heimsóknina vel þess virði.

„Those were your exact words“ sagði maðurinn á næsta borði hátt og skýrt og endurtók svo síðustu orð eiginkonunnar um að eitthvað tæki hálftíma. Konan lýsti þá öllu ferlinu og taldi að kannski tæki það ekki hálftíma en kannski tuttugu og fimm mínútur og eftir nokkra stund var ljóst að þau næðu ekki saman.

Við björguðum hjónabandinu með því að gefa okkur á tal við þau. Hvernig héldu þau að bresku kosningarnar færu. Þau voru viss um að allir töpuðu, Ed Milliband væri auli sem hefði verið miklu síðri kostur en bróðir hans. Svo væri hræðilegt hvað þjóernissinnarnir fengju mikið í Skotlandi, og kannski myndu Skotarnir slíta sambandinu þrátt fyrir allt sem væri hræðilegt.

„Nei það væri ekki svo afleitt“, sagði maðurinn hátt og skýrt og við urðum að beita nýrri tækni. Ég talaði við konuna og Vigdís karlinn þannig að hjónin voru sæmilega sátt það sem eftir lifði borðhaldsins.

Daginn eftir sáum við leikhúsið í Epideus, glæsilegt mannvirki sem ekki hefur verið kastað höndum til því að það er nærri heilt. Þar getur maður staðið niðri á sviðinu og talað lágum hljóðum sem samt heyrist á efsta bekk. Sumir vildu syngja, en við gátum haldið aftur af okkur með herkjum við mikinn fögnuð viðstaddra.

Þarna var upphaf nútíma læknisfræði. Yfirlæknirinn þarna hafði snák sér til fulltingis og snákabit reyndust svo vel að læknar hafa hann enn að tákni. Svo var talið mikilvægt að sjúklingarnir svæfu mikið, því að í draumi vitjaði lækningagyðjan þeirra.

Á skilti var sagt frá konungshjónum sem voru barnlaus en þegar drottningin kom í heimsókn í Epideus var henni blandaður göróttur drykkur sem hún sofnaði af. Hana dreymdi að til sín kæmi ungur maður sem stryki á henni magann og það var eins og við manninn mælt, níu mánuðum seinna fæddist konungshjónunum sonur.

Líklega er ég eitthvað brenglaður að gruna að lækningin hafi kannski ekki verið alveg svona.

Heima í Nafplio biðu þrepin 999 og engin grið voru gefin með það að leggja í hann þegar við snerum til baka. Ég taldi samviskusamlega hverja einustu tröppu og þegar við vorum komin í 914 beið okkar þrifleg stúlka í miðasölunni. Vigdís gat þó ekki á sér setið að spyrja hvort hún gengi upp á hverjum morgni, þó að ljóst væri að hún ætti í erfiðleikum með 90 tröppur, hvað þá níu hundruð. En sölustúlkan tók þessu með jafnaðargeði og svaraði greiðlega að, nei hún rölti bara af bílastæðinu bakvið kastalann.

Við héldum áfram upp og linntum ekki fyrr en við höfðum farið 1.104 þrep og blésum úr nös. Ég ætla að kvarta við túristaráð Grikklands yfir rangri upplýsingagjöf. Hvað ef ég hefði verið með læknisvottorð upp á 1.000 tröppur og þess vegna talið að 999 væru viðráðanlegar og svo fengið hjartaáfall? Mér segir svo hugur að Jón Steinar hefði getað unnið það mál fyrir mig.

Næsta dag fórum við til Spörtu. Þar er að vísu ekki margt að sjá, en í nágrenninu er merkilegur kastali uppi á hæð. Það svæði heitir Mystas og þar er margt fornminja. Ég verð að játa að svona rústir eru sífellt minna nýnæmi (sem líklega er nú ekki rétta orðið um fornminjar) eftir því sem maður sér fleiri. Að venju fórum við á efsta punkt og skoðuðum svo kirkjur og fleira á neðra svæði. Vigdís fékk sér hvítvínsglas með matnum og komst að raun um að áfengi og gönguferðir eru ekki besta blandan.

Dagurinn endaði í gömlu Ólympíu þar sem miklar minjar sjást. Satt að segja var svolítið gaman að rölta um það svæði, ekki síst að fara inn á gamla leikvanginn. Í gamla daga kepptu allir naktir. Fyrir keppni báru þeir á sig olíu og leir í sérstökum búningsklefum, líklega sem sólvörn.

Ég stóðst ekki mátið og tók sprett á leikvanginum og var að sjálfsögðu eins búinn og keppendur til forna. Nokkrir áhorfendur fylgdust með og hlaupið vakti verðuga athygli, væntanlega vegna glæsilegs hlaupastíls míns. Vigdís tók myndskeið af atburðinum og hyggst setja það á Youtube innan skamms.

Safnið var líka svolítið skemmtilegt og almennt verð ég að hrósa Grikkjum fyrir að söfnin eru aðgengileg fyrir útlendinga, skilmerkilegur texti á ensku með hverjum hlut.

Í bænum fengum við okkur bita á götuveitingastað sem hótelhaldarinn í Pelops hótelinu benti okkur á. Veitingamaðurinn var svolítið slímugur, með með hárið greitt beint aftur og sagði okkur að allur hans matur væri búinn til á staðnum, ekki einn biti frosinn. Svo lét hann okkur fá matseðlana.

Þegar hann kom til baka sagði hann okkur aftur að allur matur væri búinn til á staðnum og ekki einn réttur frá 1944. Við pöntuðum góða gríska rétti. Vigdís pantaði meira að segja lambakjöt sem ég sagði henni að væru mikil mistök.

Einni og hálfri mínútu seinna komu rjúkandi réttir fyrir okkur og ég spurði hvort þeir væru úr örbylgjunni og fékk fyrirsjáanleg svör.

Eins tregt og mér er að samþykkja það þá var minn réttur ágætur, svo ég horfði meðaumkunaraugum á Vigdísi með lambið. Það gat ekki verið gómsætt, en ég spurði samt, með varfærnislega því ég get verið afar skilningsríkur þegar ég vil það við hafa: „Viltu kannski bita hjá mér?“

Vigdís leit á mig, hugsi. „Nú ætlar hún að stinga upp á að við skiptum á diskum“, hugsaði ég. Svo hristi hún höfuðið og hélt áfram að borða.

Nú veit ég að hún myndi aldrei viðurkenna að að hún hefði pantað slæman rétt, allra síst eftir að ég hefði bent henni á það, þannig að ég reyndi að lesa sársaukann út úr svipbrigðunum. En þar var ekkert nema ósvikna sælu að sjá. „Svona góð leikkona er hún ekki“, hugsaði ég og varð hreinlega að biðja um bita, sem ég ætlaði auðvitað að spýta út úr mér með hryllingi.

Það var auðsótt og ég fékk mér örlitla ögn.

Ég verð að játa að sjaldan hef ég orðið jafn hissa (eða hissari eins og þeir segja fyrir norðan). Ég varð á svipinn eins og Mikki refur þegar hann fékk góðu piparkökuna. Þetta var einfaldlega besta lamb sem ég hef smakkað.

„Sérðu konuna þarna á bakvið þig?“ sagði ég og þegar Vigdís leit við færði ég helminginn af skammtinum yfir á minn disk. Lambið var kryddað með oregano, kanil og einhverju þriðja kryddi sem ég fæ ekki munað og get þess vegna ekki matreitt þetta sjálfur. En gott var það.

Síðasta daginn héldum við upp í fjöllin. Ég mæli með því þó að Helena leiðsögumaður gæfi stundum undarlega leiðbeiningar. Oftast var það nú saklaust, eins og að beygja til hægri þegar þverhnípi var vinstra megin, eða að halda áfram á beinni braut. Aðeins einu sinni sagði hún okkur að fara niður þröngan, snarbrattan slóða. Við hlýddum ekki og þá fór hún í fýlu og sagði ekki orð í hálftíma á eftir.

Sumir bæirnir heita sérkennilegum nöfnum. Það fylgdi því viss spenningur að koma til Klitoria, sem reyndist nú ekki alveg jafn eggjandi og nafnið benti til.

Skammt þar frá er Kastria hellirinn, en þar er stöðuvatn inni. Okkur fannst það vel þess virði að rölta þar með stúlku sem sagði okkur frá undrum hans á grísku. Þar eru leðurblökur sveimandi yfir vötnum, en létu okkur í friði.

Ferðinni var heitið í Kalavrita, lítinn fjallabæ þar sem lestin í gegnum Vouraikos skarðið leggur af stað. Hún liggur í snarbrattri fjallshlíð og víða bara pláss fyrir lestarsporin og varla það. Sjaldan höfum við farið skemmtilegri ferð, en hún er ekki fyrir þá sem vilja ekki horfa út um gluggann niður í hyldýpið, meðan nibburnar rispa nánast gluggana hinum megin. Ferðin endar í Diakopto, sjávarbæ sjöhundruð og fimmtíu metrum neðar. En fyrir fólk með stáltaugar er þetta eins og punkturinn yfir i-ið á stórkostlegri Grikklandsför.

Einhvers staðar þurftum við að gista og við pöntuðum hótel í snotrum bæ sem heitir Loutraki, um 100 kílómetra frá Aþenu. Hótelhaldarinn bauðst til þess að sækja okkur þegar við kæmum, en ég taldi að það væri óþarfi, við kæmum á eigin spýtur um sjö leytið. Líklega hefði það átt að vekja grunsemdir að í bókinni stóð að þessi huggulegi staður væri talinn fyrirmyndin að bænum í Mamma Mia. Þegar við komum inn í borgina var hún alveg þolanleg, en varla sérstaklega rómantísk, að minnsta kosti ekki eins og mig minnti að myndin hefði verið (þarf ekki að taka það fram að ég fór fimm sinnum á hana, þar af tvisvar á á Sing-along með leikfimihópnum).

Hótelið fannst hvergi þannig að ég hringdi aftur í hótelhaldarann vinsamlega. Hann bauðst aftur til þess að sækja okkur og spurði hvar við værum. Þegar ég reyndi að lýsa því áttaði hann sig ekkert á því og spurði hvort ég væri ekki á höfninni. Ég sagðist vera á aðalgötunni næst ofan við miðbæinn.

Eftir langar samræður kom í ljós að hann var á Loutraki eyjunni, hvar sem hún nú er, meðan ég var í borg á meginlandinu með sama heiti. Hann varð af kúnnunum og við af Abba rómantíkinni. Samt rættist vel úr hjá okkur því að Cristina Marina hótelið bauð upp á fallegt sólarlag við ströndina. Cristina leigði okkur fínt herbergi við sundlaugina (sem við fórum ekki í, en hún var flott).

Næst held ég að við tökum samt eyjuna framyfir.

Ferðin á flugvöllinn gekk svo klakklaust og við komum þangað á réttum tíma til þess að skila bílnum og Helenu. Helst bar til tíðinda að reikningurinn stemmdi ekki. Við urðum aðeins vör við að Grikkirnir reyndu að smyrja ofan á reikninga og þegar ég bað um skýringu svaraði stúlkan að þetta væri vegna þess að við hefðum skilað bílnum hálftíma of snemma. Ég setti upp marmarasvipinn og gaf mig ekki fyrr en við höfðum fengið sextíu evru lækkun.

Ég hafði lært af ferðafélaga okkar á ferjunni í Santorini sem eyddi mestum hluta ferðarinnar í að útskýra hve mikið hann hefði sparað á því að panta í nóvember. „Það eru bara örfá flug frá London til Santorini á 67 pund. Síðast missti ég af þeim og frestaði ferðinni um ár. Og vitið þið hvað ég sparaði mikið á hótelherberginu?“

Ég komst ekki að til þess að segja honum að ég hefði engan áhuga á því að vita það og þar sem ég reikna með að lesendur séu sama sinnis enda ég frásögnina hér.

Grikkland er frábært land og næst þegar ég verð sextugur fer ég þangað aftur.

Benedikt Jóhannesson – bj@heimur.is


 

Allir kaflar í Grikklandssögunni:

Upphafið

Siglingin

Afmælið

Bílferðin

Ólympíuleikarnir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.