Við vorum komin niður hæðina og gengum framhjá pari sem var að kyssast á bekk.
Við fengum okkur bita og ég hringdi í son okkar sem átti afmæli, stórafmæli meira að segja. Hann varð þrír í þriðja veldi. Það gerist ekki oft að menn ná svoleiðis áföngum.
Bara til upprifjunar minni ég á að einn í fyrsta veldi er einn og tveir í öðru er fjórir. Svo er þrír í þriðja tuttugu og sjö og fjórir í fjórða eru tvöhundruð fimmtíu og sex. Þannig að það eru nokkur ár í næsta afmæli af þessu tagi hjá honum.
Sem betur fer var hann alveg klár á þessum merka áfanga, en þegar ég spurði hvernig hann ætlaði að halda upp á hann sagðist hann ætla að halda villt partí á þremur hæðum. Af því að ég bý á tveimur af þessum þremur hæðum þegar ég er á Íslandi, reyndi ég að stoppa hann strax í þessari vitleysu, enginn hefði gaman af svona pælingum nema stærðfræðinördar. Það setti að mér kvíða.
Þess vegna leið mér miklu betur þegar við fengum símtal um kvöldið um að lögreglan væri komin á staðinn og allt væri í jafnvægi, meira að segja búið að hafa samband við iðnaðarmenn.
Á hliði Agóra-garðsins er hlið sem sagði okkur að hann hefði verið lagaður með styrk frá Íslandi í gengum Evrópusambandið. Mikið skelfing var ég stoltur af þeim ágætu stjórnmálamönnum sem komu okkur þangað inn á sínum tíma. Við fengum þetta skilti og það er miklu betra en atkvæðisréttur í Evrópuþinginu.
Heillegasta byggingin á svæðinu reyndist hafa verið endurreist af Rockefeller fyrir sextíu árum eða svo.
Við röltum áleiðis heim í hótelið. Parið var enn að kyssast á bekknum. Þetta tekur allt sinn tíma.
Rétt við hótelið er glæsilegt safn, tileinkað Akrópólis. Það stendur á súlum og í gegnum gólfið sem var úr gleri sá maður rústir undir því. Þetta getum við gert þegar við reisum þinghús Guðjóns Samúelssonar á móti Herkastalanum.
Um kvöldið rigndi eins og hellt væri úr fötu. Við vorum á leið á veitingastaðinn Dynoesis, en það er eins menn muna vínguðinn og stóðum í skjóli undir svölum. Mér varð hugsað til brennivínsins sem vinur okkar fótboltamaðurinn hafði trakterað okkur á kvöldið áður. Það virðist siður í hverju landi að reyna að plata versta vín landsins ofan í útlendinga. Þessi skyndikynni okkar við þessar guðaveigar yrðu ekki endurnýjuð í kvöld.
Regnið breyttist úr þéttum vegg í gardínu. Þegar það var orðið að úða lögðum við aftur í hann og reyndumst aðeins eiga rúmlega hundrað metra eftir.
Við fengum rómantískt borð með kertaljósi og útsýni yfir Akrópólis-hæðina. Píanóleikarinn spilaði fallega, fannst mér, og ég hafði orð á því að hann tæki ekki sömu lummurnar og alls staðar glymja í eyrum. Auk þess væri hann ekki með þennan útflúraða stíl sem margir freistast út í, bara af því að þeir geta það.
Betur hefði ég þagað, því að varla hafði ég sleppt orðinu fyrr en hver klisjan eftir Andrew Lloyd Webber barst frá slaghörpunni með endalausum trillum og krúsídúllum.
Við næsta borð settist hópur af konum. Flestar glaðlegar ungar konur, en við endann sat sú sem var greinilega í forsvari fyrir þær, einstaklega freðýsuleg kerling. Í því að ég hugsaði hvað hún liti út fyrir að vera leiðinleg, hvessti hún á mig augun og ég fann að mér hitnaði á öxlunum þegar gneistarnir lentu þar.
„Hún hefur skilið hvað ég var að hugsa“; sagði ég við Vigdísi.
„Auðvitað séð hugsunarblöðruna fyrir ofan þig“, svaraði hún, því að hún getur verið mjög skilningsrík.
„Ég áttaði mig bara ekki á því að hún skildi íslensku“, bætti ég við, því að auðvitað hefði ég aldrei hugsað svona á veitingastað heima.
„Heldurðu að Gúgúl-transleit sé ekki til á Grikklandi?“
Ég gætti þess að skortra augunum ekki af Vigdísi allt kvöldið eftir þetta.
Daginn eftir var fyrsti maí og við áttum von á hasar í Aþenu. Konan í afgreiðslunni sagði okkur að mótmælafundurinn væri framan við þinghúsið og hefði byrjað klukkan tíu. Við vorum orðin hálftíma of sein og ekki til setunnar boðið. Sem betur fer var líka stutt í þinghúsið.
Þetta var aumasti mótmælafundur sem ég hef komið á. Auðvitað er erfitt að vera beittur í áskorunum á stjórnvöld þegar það er sjálfur stjórnarflokkurinn sem stendur fyrir mótmælunum.
Nokkrum rauðum fánum hafði verið dreift meðal mótmælenda og þeir voru auðvitað með skilti. En konan sem flutti lokaræðuna, sem var eina ræðan sem við heyrðum, fékk bara kurteislegt klapp. Svo var settur geisladiskur í græjuna með einhverjum grískum trúbordor sem gaulaði þrjátíu og tvær vísur af einhverjum óði sem eflaust fjallaði um hve skítt allir hefðu það. Að minnsta kosti voru allir daprir að sjá nema lögregluþjónarnir sem léku á als oddi. Mér varð minnisstæðast að sjá tvær rauðar mæðgur með heimalitað hár, eldrautt og vínrautt.
Við urðum ekki vör við það sem Telegraph kallaði óróa um alla Aþenu á fyrsta maí. Ég held að fréttin þeirra hafi verið skrifuð 30. apríl. Ég held að þeir séu ekkert staðreyndaheftir alltaf. Við röltum víða og fundum engin læti. Einn sáum við sem gekk gæsagang í skóm með dúski framan á tánum. Vigdís vinkaði til einhvers manns í bíl með dökkum rúðum og löggan sagði að það væri forsetinn. Ég er ekki viss um að hann hafi vinkað á móti, líklega farið of hratt til þess að átta sig á því að þetta væri Vigdís.
Næsta stopp var ólympíuleikvangurinn frá 1896. Ég hafði ætlað að sýna leigubílstjóranum hvað ég væri vel lesinn og fór að tala um Spiridon Louis, sem vann einmitt fyrsta maraþonið, en hann fór þá að tala um uppruna þess, þegar Aþenumenn unnu glæstan sigur og manngrey gaf upp öndina í því að hann hafði hlaupið frá Maraþon til Aþenu til þess að segja frá sigrinum. Leikvangurinn var sagður lokaður vegna verkfalls, en hann er eins opinn og hægt er, blasir við öllum, þannig að ég er hræddur um að þetta verkfall geti staðið lengi.
Annars var margt lokað þennan dag, þannig að kannski taka þeir fyrsta maí sæmilega alvarlega. Vigdís gefur sig nú samt ekki fyrr en í fulla hnefana. Umhverfis nútímalistasafnið er búið að reisa hátt grindverk með bárujárni, nánast eins og það sé í herkví. Samt gengum við heilan hring. Það þýddi ekkert fyrir mig að benda á að það væri búið að taka gler úr gluggum, þannig að þetta væri örugglega ekki bara einhver fyrsta maí lokun.
Þegar við vorum búin að ljúka hringnum sagði svo Vigdís: „Alveg eins og ég hélt. Allt lokað í dag.“ Ég sagði auðvitað ekki orð.
Svo ókum við um allt í rauðum strætisvagni og höfum sofið víða um bæinn, því það er ósköp gott að sofna undir Thedórakis, sem þeir spila í tíma og ótíma. Sérstaklega ótíma.
Véfréttin í Delfí er alræmd fyrir sín tvíræðu svör. Öll hennar hof eru nú hrunin, en margt hefur verið grafið upp. Ég er hissa á hvað menn eru snjallir að átta sig á hvaða guðir eru á ferð þegar á þá vantar yfirleitt höfuðið og oft nánast alla útlimi.
Véfréttin sjálf var í hofi Appollosar. Menn eru ekki alveg sammála um það á hverju konurnar sem svöruðu spurningunum voru. Einhverjir halda að eiturgufur hafi komið upp úr gólfinu, en aðrir að þær hafi tuggið eiturlauf, nema hvorttveggja hafi verið. Alexander mikli spurði að sögn hvort honum tækist að leggja undir sig heiminn. Þegar véfréttin sagði honum að koma aftur síðar dró hann hana á hárinu út að dyrum. Þá veinaði hún: „Þú verður sigursæll.“ Við svo búið sleppti hann henni.
Ég var forvitinn að heyra hvernig næstu kosningar á Íslandi fara og lagði þá spurningu fyrir véfréttina. Menn ráða hvort þeir trúa því eða ekki, en allt fór á sömu leið hjá mér og Alexander. Það var nógu skýrt fyrir mig.
Delfí stendur í fjallshlíð og efst í hlíðinni er ævaforn íþróttaleikvangur. Nú er hann grasi gróinn, en í grasinu skreið skjaldbaka. Vigdís mundi eftir sögunni af héranum og skjaldbökunni. „Og skjaldbakan er greinilega ekki komin í mark enn.“
Ég held að hún þurfi að fara að rifja þessa sögu betur upp.
Eftir göngu um svæðið fórum við á safnið sem er vel þess virði að skoða. Þar er til sýnist styttur og aðrir smáhlutir sem fundist hafa á svæðinu. Meðal annars var þarna sfinx, rétt eins og sá sem er í Egyptalandi (nema miklu minni). Ég hélt að sfinxar hefðu einmitt átt að ráða gátur (eða spurðu þeir?). Að minnsta kosti er hann þarna enn í góðu ástandi.
Bílstjórinn sem fór með okkur að Delfí var ekki sá allra sleipasti í ensku og vegna þess að ég er ekki sá sleipasti í grísku er ég ekki viss um að allt hafi komist til skila. Hann taldi þó sjálfsagt að Þjóðverjar borguðu skaðabætur eftir seinni heimsstyrjöldina, en þar komu þeir fram sem miklir fantar og drápu nær alla menn í heilu þorpi sem við fórum í gegnum.
Hann sagði að við værum heppin að fara á laugardegi. Daginn áður hefðu allar leiðir út úr borginni verið pakkaðar. „Allir vildu fara í frí“, sagði hann.
„Þetta er kannski síðasti séns“, bætti hann við og þurfti ekki að ræða það frekar.
Svo ók hann okkur til baka á hótel í borginni Pireus, hafnarborg Aþenu. Við áttum bókað far með ferjunni klukkan rúmlega sjö og eins gott að vera ekki seinn. Ekki get ég mælt með þessu hóteli, nema nettengingin var þokkaleg. Svo góð reyndar að við vöknuðum nokkrum sinnum um nóttina vegna skilaboða frá einhverjum manni sem taldi að hann ætti við mig brýnt erindi snemma á sunnudagsmorgni.
Um kvöldið fengum við okkur fínasta kvöldverð í snotrum veitingastað, Bosporus að nafni. Þar voru að minnsta kosti ellefu þjónar, hópur af ungu fólki. Meira en einn af hverjum milljón Grikkjum vann sem sé þarna. Við pöntuðum Mixed grill, úrval af kjötréttum elduðum að hætti innfæddra. Góðu fréttirnar voru þær að þetta var afbragðsmatur, þær slæmu að þegar við vorum búin að borða áttum við meira eftir en við höfðum í okkur látið.
Ferðin til Santorini var tíðindalítil. Við höfðum pantað sæti og ég var varla sestur þegar ég lygndi aftur augunum. Í svefnrofunum heyrði ég gregoríanskan söng og hugaði með mér hvað það væri vel til fundið að spila þetta svo farþegar svæfu betur. Þegar ég vaknaði aftur áttaði ég mig á því að í raun var bein útsending af messu þar sem síðskeggjaðir klerkar kyrjuðu sálmasöng í tvo og hálfan tíma. Þori ekki að segja til um hvort þetta er úthugsað svefnmeðal.
Man ég þá sögu sem séra Árni Bergur Sigurbjörnsson sagði okkur á sínum tíma. Þau hjón höfðu leyft barnabarni að gista og sá var kröfuharður, vakti heimilisfólk með ýmsum kröfum um nóttina, en var þó sprækur mjög í barnamessunni morguninn eftir. Reyndar svo mjög að presturinn og afinn varð að lesa honum pistilinn á heimleiðinni, svona mætti aldrei láta í kirkju.
Eftir hádegið bjó afinn sig til messu á ný og drengurinn vildi ólmur fara með, en afinn ætlaði að kenna honum lexíu og sagði að svona óþekktaranga væri ekki hægt að fara með í kirkju. Varð pilturinn þá hinn ljúfasti og lofaði að vera stilltur. Og klykkti út með: „Ég skal engan vekja.“
Santorini er eldfjallaeyja sem mun hafa verið hringlaga á sínum tíma. Ég hét að gígbarmarnir einir hefðu staðið upp úr hafinu, en miðjan sökk víst eins og Bárðarbunga núna (nema Bárðarbunga er ekki úti á reginhefi). Nú er hún eyjaklasi og í honum miðjum er nýleg eyja sem varð til í gosi árið 1967.
Flest húsin eru hvít og með bogalaga þaka. Það er ósköp sjarmerandi. Þegar við komum inn í Fíru (hún heitir Fira) beið okkar „drengur“ frá hótelinu og vippaði tuttugu kílóa töskunni upp á öxlina á sér. Hvernig eru þá mennirnir? hugsaði ég, en sýndist pilturinn reyndar vera um fertugt.
Þegar maður sat á pallinum framan við herbergið og horfði út á flóann var tiltölulega auðvelt að hugsa ekki mikið um kreppuna á Grikklandi.
Allir kaflar í Grikklandssögunni: