Á ferðalagi með Helenu

Santorini er í laginu eins og pulsa. Heimamenn segja svigi, því hver vill búa á pulsu? Á öðrum endanum er þorpi Oia (sagt ía) og þangað koma túristar úr skemmtiferðaskipum í hrönnum. Á hinum endanum er bær sem grófst í ösku og eðju fyrir nærri 4000 árum, Akrotiri.

Þeir kalla Akrotiri sitt Pompei, sem segir auðvitað sína sögu, því aldrei myndu Ítalir kalla Pompei sitt Akrótiri. En samt er þetta ótrúlega spennandi bær. Þarna voru götur og torg, hús á mörgum hæðum, listaverk á veggjum, rennandi vatn. Það eru ekki nema liðlega 200 ár síðan Íslendingar bjuggu til bæ og kannski ekki nema 100 ár síðan vatnið fór að renna um húsin.

En þarna var greinilega merkileg menning og tækni framar en víðast annars staðar. Rústirnar eru undir þaki sem eflaust hefur verið styrkt af Evrópusambandinu. Viðhald á byggingum, gangnagerð og forleifauppgröftur er styrktur af Evrópusambandinu. Það er ekkert skrítið að þeir vilji alls ekki ganga úr því.

Gaman hefði verið að sjá meira af þessum minjum, svo að við héldum nokkuð beina leið á minjasafnið í Fira. Stoppuðum að vísu á ágætum veitingastað og gæddum okkur á mat og drykk. Grískur matur er miklu betri en ég hafði þorað að vona. Jafnvel í svona túristagildru eins og Santorini óneitanlega er var maturinn afar góður. Grikkir eru með Gíró, sem er niðursneitt kjöt, baklava, sittlítið af hverju innbakað í brauð,  maklava, eins konar lasanja, steik, innbakaða osta, afar ljúfengt lamb, kryddað með óreganó og kanil, kjötbollur í rauðri sósu, köku með sítrónubragði og er þá fátt eitt nefnt. Svo eiga þeir bæði ágæt og lakari vín. Aftast pöntuðum við vín hússins í karöflum og létum okkur vel líka.

Við töfðumst svo lengi í matnum að safnið var lokað þegar við fundum það. Ekki vegna þess að við höfum fengið okkur allan þennan mat þetta hádegið, nei söfunum er lokað klukkan þrjú, enda hafa menn yfirleitt lokið góðu dagsverki á þeim tíma.

Svo vel vildi til að í næsta húsi var annað safn sem ekki fylgdi jafnströngum reglum um hvíldartíma starfsmanna. Þar voru til sýnis veggmyndir úr húsum aðalsmanna fyrir um 4000 árum. Ætli Kjarval verði sýndur á söfnum árið 6000, eða setja menn kannski bara einhver verk fram, reyna að púsla þeim saman og segja „íslenskur listamaður skömmu fyrir Viðreisnartímann“?

Vigdís er ótrúlega huguð almennt, en í þessari ferð tókst henni að slá öll met. Hún fór í fótabað. Einhver kynni að segja að til þess þyrfti ekki sérlega mikinn kjark, en í þetta sinn var kerið fullt af litlum pírana fiskum sem nörtuðu í húðina á henni. Þarna sat hún hin rólegasta, að vísu með svip sem sagði: „Hvers vegna í fjáranum var ég að hætta mér í þetta?“, en samt ótrúlega yfirveguð. Ég hefði í fyrsta lagi aldrei gert þetta og hefði ég verið plataður til þess (sem hefði þurft mjög stóran skammt of karöfluvíni til) hefði ég veinað stöðugt frá því að fyrsta táin hefði orðið fiskunum að bráð og þangað til kálfarnir hefðu horfið, skammt neðan við hnéskeljarnar.

Til þess að bæta gráu ofan á svart talaði hún um það allt kvöldið hvað þetta væri ótrúlega hressandi, þannig að ég hafði ekkert orð á örunum á ristinni á henni eða blóðinu sem lagaði úr hælnum.

Allt tekur enda og það gerði þessi Santorini dvöl okkar líka. Drengurinn sem bar töskuna niður sveiflaði henni aftur upp á öxlina og skokkaði upp allar tröppurnar. Sólarupprásin er ekki miklu síðri en sólsetrið, nema hún er öfugu megin á eynni og áður en maður vaknar. Samt vorum við ekki allt of sein og dagrenningin var skemmtileg kveðja á þessari sérstöku eyju.

Atvinnuleysi er mikið á Grikklandi, en þeir gera sitt besta til þess að draga úr því. Á flugvellinum þurftum við að sýna vegabréfin fjórum sinnum og vorum þó í innanlandsflugi. Ryanair býður upp á priority check-in. Það þýðir þarna að útvaldir fá að fara inn fyrir línu sem skilur hafrana frá sauðunum, en þar voru engin sæti og jafnheitt og hinum megin við línuna í þessu herbergi, á stærð við meðalstofu á Íslandi, sem var troðfullt af farþegum í þessari einu vél. Eins gott að við vorum á rólegum morgni.

Maður er varla farinn á loft þegar vélin lendir aftur í Aþenu. Þar beið okkar glæsibifreið frá Avis, Renó Clío, sem var ódýrasti kosturinn sem netið bauð upp á. Konurnar í afgreiðslunni gerðu sitt besta til þess að ná verðinu upp, en við stóðumst flestar freistingar. Þó ekki Helenu, hjálplega konu sem fór með okkur í bílinn og vísaði okkur til vegar á Pelopsskaganum. Hún var að vísu stundum svolítið dyntótt, talaði lágt og bað okkur að fara skrítnar leiðir, en vegir Seifs eru órannsakanlegir.

Verst fannst mér þó að hún talaði alltaf um hve margir jardar væru í næstu beygju. Nú veit ég að einn jardur er um það bil 0.91 metri, en oft gaf hún okkur lengri viðvörunarvegalengd. Tökum sem dæmi: Turn left in 300 yards. Nú þurfti ég að reikna 300×0,91 til þess að vita hve margir metrarnir væru. Ég byrjaði á 300×0,9 jafnt og 270 og bætti svo við 300×0,01 sem er 3, lagði næst saman og fékk 270+3=273 metrar. Þá voru eftir hinir aukastafirnir, en ég ákvað að þeir mættu bíða betri tíma.

Þá hugsaði ég hvort hún meinti 300 jarda frá því að hún byrjaði að tala eða þegar setningunni var lokið. Líklegast fannst mér að rétt væri að miða við miðja setninguna, en þegar ég var búinn að finna það út hafði ég gleymt því hvor við vorum nákvæmlega þegar við byrjuðum.

Þegar við vorum föst í miðbæ Kórintu ákvað ég að Vigdís væri ekki síðri leiðsögumaður en Helena og hún tók stjórnina í sínar öruggu hendur. Kórinta er borg sem maður vill ekki enda í. Í úthverfunum er olíuhreinsistöð og álengdar sér maður kjarnorkuver. Þetta eru fallegustu hlutar borgarinnar.

Allt var með öðrum brag í Kórintu hinn fornu sem við fundum eftir að við lækkuðum í Helenu. Á Pelopsskaganum er mjög mikið af fornminjum og ekki útilokað að við höfum misst af einum uppgreftri eða tveimur. Hof Appólós var víða og stundum stóðu nokkuð margar súlur uppi, en ekki veit ég hvort nokkuð af þessu var ofanjarðar þegar fornleifafræðingar mættu með teskeiðarnar.

Ofan við bæinn er kastali upp á hæð og í hann þurftum við að komast. Ég lifði af grimman hund á leið minni á klósett, en þangað vildi hann engum hleypa nema gegn borgun. Loks komumst við inn fyrir borgarhliðið og höfðum þá nákvæmlega 35 mínútur til þess að skoða svæðið. Við erum nokkuð létt á fæti og trítluðum upp hlíðina að toppnum sem okkur sýndist vera.

Víða eru þrepin úr marmara, sem þýðir að þau endast vel, en eru hins vegar glerhál, sem dró aðeins úr hraðanum. Samt stikuðum við býsna rösklega þegar við mættum fólki sem sagði okkur að í fyrsta legi væri þessi toppur lokaður fyrir umferð, í öðru lagi væri ekkert merkilegt að sjá þar og í þriðja lagi væri þetta alls ekki toppurinn.

Vopnuð þessum upplýsingum bjuggum við til nýja áætlun, alveg án hjálpar Helenu, sem virkaði best í bílnum og þá ekkert sérlega vel. Fyrst tókum við stefnuna á tré sem leit út svipað og það sem er í sviðsmyndinni af Beðið eftir Godot. Enginn beið samt eftir okkur þegar við komum þangað, en þá sáum við toppinn.

Við jukum hraðann, en á þessum stíg var ekkert að sjá. Vigdís benti á að tíminn yrði sífellt knappari, en ég neitaði að hlusta á slíkt, við yrðum að ná á toppinn. Hitinn var 32 gráður og svitinn rann niður ennið, draup af augabrúnunum og niður á hökuna. Sólvörnin (númer 90 held ég hjá mér, 3 hjá Vigdísi) hljóp í kekki. Ekkert vatn var með í ferðinni og alls óljóst hver leiðin var. Samt komumst við upp, litum framyfir brúnina og hugsuðum: Þá er þessu aflokið.

Í fjarska heyrðist skipsflauta. Þetta var hliðvörðurinn sem átti bara eftir tíu mínútur á vaktinni. Nú var ekkert annað í stöðunni en að hlaupa við fót. Ég fór aðeins á undan og valdi leiðina eins og þaulkunnugur landkönnuður.

Ég valdi ranga leið.

Stígurinn var lítt troðinn og alsettur brenninetlum, sem er ekki þægilegt þegar maður er í stuttum buxum. Ökklarnir urðu blóðrisa og skipsflautan veinaði aftur. Þýskir ferðamenn í rústum virtust ekki hafa hugmynd um hvort þeir væru á leið upp eða niður fjallið og töldu þann kost vænstan að þramma á eftir okkur, því við virtumst vita eitthvað í okkar haus því að við hlupum. Eitt andatak velti ég því fyrir mér hvort þetta væri ekki óviðeigandi fyrir fólk á okkar aldri að hlaupa svona, en svo sá ég að Vigdís hljóp aðra leið en ég og átti engan kost annan en að fylgja henni.

Í því að hliðvörðurinn ýtti hliðinu aftur náðum við að stökkva út, rétt eins og sálin hans Jóns míns slapp inn um Gullna hliðið. Þjóðverjarnir eru þarna eflaust enn.

Bíllinn var gott skjól gegn hitanum því hann var loftkældur. Einhvers staðar þurftum við að gista og fyrir einhverja lukku fundum við Nafplio, borgina við hafið, sem hvorugt okkar hafði heyrt nefnda. Í Lonely Planet bókinni var talað um hótelið Aetoma sem mér hugnaðist ekki, en Vigdís vildi prófa þannig að þar pöntuðum við.


Allir kaflar í Grikklandssögunni:

Upphafið

Siglingin

Afmælið

Bílferðin

Ólympíuleikarnir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.