Dagfælisumar (BJ)

Þegar ég var strákur las ég bækur sem hétu Alfræðirit AB, minnir mig. Þar var fjallað um mannshugann og meðal annars nokkrar spurningar sem áttu að mæla greind. Ein var um orðarugl og maður átti að segja hvaða orð passaði ekki. Ekki man ég hvort ég gat svarað rétt, en ég man að orðið sem passaði ekki var dagfælisumar. Hitt voru orð eins og dánumagurkviðudimgaur og dausgunnur eða eitthvað svoleiðis. Meðan ég klára að skrifa pistilinn geta lesendur spreytt sig á því að leysa gátuna.

Þó að mig hefði alltaf langað til Grikklands voru eyjarnar ekki hátt á blaði hjá mér. Að vísu nefndu allir þær þegar ég spurði, en það er vegna þess að vinir mínir eru letingjar sem vilja helst vappa um í sólinni á ströndum en vita ekkert um menningu. Ég vildi auðvitað spranga um grundir Sókratesar og Alexanders mikla, ganga feti framar eins og Spartverji og virða Afródítu og Aþenu fyrir mér. Vakna í vöggu lýðræðisins.

Einhvern veginn er það samt svo að þegar kemur til atkvæðagreiðslu hjá okkur Vigdísi kemur í ljós að hún er með tvö atkvæði á móti mínu eina. Þess vegna sigldum við nú áleiðis að einhverri eyju sem ég hafði aldrei heyrt getið um svo ég myndi, Santorini. Eyjarnar sem við stoppuðum í á leiðinni hétu frægum nöfnum eins og Naxos og Eio, en kannski eru þetta bara vörumerki sem ég þekki.

Við sjóndeildarhringinn blasti við innsigling á klettaeyju. Tindarnir voru snævi þaktir, sem ég vissi að gat ekki verið, þannig að ég reiknaði með að þetta væru skófir fremur en fugladrit. Þegar nær dró sá ég að vinstra megin við innsiglinguna var fallegt þorp sem við sigldum óhikað framhjá. Nú áttaði ég mig á því að hvítu skellurnar voru hvorki skófir né skaflar heldur hvítkölkuð hús sem hanga ofan á eynni eins og dúkur sem hefur verið lagður til þerris.

Neðan við húsin eru snarbrattar hlíðar, en manni sýndist þau byggð fram á ystu nöf. Og stundum utar. Eitt húsið stóð í miðri hlíð. Eflaust einhver auðjöfursvillan.

Á höfninni beið okkar ungur maður með skilti í hendi sem á stóð Vigdís Jónsdóttir. Auðvitað sendur bílstjóri á vettvang þegar hún kemur í bæinn. Göturnar eru þröngar og ekki mæli ég með því að taka bíl á leigu eins og hér boðið upp á. Ekki nema bílstjóri fylgi.

Það er stutt í Fira, fallegt þorp á miðri eyjunni. Menn segja að Santorini hafi verið kringótt í gamla daga og svo hafi miðjan sokkið í sæ eins og Atlantis. Ekki veit ég neitt um það, en það er ekki langt síðan síðast gaus hér rétt fyrir utan, 1939-40. Svo koma líka jarðskjálftar öðru hvoru sem leggja allt í rúst. Einmitt besti ferðamannastaðurinn.

Við sváfum eins og ungbörn, nema ég sem átti afmæli daginn eftir. Ég hafði stöðugt andvara á mér til þess að missa ekki af neinu. Fimm mínútum áður en klukkan hringdi stökk ég á fætur til þess að fara í sturtu. Vigdís vaknaði við klukkuna hálf sjö og klukkan sjö vorum við komin á stiginn áleiðis frá Fira til Oia. Sólin var nýkomin upp, en hér slórar hún ekki neitt, er fljót að taka við sér, en við vorum samt skuggamegin á eynni þó að við værum sólarmegin í lífinu.

Fáir voru á ferli. Makaríos heitinn erkibiskup var þarna á spjalli viði bróður sinn sem hefur álíka skeggvöxt en er líklega skipakóngur eða mafíósi. Að minnsta kosti þurftu þeir að hittast áður en margir voru á ferli.

Húsin eru skjannahvít og kirkjurnar sem víða prýða umhverfið eru með bláum þökum. Það er eins gott að vera ekki villuráfandi því að þá gæti maður dottið niður klettana og ekki víst að mikið sæist til manns eftir það.

„Ekki horfa í augun á hundunum“, var viðvörun sem ég fékk áður en ég kom til Grikklands, en víða er flækingshundar. Vegna þess að ég er skelfingu lostinn þegar hundar nálgast leita þeir til mín. Við fallega kirkju heilags Lúkasar kom einn. Ég reyndi svo harkalega að vera afslappaður að ég stífnaði upp. Hvuppinn sleikti á mér kálfana.

Ég hugsaði með mér hvílík mistök það hefðu verið að vera í stuttbuxum. Nú ætti hann auðvelt með að rífa holdið frá beinunum.

Við höfðum  gengið framhjá stígnum niður að húsinu í hlíðinni sem við sigldum framhjá. Kannski gætum við leitað skjóls þar. Við snerum við og fetuðum okkur niður stiginn. Í ljós kom að þetta var ekki millahöll heldur kirkja sem er byggð inn í bergið, á bakvið framhliðina er sandsteinshellir.

Ekki þarf að orðlengja það að hundurinn fylgdi okkur dyggilega. Nú sleikti hann líka á mér handarbökin. Æðarnar þrútnuðu og hnúarnir hvítnuðu og ég lét eins og einmitt þetta vildi ég helst. Kirkjan, eða bænahúsið sem þetta er kannski frekar, var bundin aftur, en ég leysti hnútana eins og afslappaður dróttskáti. Tók í húninn og viti menn; dyrnar voru opnar.

Þegar hundurinn gekk fram á klettasnös átti ég allt í einu tvo kosti: Hlaupa og ýta honum framaf eða fela mig í kirkjunni. Seinni kosturinn reyndist misvel í Sturlungu, en ég ákvað að treysta á vernd guðs. Ýtti hurðinni snöggt inn og … gólfið var skakkt þannig að rifan sem opnaðist var ekki nema 30 sentímetrar.

Inn komst ég ekki, en þegar við gegnum af stað, alveg sallaróleg, vísaði hundurinn okkur auðvitað leiðina. Sem betur fer taldi hann að við ættum heima í Fira (sem er rétt) en við vorum á leiðinni til Oia og sluppum.

Gangan er sögð fjórir tímar og eftir rúma þrjá vorum við komin í útjaðar Oia. Það er líka fallegt þorp, einkum sú hliðin sem snýr að ferðamönnum. Bakhliðin er eins og óhreinu börnin hennar Evu, hulin guði og mönnum nema maður eigi sérstakt erindi þangað.

Grikkir búa til svakalega fínan mat. Ég held að við eigum að halda þeim í Evrópusambandinu (sem við ráðum auðvitað engu um). Pönnukaka með osta- og skinkufyllingu var lostæti.

Leigubíllinn sem átti að koma eftir sjö mínútur kom eftir rúman hálftíma og Vigdís þurfti að slást við einhvern Ameríkana til þess að við héldum honum. Bílstjórinn talaði stanslaust, hátt og grískt, til skiptis í símann og talstöðina. Stundum í bæði samtímis. Vegurinn er sums staðar varla einbreiður, en hann fór samt framúr og mætti bílum á fullri ferð. Ég fór að sjá eftir því að Kaninn hefði ekki unnið slaginn við Vigdísi.

Heima á hótelinu gátum við lagt okkur. Ekki á hverjum afmælisdegi sem maður gengur 10 kílómetra. Margir hringdu, sendu sms eða tölvupóst – fyrir utan allar FB-kveðjurnar.

Vænst þótti mér þó um þegar ég frétti að Sigmundur hefði hlaupið úr þingsalnum til þess að fá sér súkkulaðiköku með rjóma, bara til heiðurs mér. Fékk sér meira að segja þrjár sneiðar. Ég skil ekki hvers vegna menn eru að hnýta í þennan öðling.

Siglingin út að eldfjallaeyjunni var tíðindalítið. Yul Brynner var skipstjóri á vélknúinni seglskútu. Þarna hefur hvert hraunið flætt yfir annað og í gígbarminum er brennisteinshver. Hlýr og notalegur.

Sjórinn var hins vegar ekkert sérstaklega notalegur þegar við stungum okkur til sunds. Sumir stukku frá borðstokknum, en ég klöngraðist niður stigann og lét mig síga niður. Sjórinn er býsna djúpur og svo er hann líka saltur. Það voru milli 50 og 100 metrar í land og ekkert annað að gera en stefna þangað.

Ég gat ekki hugsað mér að setja andlitið niður í sjóinn, auk þess sem brúnar moldarflygsur flutu um. Steinninn sem ég stefndi á virtist ekkert færast nær, en Vigdís var sem betur fer á réttu róli. Eftir nokkra stund fór ég að hugsa um að menn myndu hugsa með sér þegar þeir kæmu að legsteininum mínum: „Nú hann hefur orðið sextíu ára upp á dag.“

Svo hugsaði ég að menn sem drukkna eru ekki grafnir. Eða hvað? Ég hafði reyndar hugsað mér að láta brenna mig, en það gæti orðið erfitt þegar maður er orðinn vatnsósa. Vigdís stefndi inn í einhverja vík og ég ákvað að beita síðustu sundtökunum til þess að komast þangað.

Það tókst og þar gat maður botnað. Fólk makaði framan í sig ógeðlegri leðju af botninum. Það gerði ég ekki, en sá flösku á floti og ætlaði að fleygja henni á landi, enda til óprýði. Hún reyndist þá vera eins og bauja sem merkti stóran stein á botninum. Ég passa mig á honum næst.

Bakaleiðin gekk betur, nema einhverjir rugludallar sigldu yfir víkina, einmitt í sundleiðinni. Nú synti ég eins og venjulega, setti hausinn í vatnið og fór þetta léttilega.

Svo þurfti maður að fara aftur úr sundskýlunni í stuttbuxurnar. Það er ekkert grín í ljóslausu klósetti skal ég segja ykkur.

Nú buðu þau upp á hvítvín, bitamat og Grikkjann Zorba. Eftir því sem menn fengu sér fleiri glös, þeim mun líflegri varð dansinn. Ég átti eftir að fara upp 576 þrep frá höfninni upp í þorpið og lét mér eitt vínglas nægja.

Sólsetrið var stórkostlegt. Það eru engin orð til þess að lýsa fegurðinni þegar sjórinn, eyjarnar, himininn og sólin blanda sinn kokteil.

Við hafnarbakkann beið maður og bauð ferð með ösnum upp hlíðina. Flestir afþökkuðu og héldu í kláfinn. Nema við Vigdís og nokkrir Japanir sem ösnuðust upp stiginn. Brautin liggur í hlykkjum upp hlíðina. Ég hafði talið fjórtán anga, sjö í hvora átt, en þeir reyndust vera átján. Asnarnir höfðu skilið eftir sig úrgang í öðru hvoru þrepi og í rökkrinu var stundum erfitt að fóta sig.

Við gátum ekki annað en gengið, Anna Bjarna frænka segir að kláfa megi maður bara taka niður af fjöllum, aldrei upp. Og auðvitað hlýði ég henni.

Tveir asnar stóðu staðir í krika. „Ekki þessa leið“, kallaði Japaninn sem var hræddur um að skepnan steypti honum yfir vegginn.

Okkur miðaði ágætlega en samt komst asnalestin framúr okkur á endanum. Allir komust á leiðarenda, bæði við og hinir asnarnir.

Á hótelherberginu biðu tvær kökur. Fyrst hélt ég að Sigmundur hefði munað eftir mér, en hann hefði auðvitað ekki látið kökuna frá sér. Í mesta lagi eina.

Vigdís kom svo með hvítvínsglas og þá skildi ég að hún bar auðvitað ábyrgð á trakteringunum líka. Við sötruðum vínið og horfðum út á flóann eins og ástfangnir unglingar.


Allir kaflar í Grikklandssögunni:

Upphafið

Siglingin

Afmælið

Bílferðin

Ólympíuleikarnir

Ef þetta var ekki fullkomið dagfælisumar er það ekki til.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.